11.05.1918
Neðri deild: 20. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í B-deild Alþingistíðinda. (976)

40. mál, sauðfjárbaðlyf

Flm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg get verið hæstv. atvinnumálaráðherra þakklátur fyrir undirtektir hans og þykist mega treysta því, að hann muni gera hvað hann megnar til að útvega nægileg baðlyf handa landsmönnum.

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) tók það fram, að vjer hefðum lög, og ef þeim væri framfylgt, gætum vjer haldið kláðanum algerlega niðri. Á annari skoðun eru margir aðrir, og þar á meðal dýralæknir landsins. Hann telur alómögulegt að halda kláðanum algerlega niðri með þrifaböðum, þótt lögunum sje framfylgt til fulls, þar sem ómögulegt sje að drepa mauraeggin með einu þrifabaði. Þetta hefir reynslan líka sannað.

Sami háttv. þm. (S. S.) sagði, að ekki væri tekið nógu föstum tökum á kláðanum, þar sem hann kæmi upp. Um það má sjálfsagt segja margt misjafnt, en eftir orðum dýralæknis telur hann það þýðingarlaust að taka fyrir stærri svæði Jeg verð nú að álíta, að þar sem skoðun hans staðfestist af reynslunni, verði að trúa henni. En meðan svo stendur sem nú er ómögulegt að taka upp útrýmingarböðun. En því trúi jeg, að með góðu eftirliti og þrifaböðum megi takast að hefta nokkuð útbreiðslu kláðans, og það á þingsályktunartill. að vinna.

Háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) tók það fram, að hann væri samþykkur fyrri hluta till., en síðari liðinn hefði hann ekki getað skilið. Sagði hann, að bændur hlýddu öllum þessum lögum. Jeg veit nú ekki, hve langt sú hlýðni nær, og hann víst ekki heldur, enda mun hann telja nægilegt, að nafninu sje komið á. Hann spurði, hvaða þýðingu þetta eftirlit hefði. Hreppsnefndir eru skyldugar að hafa eftirlit með böðunum, að þær sjeu framkvæmdar á löglegum tíma og að baðlyfjablöndun sje rjett, en þetta trassa þær sumstaðar, og af því leiðir það, að þrifaböðin verða ónýt. Og enn er nýtt atriði í tillögunni. Þar er verið að biðja stjórnina að brýna fyrir hreppsnefndum að hafa gát á, að þar sem samgöngur sjeu tíðar, þurfi böðunin að fara fram sem mest samtímis, vegna þess, að besta ráðið til þess að forða fjárkláðanum er, að samgöngur sjeu engar eða sem minstar milli baðaðs fjár og óbaðaðs.

Tillaga þessi ber það því bersýnilega með sjer, að stjórninni er að eins ætlað að brýna það sem rækilegast fyrir bæjar og sveitarstjórnum, að þær ræki sem tryggilegast það eftirlit, sem þær lögum samkvæmt eru skyldugur að hafa með sauðfjárböðunum. Hjer er því ekki ætlast til þess að skipa aðra sjerstaka eftirlitsmenn en þá, sem þegar ættu að vera til í hverjum hreppi, ef hreppsnefndir hefðu gegnt skyldu sinni.