09.09.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í C-deild Alþingistíðinda. (175)

5. mál, vantraustsyfirlýsing

Sveinn Ólafsson:

Jeg gæti vel fallið frá orðinu þess vegna, að engum tel jeg hættu stafa af vantraustsyfirlýsingu þeirri, sem hjer er fram komin, nema ef vera kynni flutningsmönnum. Flestu því, sem flutningsmenn hennar og fylgifiskar hafa sagt og máli skiftir, er þegar svarað. En rjett þykir mjer þó að drepa á nokkur atriði.

Margt af aðfinslum þeim við stjórnina, sem nú hafa komið fram, eru margumþráttaðar endurtekningar frá síðasta þingi, afturgöngur, sem oft hafa verið kveðnar niður, en vantraustssmiðirnir með óþreytandi elju reyna að nota sjer til undirhleðslu í valdaglímunni. það væri nfl. til of mikils ætlast, ef nokkur hjeldi, að þessi hamagangur þeirra væri sprottinn af einni saman föðurlandsumhyggju.

Margt af því, sem þeir telja stórsyndir í athöfnum stjórnarinnar, má nánast skoða eins og „barnasjúkdóma“ eða byrjunarmistök, sem eigi verður sneitt hjá, þegar brjóta skal — nýjar og óþektar brautir. Og það má með sanni segja, að núverandi stjórn framar öllum öðrum stjórnum hjerlendis hafi kannað ókunna stigu.

Þetta á sjerstaklega við um allar dýrtíðarráðstafanir, t. d. landsverslunina, kolanámið á Tjörnesi og grjótvinnuna í Öskjuhlíð. Alt eru þetta nýjar brautir í störfum stjórnarinnar, brautir, sem engin fyrverandi stjórna hefir gengið.

Enginn neitar því, að byrjunarmistök hafa orðið á þessum fyrirtækjum, en enginn gat víst heldur með nokkurri sanngirni til þess ætlast, að jafntvísýn fyrirtæki á þessum stríðs- og byltingatímum tækjust án óhappa, enda eigi til þeirra stofnað í gróðavon, svo sem allir vita, því að þá hefðu bjargráð þeirra verið neikvæð.

Stóryrði vantraustsmanna um þessa þætti í stjórnarathöfninni eru því fráleitari, sem þingið hefir, þrátt fyrir óhöppin, aftur og aftur gefið uppörfun til starfanna. Annars hefir þessum aðfinslum verið maklega svarað af öðrum hv. þm., og skal jeg ekki fjölyrða um þær frekar.

Sú kynlega fullyrðing hefir verið endurtekin hjer fleirum sinnum af vantraustsmönnum, að stjórnin væri ekki starfhæf og hefði ekki getað stjórnað landinu. Mjer verður — og vissulega fleirum — að spyrja: Hver hefir þá stjórnað því? Hvers konar „automat“ er það, sem skipað hefir málum þess svo í styrjaldarfárinu, að stýrt hefir verið undan stóráföllum og skorti, engu síður en hjá grannþjóðum vorum?

Vel veit jeg, að hv. flm. (S. St.) og fleiri vantraustsmenn látast hjer eingöngu snúast að þeim tveim ráðh., sem vantraustsyfirlýsingin nefnir. En eins og hæstv. atvinnumálaráðherra benti á, er sýnilega hjer stofnað til algerðra stjórnarskifta, og ekki sje jeg, hvernig hæstv. forsætisráðh. getur ósnortinn verið, þegar lýst er óstarfhæfi stjórnarinnar, sem hann er oddviti fyrir, og sannarlega finst mjer öllum ráðherrunum hjer drukkið til á sama hátt. En nú skal þess bíða, sem best sker úr um þetta, atkvæðagreiðslunnar.

