04.07.1918
Efri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Magnús Kristjánsson:

Jeg var svo óheppinn, að vera kallaður til viðtals í landssímann einmitt þegar háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) var að byrja að tala í seinna skiftið, og eftir því, sem jeg hefi heyrt síðan jeg kom hingað inn aftur, fór jeg víst sjerstaklega mikils á mis að heyra ekki ræðu hans. En svo mikið hefi jeg heyrt, að hann hafi ekki látið af villu síns vegar, heldur komið fram enn skilningsminni og illkvitnari en áður, ef jeg mætti viðhafa þau orð.

Þó kom hann með tvær mótbárur, eftir því sem jeg hefi heyrt, sem báðar eru þess verðar, að þær sjeu teknar til athugunar. Hin fyrri var sú, að fyrirkomulagið yrði ófært vegna þess, að síldveiðin mundi verða meiri en 100.000 tunnur, og útvegsmenn gætu því sjálfir orðið hættulegir keppinautar landsstjórnarinnar, þegar á að fara að koma vörunni út. En nú veit háttv. 1. þm. Rang. (E. P), að landsstjórnin getur ráðið öllum útflutningum, og mundi ekki leyfa útflutning á annari síld, fyr en hún væri búin að koma sinni eigin síld í verð. Það er sjálfsagt rjett, að veiðin verði meiri en 100.000 tunnur, en það gerir ekki minstu vitund til. Þá var hin mótbáran sú, að síldin mundi rýrna svo, að stór skaði yrði að, en hann gerði alt of mikið úr þeirri rýrnun.

Þá benti hann á, að ekki þyrfti að verða tap á salteigninni, því að annaðhvort mætti selja það eða geyma. En þetta er langt frá því að vera rjett Þótt síldarútgerðarmenn tækju það ráð að selja salt sitt, þá gæti staðið svo á, að tunnueign þeirra yrði alveg ónýt og verðlaus eign, og þótt þeir geymi saltið, þá gæti líka svo farið, að það yrði ekki meira en hálfvirði móts við það, sem nú er, fjelli svo í verði.

Jeg get ekki litið öðruvísi á en að alt það, sem jeg hefi sagt, standi enn þá með öllu óhrakið, þrátt fyrir ræðu háttv. 1. þm. Rang. (E. P). En þar sem háttv. þm. (E. P) hefir óskað eftir að mæta ekki illu umtali, þar sem hann er dauður, þá vil jeg hlífa honum við að draga fleira fram á sjónarsviðið. Þó hefði víst margur gaman af því, ef hann gæti hlustað á líkræðu eftir sjálfan sig, því að venjulega er flest það, er betur má fara, til tínt, og í öðru lagi alt fært til betri vegar, og hefi jeg nú leitast við að fylgja þeirri reglu hvað þennan háttv. þm. (E. P.) snertir. En jeg tel víst, að meiri hluti háttv. þm. sje svo skynsamur og rjettlátur, að þeir greiði frv. atkv. sitt út úr deildinni, þrátt fyrir hin mörgu og órökstuddu ummæli háttv. 1. þm Rang. (E. P).

Jeg tel þýðingarlítið að fara að víkja orðum að því, sem þeir háttv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) og háttv. 1. landsk. varaþm. (S. F.) voru að tala um, því að það voru aukaatriði ein. Að eins vil jeg geta þess, að þar sem háttv. 1. landsk. varaþm. (S. F.) taldi óvissu á því, hversu mikið við mundum fá fyrir síldina frá Svíum, er um það vissa fengin, að jeg kalla. Og ef alt fer með feldu, þá yrði það svo, að eftirstöðvarnar hjer kæmu til að standa landssjóði í 30 kr. tunnan, og er það ekki hátt verð. Það ætti altaf að vera hægt að selja síldina án tunnu fyrir helminginn af því, og eru eftirstöðvarnar þá ekki orðnar gífurlegar, og svo eru líka líkindi fyrir, að unt verði að flytja eitthvað til Ameríku, og eins er það ekki útilokað, að Englendingar kaupi síld hjer. Þeir hafa aldrei neitað því, og enda gert ráð fyrir ákveðnu verði, ef til þess kæmi. Það er því auðsjeð, að hjer er engin áhætta á ferðum, og enda líkur fyrir betra verði en frv. gerir ráð fyrir, en þetta er gert til þess, að sem flestir geti notið þess.

Því hefir verið hreyft hjer, að landssjóður annaðist söluna og ákvæði, hversu mikið hver má láta, en þetta er illfær og ófær leið, því að það er mjög erfitt fyrir útgerðarmenn að segja til um afla sinn fyrir, eða ganga til veiða algerlega í óvissu um, hvort þeir geti selt aflann eða ekki. Og þessi leið er í sjálfu sjer með öllu óhugsandi, nema síldarútgerðarmenn stofnuðu með sjer nokkurskonar sameignarútgerðarfjelag, þar sem ákveðið væri, hversu mikið hver einstakur mætti veiða, en það hefir ekki verið neinn tími til að stofna slíkt fjelag síðan árangurinn af bresku samningunum um þetta varð kunnur.

Margt fleira má færa frv. til stuðnings, en greinargerð sú, er fylgir frv., ætti að vera nægileg, enda málið svo gott, að það mælir með sjer sjálft.

Jeg ætla að sleppa að þessu sinni að svara háttv. 2 þm Húnv. (G. Ó.). Það var ekki svo veigamikið, að ástæða sje til að athuga það, enda tækifæri til þess síðar að svara svo smávægilegum athugasemdum, ef þær skyldu koma fram aftur.