15.07.1918
Efri deild: 66. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Magnús Kristjánsson:

Jeg bjóst við, að jeg gæti komist hjá því, að taka þátt í þessari umr., en jeg get ekki leitt hjá mjer bendingu þá, er hæstv. atvinnumálaráðherra var að gefa. Bendingu þessa verð jeg að telja alsendis óþarfa, því að ef menn gera sjer nokkurt far um að athuga málið gaumgæfilega, verður ekki annað sjeð en að síldarsölunni til Svía sje ráðið til lykta. Það liggur fyrir ákveðið tilboð um síldarkaupin frá matvælaráðuneyti Svía. Það getur verið, að það heiti eitthvað annað, en tilboðið er frá nefnd þeirri, sem stjórnin hefir sett til þess að sjá landinu fyrir nægum forða. Og þetta ákveðna tilboð þeirra hlýtur að vera skoðað sem jafnbindandi þótt það hafi ekki verið formlega samþykt af sænsku stjórninni, enda vitum við að stjórnvaldaleiðin er oft seinfær, og þeir geta litið svo á, að það hafi enga þýðingu, hvort hið formlega samþykki er afgreitt degi fyr eða síðar, og vel getur verið, að því sje fullnægt nú, þótt skeytið sje ókomið hingað.

Það er því tilgangslaust að vera að tala um að fresta málinu nú; það er nægilegt tjón, er hefir þegar hlotist af því, hversu drátturinn er orðinn langur. Það er kunnugt, að mikið af skipum og bátum bíður með að fara á veiðar þar til sjeð verður um forlög frv., og eins er það með kaup á síld og ráðning verkafólks, að ekki er neitt að því verulega gert fyr en sjeð verður, hvort frv. verður samþykt eða felt. Það er því fjárhagstjón að því að draga frv. frekar, og vex tjónið með degi hverjum. Það er líka orðið svo lítið eftir af þingtímanum, að það virðist ekki vera neinn tími til frestunar, ef málið á að ná fram að ganga. Það getur því ekki náð nokkurri átt að taka frv. út af dagskrá.

Mjer væri það kærast, og mjer finst það væri samboðnast háttv. Ed., að frv. væri samþykt með öllum atkvæðum, úr því að háttv. Nd. hefir átt því láni að fagna, að geta myndað sjer rjetta skoðun á málinu.

Mjer væri það næst skapi, að greiða brtt. þeirri atkvæði, sem fram hefir verið borin. Frv. var og svo í öndverðu, sem brtt. gerir ráð fyrir. En þar sem mismunurinn er mjög lítill, þá getur það ekki skift neinu máli hvort brtt. nær fram að ganga eða ekki, en hins vegar tjón mikið dag hvern, sem málið dregst, þá mun jeg greiða atkv með því óbreyttu.