09.09.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í C-deild Alþingistíðinda. (170)

5. mál, vantraustsyfirlýsing

Gísli Sveinsson:

* [*Þessa ræðu gat þingmaðurinn (G. Sv.) hvorki lesið nje leiðrjett, sakir óviðráðanlegra atvika. Er hún því prentuð hjer eins og hún kom frá hendi innanþingsskrifaranna, og vill þingmaðurinn láta þess getið.]

Jeg get farið fljótt yfir sögu, því að tveir hv. þm. hafa farið svipuðum orðum um málið og jeg sjálfur vildi vera láta. Jeg vil þó lýsa afstöðu minni til málsins, þótt mörgum muni hún kunn vera. Jeg og margir fleiri hv. þm. eru sama sinnis og hv. flm. (S. St.), þótt við höfum af ýmsum mismunandi ástæðum ekki verið flm. að þingsál. till.

Í fyrsta lagi lít jeg svo á, sem stjórnin sje alls ekki bær að sitja áfram. Þar er jeg þess mest hvetjandi, að öll stjórnin fari frá, og jeg tel ekki tilgangi þingsins náð, þótt einhver einn ráðh. leggi niður völd. Þar með segi jeg alls ekki, að þeir gætu ekki tekið aftur sæti í stjórninni, og mjer þætti fyrir mitt leyti takandi í mál, að hæstv. forætisráðherra yrði áfram í stjórnarsessi — í nýrri stjórn —, og hin nýja stjórn yrði skipuð í samráði við hann. Hann hefir einn allra ráðherranna átt þátt í framgangi þessa máls, er við berum allir fyrir brjósti og nú hefir náð samþykki þingsins.

Jeg sýndi það ljóst á aukaþinginu í vor, að þetta samsull milli lítilla flokksbrota er óeðlilegt og að stjórn, sem á því hvílir, á engan tilverurjett og getur aldrei blessast. Og það hefir sýnt sig, að það er ómögulegt að mynda heilbrigða stjórn úr flokksbrotum, sem eru óskyld og geta ekki samrýmst, flokksbrotum, er vitanlega hafa mismunandi og ólíkra hagsmuna að gæta.

Hæstv. forsætisráðherra sagði, að það væri misskilningur, að stjórnin þyrfti að hafa samfeldan meiri hluta að baki sjer. Það er ekki rjett, en jeg tel víst, að hæstv. forsætisráðherra segi þetta til þess að bera blak af stjórninni, því að hann sagði, að hjer vantaði meiri hluta, sem bæri ábyrgð á gerðum stjórnarinnar. Það er fullvíst, ef það er krufið til mergjar, og á vitorði alþjóðar, að stjórnin hefir engan meiri hluta að baki sjer, ef það kæmi í ljós, sem hverjum einum býr í brjósti, það hafa margir þm. sagt, er þeir tala ærlega við mann, og það hv. þm. úr meiri hl., að stjórnin væri óhæf og mætti ekki halda áfram, en það raskar því ekki, að þessir heiðursmenn greiði atkvæði með því, að stjórnin sje kyr, eða láti óhæfuna ríkja áfram. Þeir heykjast á því, að vera ærlegir í verki, þótt þeir geti verið ærlegir í orði.

Hæstv. forsætisráðherra var að tala um, að stjórnin í Frakklandi væri sterk, þótt hún væri mynduð af ýmsum flokkum. En það er misskilningur. Sú stjórn varð að hverfa úr sögunni, en gamlir ráðherrar — eða gamall ráðherra — tók að sjer stjórnina, af því að hann hafði traust meiri hlutans. Eins var um tilvitnun hans til nágrannalands vors, Danmerkur. Stjórnin hefði, sagði hann, í raun og veru meiri hl. í báðum þingum. Nú hefir stjórnin ákveðinn meiri hl. í þjóðþinginu, og það skiftir miklu máli. En hæstv. forsætisráðh. gleymdi því, að samsteypustjórnir geta ekki þrifist, jafnvel ekki á þessum tímum, nema þær sjeu skipaðar einvörðungu duglegum mönnum, en hjer hafa sumir ráðherranna reynst með öllu óhæfir, svo sem lýðum er ljóst.

