11.06.1918
Efri deild: 41. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í B-deild Alþingistíðinda. (748)

75. mál, heimild til ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum

Magnús Torfason; Jeg get verið hv. bjargráðanefnd þakklátur fyrir undirtektir hennar og þá ekki síður háttv. frsm. (G. Ó.) fyrir ummæli hans um brtt. mína á þgskj. 331.

En ástæðan til þess, að jeg ber fram brtt. þessa, er sú, að síðan frv. kom fram hefir aðstaða öll breyst í málinu.

Frv. var að eins til þess að heimila landsstjórninni að banna innflutning á ónauðsynlegum vörum, en brtt. er til þess, að ekkert verði flutt inn nema með leyfi landsstjórnarinnar.

Vegna bresku samninganna er það nauðsynlegt, að landsstjórnin hafi heimild til þess að koma hjer á nokkurskonar „licence“ eða leyfisteppu á innflutningi.

Nauðsyn þessa sjest best á því, að landsstjórnin hefir þegar látið skipa útflutningsnefnd og aðflutningsnefnd.

Ástæðurnar fyrir brtt. eru því ekki að eins hinar sömu og fyrir frv., að koma því til leiðar, að farrými yrði sem best notað, heldur er þetta nú orðin knýjandi nauðsyn.

Jeg þarf því ekki að fara fleiri orðum um þessa hlið málsins.

Þá vildi jeg minnast á síðari hluta brtt., sem veitir landsstjórninni heimild til þess að ákveða, hve mikið sje lagt á vörur. Það er öllum kunnugt, að nauðsynjavarningur er orðinn afardýr. Vil jeg benda á sem dæmi klæðnaðarvörur. En þetta geypiverð á þeim er að miklu leyti óþarft og stafar af því, að óhæfilega mikið er lagt á vöru.

En eins og kunnugt er, komast menn ekki af með þann klæðnað, sem hægt er að vinna hjer; að minsta kosti verða kaupstaðarbúar að nota mest klæðnað úr útlendum efnum.

Það mundi því vera sjerstaklega þörf á því að beita þessu ákvæði hjer.

En þess ber að gæta, að þetta er að eins heimild, en ekki skipun, til landsstjórnarinnar, og það ætti öllum að vera ljóst, að slíkrar heimildar er full þörf, þar sem hagur landsins getur breyst á svo margan veg, að full nauðsyn verði á að beita lögum þessum mikið og jafnvel út í ystu æsar.