24.04.1918
Neðri deild: 9. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (954)

17. mál, útibú á Siglufirði

Pjetur Jónsson:

Jeg er meðmæltur því, að útibúum sje fjölgað, eftir því sem kringumstæður leyfa, og lít svo á, að Landsbankinn hafi farið of hægt í því hingað til og horft helst til mikið í kostnað, sem af því leiddi. Það er mjög sennilegt, að Siglufjörður standi mjög nærri, þegar um það er að ræða, hvar næst skuli setja útibú á stofn. Hins vegar álít jeg, að viðskiftaveltan á Siglufirði, þegar hún er sem mest, en það er stuttan tíma árs, sje hverju litlu útibúi ofvaxin. Og það er nú svo um þingsályktunartill. þessa, að hún þarf að athugast rækilega, að mínu áliti, áður en hún fær fram að ganga.

Það er nýbúið að setja á stofn tvö útibú frá Landsbankanum fyrir áskoranir Alþingis, og tvær eða þrjár þingsályktunartill. liggja nú frammi um stofnun nýrra útibúa. Mjer sýnist þessu útbúamáli í óefni stefnt, ef Alþingi tekur það svona í smábútum, eftir því sem að berst, og vill þrýsta bankanum til þess að stofna útibú svona nokkuð holt og bolt, eftir því sem menn hafa dugnað til að ota fram sínum tota. Það er vitanlegt, að það fer nokkuð eftir kappgirni manna og árvekni þingsins, hverjir eru framgjarnastir í því að bera fram till. um þetta og hitt vegna kjördæma sinna. Mjer finst útibúamálið vera svo lagað, eins og mörg fleiri, að það þurfi að takast til rækilegrar íhugnar í heild. Jeg vil því skjóta því til allsherjarnefndar að athuga alt þetta útibúamál í heild sinni. Jeg geri enn fremur ráð fyrir, að málið þurfi að ræða við bankastjórnina, og kæmi mjer ekki á óvart, þótt bæði henni og fleirum fyndist óheppilegur tími nú til þess að leggja fram fje til nýrra útibúa. En jeg get verið sammála háttv. flm. (St. St) um það að ýta undir, að útibúamálinu sje haldið vakandi.