Það tekur eigi tali fyrir mig að svara hverju einstöku árásaratriði vantraustsmanna, enda eru þau flest af öðrum vegin og ljettvæg fundin. En gera verð jeg þeim hv. þm. Snæf. (H. St.) og hv. 1. þm. N.-M. (J. J.) dálitla heimsókn. Þeir hafa hvor í sínu lagi einna óvingjarnlegast veist að Framsóknarflokknum, sem jeg tel mig til. Mætti líklega um þann síðari segja, að betur sæmdi honum að sitja hjá, því að til skamms tíma hefir hann í flokknum verið, tekið þátt í öllum hans störfum og er nú að hallmæla sumu af sínum eigin gerðum, en að því skal síðar komið. — Hv. þm. Snæf. (H. St.) hefir hjer aðra aðstöðu og auðskilda. Hann mun allra þm. lausastur við að hafa átt samvinnu við Framsóknarflokkinn, enda ljet hann sjer þau valdsmannslegu orð um munn fara, að flokkurinn ætti ekki tilverurjett, og liggur nærri að draga þá ályktun af því, að kjósendur hans í Snæfellsnessýslu eigi þann rjett eigi allskostar vísan, því Framsóknarflokkurinn er þó fyrst og fremst studdur af „óháðum bændum“, til sjávar og sveita.

Ef til vill strikar hv. þm. (H. St.) yfir þessi stóru orð, og hygg jeg honum það heillaráð. En hann reyndi líka eftir mætti að styðja þennan dóm sinn með niðrandi ummælum um flokkinn og ráðherra hans, ummælum, sem áttu meðal annars að sanna það, að flokkurinn bæri ekkert traust til hæstv. atvinnumálaráðh., en brysti einurð og þrek til að kannast við það.

Þetta fjell í svo góða jörð hjá hv. þm. N.-M. (J. J.), að hann tók það nær orðrjett upp og hafði yfir nokkrum sinnum ásamt aflöguðum uppljóstri trúnaðarmála úr flokknum, sem hann hafði staðið í svo lengi og kvatt svo vingjarnlega (!).

Þessar fullyrðingar þeirra fjelaganna, um vantraust flokksins á ráðherra, komu mjer mjög á óvart, eins og yfirleitt þær kenningar vantraustsmanna, að ráðherrarnir njóti eigi trausts hjá flokkum sínum, kenning, sem er bygð á því einu, að einstakir menn hafa hlaupist úr flokkum og eiga þar eigi lengur heima. Jeg verð því að lýsa því yfir, að traust mitt á hæstv. atvinnumálaráðherra er að öllu leyti óveiklað og engu minna en áður, og jeg þykist vita, að atkvæðagreiðslan í kvöld leiði það sama í ljós um samflokksmenn mína. Hitt er annað mál, og skyggir ekkert á það traust, að flokkurinn, eftir ósk ráðherra sjálfs, hefir leitast fyrir um ráðherraefni, sem tekið gæti við af honum, þegar hann óskaði sjer hvíldar frá starfinu, (Atvinnumálaráðherra: Sett sem skilyrði af mjer.), og er það samkvæmt fyrirætlun flokksins frá öndverðu og skilyrðum ráðherra.

Mjer þótti skýrsla háttv. þingm. N.-M. (J. J.) um Framsóknarflokkinn hins vegar nokkuð þokukend og hjáleit, enda sumt fullkomnar staðleysur. Hann sagði forsætisráðherra hafa mótmælt tilnefningu ráðherra flokksins í upphafi, en rjett á eftir, og án nokkurra frekari skýringa, kennir hann forsætisráðherra um, að tilnefningin tókst, rjett eins og sami maður gæti í einu verið kærandi og ákærður.

Ekki skildi jeg heldur hv. þm. (J. J.), þegar hann var að tala um, að atvinnumálaráðh. hefði verið kosinn með einu atkv.; slíkt er staðleysa, og mætti þá skilja svo, að kosning hefði orðið með eins atkv. mun. (J. J.: Var fyrra sinn er kosið var.) Jeg vil ekki á neinn hátt blanda mjer í þá óviðurkvæmilegu skýrslugjöf frá lokuðum flokksfundum, sem hv. þm. (J. J.) hefir leyft sjer að fara hjer með, en því ætla jeg að lýsa yfir, og vona, að allir samflokksmenn mínir kannist við, að með samþykki allra flokksmanna, að hv. þm. N.-M. (J. J.) meðtöldum, var ráðherra tilnefndur. (J. J.: Var ekki við.) Var ekki við, segir hv. þm. (J. J.). Hann var við, og í flokknum að minsta kosti 1½ ár eftir að ráðherravali lauk, og jeg man eigi eftir, að hann hafi þar gert sjer títt um ráðherraskifti.