Hæstv. forsætiráðherra var að bera brigður á ummæli frummælanda (S. St.) um, að stjórnin væri innbyrðis ósamþykk. Þó sýndi frummælandi þetta ljóst með dæmum, er hann tók. Frá mínu sjónarmiði eru þessi dæmi hv. frummælanda (S. St.) með öllu rjett, enda er það á vitorði allra þingmanna, að strax í öndverðu voru ráðherrarnir ekki sammála um nokkurt höfuðmál. Það vita allir, að þeir voru ósamþykkir, í fossamálinu. Eins var það um skólalokunina. Þetta er leiðinlegt, og gerir stjórnina óhæfa. Það er óheppilegt fyrir alla vinnu þingsins, og þegar þm. þurfa að fá leiðbeningar hjá stjórninni, þá er hún nú vanalegast á báðum áttum — þar er ýmist tvíveðrungur eða þríveðrungur.

Yfirleitt hefir það reynst svo, jafnvel þeim flokkum, er stutt hafa stjórnina, að það að leita ráða til hennar sje að „fara í geitarhús að leita ullar“. Stjórnin hefir verið áhrifalaus og ráðalaus. Hún hefir ætíð sagt, að hún „sæi sjer ekki fært“ að taka upp neitt fast ráð. Það yrði alt að vera á valdi þingsins. Nú er það að forminu til á valdi þingsins að taka fullnaðarákvarðanir, en hið mesta mein, ef stjórnin hefir enga stefnu í aðalmálunum, svo að hún geti átt frumkvæði, en það hefir hún eigi — Síður en svo. Hún á að gera tillögur, og hún á að vera ábyggileg.

Menn ætluðust til þess, að þessi þriggja manna stjórn, sem búin var til á aukaþinginu 1916–'17 — sællar minningar — væri svo sterk og starfhæf, að hún gæti gefið þau ráð, er ábyggilega mætti fara eftir. En svo hefir hún reynst ráðalausari en nokkur einstakur þingmaður. Vegna hvers? Vegna þess, að hver þm. hefir þó sína sannfæringu, en stjórnin enga.

Þá skal jeg víkja að einstökum atriðum í ræðum þeirra hæstv. ráðherra, er móti hafa mælt flm. (S. St.).

Ræða hæstv. atvinnumálaráðherra kom mjer mjög kynlega fyrir. Jeg hjelt, að hann ætlaði nú, ef til vill ekki í síðasta, en í fyrsta skifti, að verja málstað sinn rökfastri vörn. Því að ef hann hefir haft nokkurn tíma til starfa síðan síðasta þing var háð, hefði honum verið skyldast að verja honum til að taka saman — eða láta taka saman — vörn fyrir stjórnarstörf sín á umliðnum tíma. En svo var ræða hans öll á víð og dreif, skraf um hitt og þetta, eins og honum er títt, en ekki rök fyrir því, hvers vegna hann hefði tekið við stjórn,hvernig hann hefði stjórnað, og hví hann hefði stjórnað svo. En hann tók það fram í ræðu sinni, hvers vegna hann verði ekki gerðir sínar, því að hann sagði, að öll stjórn hefði farið sjer vel úr hendi. Það er nú gleðilegt. En hitt efast jeg um, hvort slík fullyrðing, svona órökstudd, hefir mikil áhrif á okkur, sem vitum, að stjórnin getur ekki stjórnað. Hann vildi halda því fram, í almennum orðum, að stjórninni hefði tekist vel að ráða fram úr þeim málum, sem fyrir lágu, ófriðarmálunum og sambandsmálinu. En einmitt í ófriðarmálunum hefir stjórnin ekki getað leyst starf sitt vel af hendi, öðru nær. Ófriðarmálin eru sameinuð í landsversluninni; og það er kunnara en svo, að endurtaka þurfi, hvernig stjórn landsverslunarinnar fór landsstjórninni úr hendi, þar til er hún tók það ráð, tilneydd þó, að fela hana þeim mönnum, sem færir voru til þess starfa.

