17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Framsm. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Það hefir nú verið farið nokkrum orðum um brtt. þær, sem fram hafa komið við frv. þetta; þar á meðal hefir hæstv. forsætisráðh. minst á brtt. mína.

En um hana er það að segja, að jeg mundi ekki hafa borið hana fram, ef jeg hefði haft nokkra von um, að sjerstakar ráðstafanir yrðu gerðar til þess að ljetta undir með atvinnuvegunum.

Það, sem fyrir mjer vakti með brtt., var það að styðja þennan atvinnuveg tel jeg, að það muni vera helsta og besta bjargráðið. En sje það nú í ráði og fullvíst, að stjórninni verði veittar heimildir til slíkra framkvæmda, þá get jeg látið mig það litlu skifta, hver afdrif þessarar brtt. verða, en auðvitað í trausti þess, að þessu líkar ráðstafanir verði gerðar.

Jeg átti alls ekki við það með brtt., að stjórnin ætti að gegna fjárbeiðnum í hverju einstöku tilfelli, heldur að eins þar, sem brýn þörf væri. Og þess þykist jeg fullviss, að með nokkurri eftirgrenslun hefði það verið vinnandi vegur að fá fullvissu um það, hvar slík þörf væri fyrir hendi.

Þá vildi jeg gera athugasemdir nokkrar við ræðu háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.). Hann talaði um orð þau, sem jeg ljet falla við 2. umr. málsins, og gætti þar misskilnings ekki alllítils hjá honum.

Jeg talaði þá um það, hve mikilsvert það væri að hjálpa mönnum til að halda sínu, bústofni og öðrum eignum.

Jeg tók til dæmis mann, sem ætti 50 ær, hve mikið það væri hyggilegra að hjálpa honum til þess að halda þeim heldur en að láta hann farga þeim sjer til framfæris og hjálpa honum fyrst, er hann hefði eytt þeim, og hefði það dæmi átt að vera fullljóst öllum sveitamönnum, bæði þeim, sem eiga hjer sæti, og öðrum.

Nú skal jeg minnast á sama dæmið aftur, til frekari skýringar. Jeg tek aftur til dæmis mann, sem á 50 ær. Eftir fjárverði nú mundu þær seljast á 30 krónur hver. Fargi maðurinn nú ánum, mundi andvirði þeirra nema 1.500 krónum. Þurfi nú maðurinn að farga ánum, sjer og sínum til framfæris, hefir bústofn hans rýrnað um þessar 1.500 krónur En setjum nú svo, að maðurinn tæki 1.500 króna lán, til þess að lifa af; skuld hans með vöxtum væri þá 1.590 krónur (vextir reiknaðir 6%); maðurinn hjeldi þá auðvitað ánum. Jeg reikna honum fyrir vanhöldum og öllum kostnaði ullina alla og helming dilkanna, og hygg jeg, að allir geti fallist á, að fyrir kostnaði er þá vel í lagt. Eftir verða þá 25 dilkar, sem reikna má hvern á 18 krónur. Það verða samtals 450 krónur. Ágóðinn verður því 360 krónur á ári. Maðurinn gæti því greitt skuld sína á hjer um bil 4 árum og ætti bústofn sinn (eða þessa 50 ær) óskertan.

Þetta dæmi er einföld sönnun þess, hversu miklu betra það er að hjálpa mönnum til þess að halda bústofni sínum en farga honum sjer til lífs, sem aldrei er annað en aumasta neyðarúrræði.

Hv. þm. (Þór. J.) gat þess, að 5 kr. tillagið hrykki skamt, og það veit jeg vel, en það er nú áskilið, að sveitar- eða bæjarfjelagið leggi fram 10 krónur fyrir hvern íbúa í hjeraðinu, á móti 5 króna tillagi landssjóðs.

Sje nú gert ráð fyrir, að 1/4 íbúa í hjeraði þarfnist hjálpar, verður hjálpin, sem veitt er úr landssjóði, 20 krónur á mann. Þar við bætast svo 40 krónur, sem koma eiga úr sveitar- eða bæjarsjóði. Fimm manna fjölskylda fær þá t. d. 300 krónur, og verður það að teljast talsverður stuðningur. Og sje nú litið til dæmisins, sem jeg nefndi áðan, sjest það, að þeim manni mundi veitast það auðveldara að endurgreiða álíka skuld á 4—5 árum, ef hann gæti haldið bústofni sínum, heldur en að farga af honum í stórbaga, sjer til framfærslu.

Þetta vildi jeg sýnt hafa með ummælum mínum, og vona jeg nú, að hv. þm. skiljist, hvað jeg átti við, sem var að eins það að sýna fram á, hversu miklu betur sá maður væri settur, sem gæti haldið bústofni sínum, bæði sjer til bjargar og til endurgreiðslu á dýrtíðarlánum, heldur en hinn, sem verður að farga honum sjer til framfæris.

Og þá ætti líkt dæmi ekki síður heima um sjávarútveginn, þar sem arðurinn er bæði meiri og fljótteknari.