13.05.1918
Neðri deild: 21. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

14. mál, bæjarstjórn á Siglufirði

Frsm. (Einar Arnórsson):

Það voru að eins örfá orð, sem jeg ætla að segja, til þess að leiðrjetta misskilning háttv. 1. þm Eyf. (St. St.). Það er sem sje misskilningur hjá honum, að lögreglustjórar hafi alment dómsvald hjer á landi; það er ekki svo, heldur á að eins hinn tilvonandi lögreglustjóri á Siglufirði að hafa það í almennum lögreglumálum.

Háttv. þm. (St. St.) var að tala um þá harðdrægni, sem kæmi fram í garð Siglufjarðar. En þetta finst mjer litlu skifta, því að sú harðdrægni mundi ekki koma fram við Siglufjörð eða kauptúnið, því að það hefir hefir haft mestar tekjur sínar af starfrækslu útlendinga þar í firðinum, svo að bæjarstjórn á Siglufirði mundi veitast ljett að ná þessu inn í aukaútsvörum, sem hún með tímanum mundi geta lagt á þessa útlendu kaupsýslumenn, og svo af öðrum utanbæjarmönnum, sem hafa þar atvinnu um nokkurn tíma.

Annars finst mjer það koma úr hörðustu átt, er háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) fer að lasta það, að reynt sje að spara landssjóðsfje, því að honum til lofs skal það sagt, að hann er einhver sá allra sparsamasti, þegar talað er um fjárveitingar úr landssjóði yfirleitt, en það virðist ekki gilda, þegar fjárveitingarnar eiga að ganga til Siglufjarðar eða Eyjafjarðarsýslu.

Í þessu tilfelli skiftir þessi fjárveiting litlu fyrir landssjóð, en nefndinni virtist lítil ástæða til þess að skjóta miklu til, því að hún sá ekki neina brýna nauðsyn á þessari breytingu fyrir Siglfirðinga, að svo komnu máli, hvað sem verða kann að stríðinu loknu.

Það er annars engin ástæða til þess að ræða meira um þetta, og læt jeg mjer í ljettu rúmi liggja, hvað ofan á verður.