Og það skal jeg taka fram, að það er mikið raup hjá hæstv. atvinnumálaráðherra og kátbroslegt, að hjá honum hafi vaknað sú hugsun, að ljetta landsversluninni af stjórnarráðsskrifstofunni og fela hana öðrum. Það má mikið vera, ef hann heldur það sjálfur, að hann eigi upptökin að þeirri hugsun, því að allar umr. um málið, bæði á þingi og utan þings, hnigu að því, að landsverslunin gæti ekki haldið áfram í höndum landsstjórnarinnar. Og menn hafa það fyrir satt, að stjórnin hafi að lokum tekið það fangráð tilneydd, að fela öðrum stjórn fyrirtækisins en sjálfri sjer. En það er ekki landsstjórninni að þakka, ef nokkuð væri að þakka, — því að það er ekki þakkarvert — því að hún gerði það ekki fyr en í fulla hnefana að fela hæfum mönnum þetta starf.

Þá er hæstv. atvinnumálaráðh. hafði slegið því föstu, hve vel hann hefði leyst störf sín af hendi, lýsti hann yfir því, að engin nauðsyn væri á að skifta um stjórn. Eftir því, sem menn vita best um hæstv. núverandi atvinnumálaráðherra, að honum annars ólöstuðum, þá geta menn ekki vænst þess, að hann vildi skifta um stjórn. Því að þótt merkilegt sje, vill hann sitja. Og það er ekki nema eðlilegt frá hans sjónarmiði, ef hann álítur það nauðsyn og velferð landsins undir því komna, að hann sitji í stjórn. En hann hefði átt að sjá, að hann er ekki fær um það. Þess hefði mátt vænta, því að menn hafa litið svo á, að hann væri ekki óskynsamur maður, þó að mönnum blandaðist ekki hugur um, að hann átti aldrei í landsstjórnina að fara. Og jeg tel það einn höfuðókost hans, sem manns í opinberri stöðu, að hann tók það í mál að fara í stjórnina.

En nú taldi hann og, að þótt eitthvað hefði á bjátað í stjórninni, þá væri nú það mál uppi, er gerði það að verkum, að eigi mætti skifta um stjórn. Skal jeg koma að því síðar. Hæstv. atvinnumálaráðherra sagðist ekki hafa ástæðu til að leggja niður völd, því að hann hefði ekki fengið neina áskorun frá kjósendum sínum í þá átt. Hann er landskjörinn, eins og kunnugt er, og ef gera mætti sjer nokkra hugmynd um vilja þeirra, er kusu hann, þá munu þeir aldrei hafa ætlast til þess, að hann yrði ráðherra. Og jeg hugsa, að þeir myndu hreint ekki taka honum það illa upp, þótt hann segði af sjer. (Atvinnumálaráðh.: Hver veit?). Jeg þykist vita það!

Þá kom hann, eins og „kollega“ hans, inn á hneykslismálin. Fyrst er þá Tjörneshneykslið. Það var þaulrætt á síðasta þingi. Og það eitt hefði verið nægilegt til að steypa stjórninni þá, ef þm. hefðu farið eftir sinni innri rödd og sambandsmálið ekki verið á döfinni. Enda bar stjórnin engar þær varnir fram, er skynbærir menn telja fullnægjandi. Það var upplýst þá, bæði af mjer og öðrum hv. þm., að atvinnumálastjórnin hafði þar farið alveg óforsvaranlega að ráði sínu. Þar af hlaust, að landssjóður tapaði yfir 100 þús. kr. alveg að óþörfu. Þetta var síðari hluta vetrar. Og af því hefir líka leitt, að þessum rekstri hefir verið haldið áfram í sumar, og vafalaust orðið á honum mikill halli, ef reiknað er frá 9. mars og þangað til í haust. En áframhaldið kom til af því, að stjórnin hafði þau tök á ýmsum þm., að leyfi fekst til að halda áfram.

