14.06.1918
Efri deild: 44. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Magnús Torfason:

Eins og við vitum, er hlutverk fjármálaráðherra í öllum löndum að smala fje í ríkissjóðinn. Fjármálaráðherrann okkar má vera ánægður með að hafa tekist það vel hjer á þingi. En vitanlega skoðar hann þá líka sem sitt hlutverk að „passa“ upp á gullið í gjánni. Þess vegna hefi jeg átt bágt með að skilja, hvers vegna dýrtíðarhjálpin hefir verið látin heyra undir fjármálaráðherrann, en ekki undir innanríkisráðherrann, eins og alstaðar tíðkast í heiminum. Jeg hjelt, að fjármálaráðherrann hjer ætti engin undantekning að vera annara fjármálaráðherra heimsins.

Hann var að gera mikið úr hækkun útgjalda fyrir landssjóðinn, sem brtt. mínar mundu valda. En ef fyrsta varatill. mín yrði samþ., yrði hækkunin aldrei yfir 150.000 kr. fyrir landssjóðinn, með 1/3 endurgreiðslu af upphæðinni. 3. brtt. mín hækkar endurgreiðsluna að eins um 1/6, Þarf ekki að endurgreiða nema alt að helmingi. Þar með er ekki sagt, að reglan geti ekki verið að veita að eins 3. hluta, þó að lengra megi fara, þegar fylsta þörf krefur. — Þá er 2. brtt. mín. Með henni á landinu að sparast fje, því að hún kemur í veg fyrir, að sveitarstjórnir sæki um styrk nema um verulega neyð sje að ræða.

Við getum hjer á þinginu fundið nóg ráð til að fylla landssjóðinn, og það er áreiðanlegt, að það verða sveitarfjelögin, sem nú stynja undir dýrtíðinni, sem fyr eða síðar koma til að borga, ef skórinn kreppir að. En jeg álit enga hjálp í því að veita þeim lán með 6% vöxtum.