18.06.1918
Efri deild: 46. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í B-deild Alþingistíðinda. (533)

32. mál, fræðsla barna

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg tel ekki ástæðu til að fara lengra út í þetta mál en þegar hefir verið gert áður. Jeg er fullkomlega sömu skoðunar nú, eins og jeg var áður, að þingið hefði átt að halda sjer við frv. stjórnarinnar. Hins vegar ljet háttv. mentamálanefnd Nd. þá skoðun uppi, að þetta frv., sem hjer liggur fyrir, væri að eins bráðabirgðabót, og sama hefir hv. nefnd hjer látið í ljós.

Háttv. frsm. (K. D.) sagði, að ef til vill kæmi hækkunin ekki heppilega niður á kennurunum, en færði það til málsbóta, að kaupstaðakennarar hefðu þegar fengið nokkra uppbót. Það er samt alveg rjett hjá háttv. frsm. (K. D.), að hækkunin kemur ekki heppilega niður. Bótin er hvergi nærri eins mikil og ætti að vera hjá þeim, sem helst skyldi, þ. e. þeim, sem gera kenslu að lífsstarfi sínu, ekki þeirra, er að eins koma að starfinu, heldur hinna, er starfa að því áfram. Það er ekki nema rjett og sjálfsagt að bæta kjör þeirra svo, að þeir hverfi ekki strax frá kenslunni, þegar þeim býðst annað.

Það er ekki ástæða til þess að hafa á móti brtt. nefndarinnar, og það er ekki ósanngjarnt, að landssjóður nú til bráðabirgða leggi fram meira fje en sveitirnar, en ef það á að vera til frambúðar, þá er það mjög athugavert, að landssjóður leggi fram meira fje til að launa barnakennarana en sveitirnar.

Mjer skilst að nefndin hefði átt að leita álits fjárveitinganefndar um frv. og brtt. sínar, samkvæmt því er þingsköp mæla fyrir, þótt jeg hins vegar telji víst, að fjárveitinganefndin hafi ekkert við fjárhagshlið málsins að athuga, og aðalatriðið er, að gerð sje sæmileg bót á launakjörum kennara. En frá landssjóðs hálfu er hjer ekki eingöngu um fjárhagsspursmál að ræða, heldur er frv. og athugavert vegna þess að það gengur inn á þá braut, að landssjóður leggi fram meira fje en hlutaðeigandi sveitarsjóðir.

En þar sem þessi hlið málsins snertir mig ekki sjerstaklega, skal jeg ekki tala frekar um hana, og sem bráðabirgðabót handa kennurum má, una við frv. en það gleður mig, að nefndin telur frv. stjórnarinnar vera heppilegt til frambúðar.