Þá var hitt hneykslismálið, sem sje Öskjuhlíðarfarganið. Um fyrra málið er það svo, að stjórnin mun öll verða að bera nokkra ábyrgð á því. En þótt nú sje svo yfirleitt um stórmál, að öll stjórnin verði að skifta sjer af þeim, og bera því sameiginlega ábyrgð, var þó ekki nema eðlilegt, að hinir ráðherrarnir hafi hugsað sem svo, að hæstv. atvinnumálaráðh. væri einfær um að hafa yfirumsjón með litlum námurekstri. En nú reyndist hæstv. atvinnumálaráðh. ekki fær til þess, og verður því ábyrgðin að koma á bak allri stjórninni. Og þar sem hæstv. forsætisráðh. fór í sumar sem leið að verja þetta, sem er óverjandi, hefir hann bakað sjer ábyrgð.

En við Öskjuhlíðarfarganið verður hæstv. forsætisráðherra ekki bendlaður, þar sem hann var fjarverandi. Það hefir verið sagt, að upptök þess máls sjeu ekki hjá hæstv. atvinnumálaráðh., heldur hjá hæstv. fjármálaráðh. (Fjármálaráðh.: Gömlum vini.) Og væntanlega áframhaldandi. Annars hygg jeg ekki, að vináttan komi þessu máli við. En það er kunnugt, að lög voru samþykt á fjárlagaþinginu, þar sem svo var ákveðið, að stjórnin mætti verja fje til atvinnubóta. En menn vöruðust það ekki, að það var óheppilegt að fela þessari stjórn ótakmarkað vald til að ráða ein í þessu máli. Og sú varð raunin á, að það varð að óhappi.

Það er nú upplýst orðið, að í nóvembermánuði, þeim tíma, er frost eru orðin ráðandi, lagði hæstv. fjármálaráðh. það til mála, sem svo var gert, að ráðast skyldi í að veita á annað hundrað manna atvinnu við að pikka upp grjót úr gaddinum. Jeg get nú hugsað mjer, að þm. hafi ætlast til þess, er þeir heimiluðu fje til dýrtíðarvinnu, að fyrst og fremst væri ekki í hana ráðist nema það væri óumflýanlegt, og í öðru lagi, að tekið væri fyrir verk, sem hægt væri að vinna að og von væri um að gefið gæti einhvern arð. Því að þó að vjer sjeum „flott“, en það erum vjer er vjer höldum slíkri stjórn, þá verðum vjer þó að taka nokkurt tillit til þess, hvort nokkur arðsvon sje, og að heppilega sje í ráðist og með fullri hagsýni. En í þetta var ráðist algerlega fyrirhyggjulaust. Engin verkfæri voru til. Og það var lengi framan af, sem verkstjórinn var að auglýsa eftir áhöldum handa þessu liði sínu. Hæstv. fjármálaráðh. stofnaði skrifstofu til að ráða menn til vinnunnar, að allra vitund vegna þess, að nokkrir þáverandi vinir hans ráðlögðu honum að láta byrja á þessari vinnu. (Fjármálaráðherra: Það var ráðið áður en forsætisráðherrann fór.) Jeg veit, að hæstv. forsætisráðh. mótmælir þessu, ef hann vill satt mæla. (Fjármálaráðh.: Það var löngu ákveðið að láta vinna eitthvað.) Það veit jeg. En að farið var að stofna skrifstofu til þess að siga mönnum inn í Öskjuhlíð að pjakka gaddinn kom til af annari ástæðu, og sú ástæða var sykurhneykslið. Það hefir verið rætt í blöðum, og er ómótmælt, að stjórnin stofnaði til sykurverðhækkunar í fullkomnu ráðleysi. Hún vissi eigi, hvað þurfti til að vinna upp hækkun á flutningskostnaði. Enda varð stjórnin að taka þessa ákvörðun aftur eftir nokkra daga. En það hefir líka verið fullyrt í blöðum, að þessir tveir ráðherrar, sem heima voru — því að hæstv. forsætisráðh. getur þar enga sök átt, þar sem hann var erlendis — hafi komið fram með þær fullyrðingar á sykurfundinum, sem reyndust ber, ótvíræð ósannindi, og það var meira að segja fullyrt, að þeir hefðu sagt vísvitandi ósatt. Þetta stendur ómótmælt. Því verður ekki mótmælt nema fluttar sjeu fram órækar sannanir gegn því, eða þá með málssókn. Þetta situr enn fast, þar sem gegn því hafa hvorki komið fram rök nje annað. Hvort þessi ósannindi hafa verið vísvitandi segi jeg ekkert um, en það eru ósannindi fyrir því. Og jeg hefi nú altaf talið svo, sem ráðleysið væri ekki síður vítavert, þar sem þessir menn ráðast í þetta án þess að vita, hvað þeir eru að gera. En út af æsingu þeirri, er varð í bænum, þá var það ráð tekið, — og var öllum vitanlega eftir till. nokkurra lýðforingja, er þykjast vera — að siga fólki inn í Öskjuhlíð, til þess að hita sjer, ekki til þess að vinna fyrir kaupi sínu, heldur til þess að standa og pikka í gaddinn. Og af þessu Öskjuhlíðarfargani leiðir svo tap fyrir landssjóð, svo að tugum þúsunda króna skiftir. Eru það ekki að eins þau 42 þús. kr., sem fjárhagsnefnd tilfærði í skýrslu sína, heldur er og nokkurn veginn vitanlegt, að arðurinn af grjótinu verður ekki eins mikill og virðing sú nemur, sem kastað var á það.

