20.06.1918
Neðri deild: 52. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (475)

28. mál, fé úr landssjóði til viðhalds Ölfusárbrúnni

Pjetur Ottesen:

Háttv. framsm. (M. P.) tók það fram, að þar, sem eldri flutningabrautir væru, yrðu hjeruðin langharðast úti. En hins ber þá og að gæta, að þau sömu hjeruð eru þá líka lengur búin að njóta þægindanna af bættum samgöngum, og menn hafa þar ekki þurft eins lengi og sumstaðar annarsstaðar að klöngrast yfir grjót og urðir og brjótast yfir fen og foræði. Vona jeg, að það verði stefna þingsins í framtíðinni, að ljetta þessu viðhaldi af sýslufjelögunum og að landssjóður taki það að sjer, því að eins og háttv. framsm. (M. P.) tók fram, eiga sýslufjelögin erfitt með slík útgjöld, þar sem þau hafa bæði litla og ljelega tekjustofna. En jeg vil, að jöfnuður komist á í þessu efni, áður en landssjóður tekur nokkursstaðar þátt í viðhaldinu, en það er alls ekki tilgangur háttv. fjárveitinganefndar, eftir því sem marka má af nefndarálitinu, síður en svo.