Auðvitað hefir þessi hv. þm. (J. J.) hröklast úr flokknum af fremur lítilmótlegum ástæðum, sem hjer skulu þó eigi taldar. En ekki er ástæða til að telja það svo stórvægilegan atburð, að ráðherra flokksins eigi þess vegna að leggja niður völd.

Úr hinum flokkunum hefir líka molnað, og eins og allir vita, er vantraustsyfirlýsingin komin frá þessum lausamönnum, eða — eins og hv. þm. (J. J.) komst svo hnyttilega að orði, þótt í öðru sambandi væri — af því, sem kvarnast hafði utan úr flokkunum og lent í hrærigraut!

Það er einmitt þessi kvarnar-molahrærigrautur, sem nú hygst að „reformera“ ástandið og skapa sjer meiri hluta. Reynslan mun sýna, hvernig það tekst.

Fremur virtist mjer það lúalegt og óvingjarnlegt af þessum og öðrum hv. vantraustsmanni að vera að dylgja um ístöðuleysi stjórnarinnar og hagsmunahvatir stuðningsmanna hennar, sem notuðu sjer það, og nefna svo ekkert dæmi. Það er að kasta úr skuggunum á saklausa. Jeg tel það ekkert dæmi til sönnunar þessari getsök, þótt bent sje á þessa margjöskuðu aðfinslu við hæstv. atvinnumálaráðh. út af veitingu póstafgreiðslunnar á Seyðisfirði. Það lýsir óneitanlega röksemdafátækt á þessu sviði, að hamra þing eftir þing á þessari veitingu, og vitandi þó, eins og bert er orðið fyrir löngu, að maðurinn, sem starfann hlaut, er ekki að eins mjög vel hæfur og efnilegur reglumaður, en að hann auk þess hafði fleiri og betri meðmæli en nokkur annar af umsækjendum.

Jeg skal nú ekki tefja tímann öllu lengur, en vil þó víkja snöggvast að dagskrártill. þeirri, sem fram er komin.

Þeim hlálega skilningi á henni er haldið fram af sumum vantraustsvinum, að í henni felist enn átakanlegra vantraust til stjórnarinnar en í vantraustsyfirlýsingunni sjálfri.

Ef það væri af heilum hug mælt, þá væri þess að vænta, að þeir greiddu dagskránni atkvæði, en svo mun ekki vera, heldur verður að líta á þetta eins og hreystiyrði, eins og hæstv. fjármálaráðh. og fleiri hafa bent til.

Hvernig ætti annars heilbrigð skynsemi að fá út úr dagskrártill. frekara vantraust en úr vantraustsyfirlýsingunni? Í dagskrártill. standa þessi orð: „... og þykir þinginu ekki hlýða að bera hana (vantraustsyfirlýsinguna) undir atkvæði“. Hvers vegna mundi þinginu ekki þykja hlýða að bera hana fram? Því er auðsvarað. Af því, að hún er því til vansæmdar, af því, að hún er ósvinna, sem þingið í heild vill ekki gera sig sekt í.

Annars kemur skilningur þingsins á þessu best fram við atkvæðagreiðsluna, og það er skilningur meiri hlutans á dagskránni, sem merkið setur á vantraustsyfirlýsinguna.

Hinn ungi og endurfæddi flokkur, sem vantraustið ber fram — kvarnarmolarnir — sem háttv. þingm. N.-M. (J. J.) nefnir svo, hefir stofnað hvert eldhúsdagstilhaldið af öðru á síðasta þingi og þessu. Hann byrjaði á Tjörnesnámunni á síðasta þingi, þrídægraði hana, og hafði litla sæmd af. En síðan hefir honum komið liðsauki, og þykir honum nú einsætt að reyna þrótt sinn og freista að ná stjórnarmarkinu. Mjer dettur í hug, út af þessu bramli flokksins, gamla vísan:

Gangr varð ei góðr ins unga

gullslystis inn fyrsti.

Hverr man hjéðan af verri.

Hnepstr man sá inn efsti.

„Sá efsti“ er nú í kvöld við atkvæðagreiðsluna, en af henni má ráða gengi „molanna“ að þessu sinni.