Hæstv. fjármálaráðh. hefir borið það fram, að þetta hafi orðið til þess að bjarga miklum fjölda bæjarbúa frá hreinu hungri. Jeg er dálítið kunnugur hjer í borginni, og leyfi jeg mjer að fullyrða, að þessi ummæli eru röng. (Fjármálaráðh.: Jeg sagði ekki hungri.) Hæstv. fjármálaráðh. sagði það á síðasta þingi. Hitt er víst, að það hefir stutt að efnalegu gengi nokkurra manna. En að nærri hafi stappað mannfelli af hungri hjer í bænum er rangt, fyrst og fremst af því, að bær sem þessi lætur engan falla úr hungri fyr en hann er sjálfur kominn á heljarþröm. Og um sama leyti stofnar borgarstjóri sína skrifstofu, sem á að ráða menn í dýrtíðarvinnu, samkvæmt þekkingu fátækrastjórnar, fyrir bæinn sjálfan. En við hliðina á þessu setur landsstjórnin upp sína skrifstofu, til þess að koma að þeim mönnum, sem „lýðforingjarnir“, vinir fjármálaráðh., sögðu að þyrftu vinnu. En það sjer hver maður vitandi vits, að slíkar ráðstafanir eru ekki í þarfir alls landsins. Og þm. ber ekki að virða slíkt á betri veg.

Jeg þarf ekki að orðlengja mikið um það, hvers vegna vantraustsyfirlýsing á þessa tvo ráðherra er fram komin. Það er öllum lýðum ljóst, hvað þeir menn hafa til síns máls, er henni greiða atkv., þótt þeir hafi ekki borið hana fram. Það hefir komið fram í opinberum umr., utan þings og innan. Og í sumar var síður en svo, að nokkur flokkur þingsins mælti stjórninni bót. Og fylgisleysi stjórnarinnar sýndi sig áþreifanlega í því, hvernig málum þeim, sem hún bar fram, var tekið. Og svo er enn, að það er víst, að meiri hlutinn er á móti stjórninni, eins og hún er skipuð.

