02.07.1918
Neðri deild: 61. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í C-deild Alþingistíðinda. (2369)

107. mál, verðlagsnefndir

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Þetta frv., sem hjer liggur fyrir, innibindur það ekki beint í sjer, eftir því sem jeg skil það, að ekki skuli vera ein verðlagsnefnd fyrir alt landið, enda virðist mjer, að hún þó hafi haft talsverð áhrif á vöruverð yfir höfuð, og hygg jeg, að mjög viðsjárvert geti verið að afnema, að ein verðlagsnefnd sje fyrir alt landið. Það getur komið til þess, að meira samræmi þurfi í verðlagið en ein verðlagsnefnd, hver í sínum kaupstað, gæti komið á. Það, sem jeg held að ekki sje í þessu frv. og vanti í það, er það, að verksvið nefndanna geti einnig náð til kauptúna, sem eru mörg og miklu fleiri heldur en kaupstaðirnir, og ef því verður ekki bætt inn í frv. áður en það fer hjeðan úr deildinni, virðist mjer mjög mikið vanta, því að þar hygg jeg einmitt mesta þörf á verðlagsnefndum.

Þar sem hv. framsm. (S. St.) tók fram, að hann hjeldi ekki að mikil þörf mundi vera á því, að ákveða verðlag á útlendum vörum, þá vil jeg þó benda á, að það getur verið svo mikill munur á flutningskostnaði og fleiru, að það getur þurft að taka tillit til þess. Um innlendar vörur hygg jeg, með því að verðlagið er, eins og kunnugt er, mjög misjafnt, að nauðsynlegt sje að hafa verðlagsnefnd, og þá helst eina verðlagsnefnd fyrir alt landið. Þó að reynslan hafi sýnt, að nokkuð megi fara í kring um það, þá mun þó, með nákvæmu eftirliti, vera lagðar talsverðar hömlur á, að það fari fram úr hófi. Þetta tvent finst mjer viðsjárvert að fella niður, að ein verðlagsnefnd sje fyrir alt landið, og að því leyti, sem kynni að verða að skipa sjerstakar verðlagsnefndir fyrir kaupstaðina, þyrfti verksvið þeirra einnig að ná til hinna einstöku kauptúna.