05.07.1918
Efri deild: 58. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (485)

28. mál, fé úr landssjóði til viðhalds Ölfusárbrúnni

Framsm. (Eggert Pálsson):

Hv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) þótti gallar þeir, sem á Ölfusárbrúnni hafa verið frá upphafi, koma seint í ljós. Ekki er ólíklegt, að slíkir gallar leynist fyrir augum annara manna en sjerfróðra.

Mjer er ekki kunnugt um, að brúin hafi verið athuguð af verkfróðum manni, frá því hún var gerð, fyr en í vor. Ef þetta á að kallast vanræksla, sem jeg skal ekkert um segja, þá er sýslunefnd ekki um að kenna. Sýslunefndir hafa ekki á að skipa verkfróðum mönnum. Sökin væri þá einmitt hjá landssjóði.

Hvað hitt snertir, að landssjóður kosti viðgerð á upphaflegum smíðagöllum á stórbrúm, þá tel jeg það sjálfsagt. Þetta er mín persónulega skoðun, en hvað þingið mun gera í framtíðinni í þessum efnum, get jeg auðvitað ekkert sagt um. En jeg geri fastlega ráð fyrir, að þessari reglu verði fylgt.

Þegar steinbrýr hafa verið settar í staðinn fyrir gamlar trjebrýr, hefir verkfræðingur landsins lagt til, að 2/3 kostnaðarins væru greiddir úr landssjóði. Þetta hefir þingið jafnan fallist á. Í þessu er fylgt sömu meginreglu og í frv. því, sem nú er til umræðu, og er engin ástæða til að halda, að sú regla verði lögð niður.

Það er ekki við því að búast, að sýslufjelögin geti staðið straum af endurbótum, sem kosta helming, eða 2/3 hluta, af upphaflega brúarverðinu, má ske svo að tugum þúsunda skiftir.