Um hæstv. forsætisráðherra er svo háttað, eins og drepið hefir verið á, að hann mundu vilja styðja svo og svo margir menn, ýmsra atvika vegna, en engan veginn í sambandi við þá, sem nú eru í stjórn. Jeg held, að öllum þm. sje kunnugt, að stjórnin er þannig skipuð, að hún á ekki rjett á að sitja. Jeg hefði helst kosið, að hún hefði beiðst lausnar í heild sinni, en þó framar öllum öðrum hæstv. atvinnumálaráðherra, þar sem honum hlýtur að vera kunnugt um, að hann hefir ekki traust. En til þessa er stjórnin ófáanleg, og hefir það því reynst meir og meir áberandi með hverjum deginum, að hún vill sitja hverju sem tautar. Og hún virðist jafnvel ekki ætla að lina á dauðahaldinu í sessinn, þó að nú eigi að fara að samþykkja hjer rökstudda dagskrá, sem í eðli sínu er hrein og bein vantraustsyfirlýsing.

Nú kem jeg að rökstuddu dagskránni, sem hv. 6. landsk. þm. (G. B.) hefir borið fram, sem formaður Heimastjórnarflokksins. Jeg þarf að vísu ekki að fara mörgum orðum um hana, því að hv. 1. þm. Rang. (E. P.) hefir sýnt fram á, að hún getur á engan hátt bætt fyrir stjórninni. En tvent er ljóst af henni. Fyrst og fremst það, að til eru þeir menn hjer á þingi, sem halda, að það geti spilt fyrir framgangi sambandsmálsins, ef hróflað verði við stjórninni. Með þessu gefa þeir hinir sömu það ótvírætt í skyn, að það stafi hætta af þeim mönnum, sem yrðu að hröklast úr stjórnarsessinum. En í þessu efni er ekki til nema sú eina hætta, að þessir menn mundu beita sjer gegn framgangi þessa mikilvæga máls. Þeir mundu finna svo sárt til hrakfara sinna, að þeir færu í bræði sinni og út af „ergelsi“ að berjast á móti málinu og koma þar af stað glundroða, og það þvert ofan í áður yfirlýst fylgi þeirra við málið — skjallega yfirlýsingu þeirra (sjá undirskriftirnar undir sambandslagafrv.). Mikið er traustið á mönnunum!

Í öðru lagi hér þessi dagskrá það með sjer, að þeir, sem hana bera fram, líta svo á, að stjórnin eigi vantraustið skilið, og að hún mundi fá það ef greidd væru atkv. um vantraustsyfirlýsinguna. Það eina, sem forðar stjórninni frá vantraustsyfirlýsingunni, er hræðsla þeirra, sem að dagskránni standa, við það, að stjórnarskifti skaði sambandsmálið. Jeg fyrir mitt leyti tel þennan ótta á engum rökum bygðan, enda eru m. a. þeir menn hlyntir dagskránni, sem hatast við sambandsmálið og hafa kallað fylgismenn þess stórsala á rjettindi landsins. Þetta mundu þeir ekki gera, ef þeir hefðu von um, að stjórnarskiftin mundu skaða það mál.

Jeg fyrir mitt leyti gæti felt mig við þessa dagskrá, eins og hún er í eðli sínu, en þó finst mjer með henni vera verið að fara í kringum málið, og tel jeg það illa farið, að menn dylji svo hug sinn, að þeir reyni að halda í þá stjórn, sem þeir bera ekkert traust til.

Ef dagskráin yrði samþ., ætti stjórnin að sjá svo sóma sinn, að beiðast þegar lausnar, jeg segi sjá svo sóma sinn, því að engri stjórn er sæmandi að sitja eftir þá vantraustsyfirlýsingu — þótt undir rós sje — er í dagskránni felst. En svo mikið traust hefi jeg nú raunar ekki á henni. Hins vegar mundi að minsta kosti hver önnur stjórn, hvar sem væri á bygðu bóli, heimta traustsyfirlýsingu, ef hún væri ekki gersneydd allri sómatilfinningu.

Eftir að menn hafa heyrt ræðu hv. flm. (S. St.), og ef menn vilja vera ærlegir í verkum sínum, þá er rjett, að dagskráin komi ekki til greina, heldur greiði menn atkv. um vantraustsyfirlýsinguna. Og jeg mun greiða atkv. á móti dagskránni til þess, ef svo tækist til, að geta síðar sýnt afstöðu mína hreina og ótvíræða.