06.05.1918
Neðri deild: 17. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

32. mál, fræðsla barna

Þorsteinn Jónsson:

Þetta frv. á víst að koma í staðinn fyrir það, sem stjórnin lagði fyrir þingið. En frv. þetta fjallar að eins um einn liðinn, launakjörin.

Eins og menn muna, voru hjer í fyrra tvær till. á ferðinni um það, að stjórnin tæki til athugunar fræðslumálalöggjöfina. Var önnur þeirra samþykt, sú till., sem lengra gekk og fór harðari orðum um þau kjör, sem kennarastjettin ætti við að búa í landinu. Nú sýnist mjer, sem stjórnin hafi með frv. þessu viljað fara að vilja þingsins, eins og hann lýsti sjer í fyrra.

Jeg skal taka það fram, þó að mjer virðist hjer um óhjákvæmlegt nauðsynjamál að ræða, að þá álít jeg það alls ekki heppilegt að þurfa að gera ákveðna endalykt um laun nokkurrar stjettar, á meðan verðmæti peninga er svo á reiki sem nú er.

Frv. stjórnarinnar ætlar háttv. mentamálanefnd víst að stinga undir stól, en þá vil jeg lítils háttar athuga gerðir nefndarinnar. Það er óneitanlega svo, að hún hækkar nokkuð launakjör kennaranna frá því, sem þau eru ákveðin með lögunum frá 1907. En þá er að athuga, hverjum sú hækkun kemur aðallega til nota, sem ákveðin er í þessu frv.

Eins og háttv. frsm. (J. B.) tók fram áðan, vill svo vel til, að allur fjöldi kennara á landinu hefir ekki átt við þau kjör að búa, sem lögin frá 1907 ákveða lágmark fyrir. Þeir kennarar, sem eiga við lágmarkslaun að búa, munu vera þeir, sem nýir eru í starfinu, og farkennarar. Samkvæmt þessu frv. hækka aðallega laun farkennara og heimavistarskólakennara.

Um hina fyrri er það að segja, að þeir eru víst flestir lausir og slyppir menn, og geta því unnið fyrir lítil laun. En launakjör þeirra verða ekki til að draga þá að starfinu. Hækkun samkvæmt þessu frv. er þeim dálítil bót frá því, sem er. En auðvitað getur hún ekki trygt góða menn til lengdar við starf þetta.

Þá er um laun fastra kennara við skóla í kaupstöðum. Jeg hygg nú reyndar, að sú hækkun verði meira á pappírnum en í framkvæmdinni, því að nú mun á flestum stöðum búið að hækka laun þeirra, svo að þessi lög ná ekki til þeirra.

Þá er ein talsvert mikil launahækkun handa einum flokki kennara, það er aðalkennaranna við heimavistarskóla. Sú hækkun er 15 kr. á viku, en það er ekki svo hættuleg hækkun fyrir þann, sem borga þarf, vegna þess, að sú stjett kennara er ekki til og hefir ekki verið til hjer á landi. (P. J.: Hún er nefnd í fræðslulögunum). Já, það er hún að vísu, en hún verður víst ekki til hjer á landi fyrir þann tíma, sem frv. þetta, ef að lögum verður, fellur úr gildi, sem sje árið 1921.

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) tók það fram, að sjer fyndist það óþarfi, að þessi launahækkun ætti að ná til þeirra manna, sem að eins kendu fáeinar vikur af árinu, og er jeg honum sammála um það.

Jeg sje, að nefndin ætlast til, að haldið verði áfram undirbúningi til umbóta á fræðslulögunum. En þá vil jeg spyrja stjórnina, hvort hún sjái sjer fært að halda honum áfram, ef þingið heimilar ekkert fje til þess.

Jeg og háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) bárum fram till. á fyrra þingi um fjárframlag til undirbúnings breytingu á fræðslulögunum, en hún var feld. En ef stjórnin álítur sjer fært að halda áfram að undirbúa málið, án sjerstaks kostnaðar, þá er það auðvitað ekki nema gott og blessað.