26.04.1918
Neðri deild: 10. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (948)

10. mál, sala Ólafsvallatorfunnar

Benedikt Sveinsson:

Mjer finst hreinn óþarfi að líta á þetta mál sem persónulegt mál. Það er kunnugt bæði um þessa jörð og hina, Gaulverjabæ, að þær eru höfuðból, hvor í sinni sveit. Báðar eru jarðirnar á áveitusvæðinu, sem landið leggur mikið fje í, og hvor jörðin fyrir sig er kostajörð og lang stærsta jörðin að hundraðatali í sinni sveit. Hjer á því alls ekki að metast um, hvort hjer vanti sönnunargögn fyrir einhverjum undirróðri, er á bak við liggi tillöguna, er hjer liggur fyrir. Tel jeg, að þingið geti vel lýst yfir því, af þeirri þekking, sem það hefir á jörðunum, að það vilji ekki láta selja þær, og skotið því til stjórnarinnar með þingsályktun að selja ekki.

í 1. gr. kirkjujarðasölulaganna frá 16. nóv. 1907 er stjórninni veitt heimild til að selja ábúendum kirkjujarða ábýli sín, en í 2. gr. sömu laga er gerð sú undanþága að

„Heimild þessi nær ekki til kirkjujarða þeirra, er prestar sitja á, eða að áliti sýslunefndar, þar sem jörðin liggur, eru hentugar til embættisseturs, fyrir skóla, sjúkrahæli eða til annara almenningsnota“.

Nú er það auðvitað um höfuðból þau, sem hjer um ræðir, að ef nokkur jörð eða jarðir í sýslunni er hentug til almennra nota, þá eru það þessar. Þarna hefir því stjórnin hreint og beint skyldu til að neita um kaup á jörðinni, samkvæmt „anda“ eða tilætlun laganna. En samkvæmt bókstafnum á þetta að vera komið undir áliti sýslunefndar. Auðvitað er þetta sett í lögin vegna þess, að gert var ráð fyrir, að sýslunefndir stæðu vel að vígi til þess að dæma um þessi efni, og oft betur en landsstjórnin, er ætla mátti að síður þekti til í fjarlægum hjeruðum, — en tilætlun hefir engan veginn verið sú, að sýslunefndir hefðu neitt hæstarjettarvald í þessum efnum.

Nú er það kunnugt, að hjer hafaskoðanir sýslunefndar verið mjög á reiki, hún orðið margsaga, eða eins og háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) tók fram, látið frá sjer fara þrjú mismunandi álit með skömmu millibili. Yfirlýsing sýslunefndar verður því ekki að miklu hafandi. Þingið verður að byggja á eiginni þekkingu, enda er það engin vorkunn, því að jarðirnar eru báðar alkunnar. Og það hlýtur að verða þyngra á metunum, hvernig jarðirnar eru í raun og veru, heldur en hvað sýslunefnd segir um þær í hvert sinn. Jeg verð að líta svo á, að samkvæmt anda laganna hafi stjórnin hreint og beint enga heimild til að selja þessa jörð.

Háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) vildi gera mun á ábúendum þessara jarða, þar sem annar væri hættur búskap, en hinn ungur og áhugasamur framkvæmdamaður. Skal jeg ekkert fara út í þá sálma, því að það tel jeg þinginu aukaatriði. Aðalatriðið er, að þingið vill ekki selja höfuðból á Suðurlandsundirlendinu, þar sem verið er að gera stórar umbætur á alþjóðarkostnað.

Þar sem háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) talaði um, að ekki þyrfti nema eitt alþýðuskólasetur austanfjalls og því nóg, að landssjóður hjeldi eftir að eins einu höfuðbóli í eign sinni, þá voru þau ummæli hans mest út loftið. Fyrst og fremst er þess að gæta, að hjer gæti verið um fleiri skóla að ræða en lýðskóla eða alþýðuskóla, því að víða hefir verið synjað um sölu á opinberum jarðeignum, af því að þar væri hentugt setur fyrir barnaskóla, En í öðru lagi er hvortveggja jörðin á margan annan veg til þess fallin að koma til almenningsnota. T. d. mætti setja þar upp fyrirmyndarbú eða kynbótabú, eða einhver önnur fyrirtæki til fremdar landbúnaði eða annari menningu landsins. Er þá betra, að landið eigi slíka jörð, í stað þess að þurfa ef til vill að kaupa slíka jörð, er til kæmi, af einstökum mönnum dýrum dómum. Það er verið að tala um að setja lýðskóla á stofn í Skálholti. Hvað myndi sú jörð kosta? (E. J. og S. S.: Hún fæst ekki!). Hún myndi líklega kosta 100—200 þúsundir króna. Væri það því hinn mesti barnaskapur, ef þingið ljeti nokkurt tækifæri ónotað til þess að stemma stigu við sölu helstu höfuðbólanna í blómahjeruðum landsins. Vil jeg því samþykkja þessa þingsályktunartill. heldur en dagskrána. Þótt jeg viti, að núverandi stjórn sje andvíg sölu þjóðjarða og kirkjujarða, þá er hins að gæta, að ef svo færi, að þessari stjórn yrði steypt, þá er engin trygging fyrir því, að næsta stjórn liti líkt á málið, eða vildi efna þau loforð, er fyrirrennarar hennar gæfu, ef þau færu í bág við skoðanir hennar á efni málsins. Tel jeg því rjett að samþykkja till. háttv. þm. Árn. (S. S. og E. A.). Hún er ótvírætt og ákveðið form á neitun þingsins, og skora jeg því á deildina að fella dagskrána, en samþykkja þingsályktunartill. þá, er hjer liggur fyrir.