07.09.1918
Efri deild: 3. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg finn ekki þörf á, að mótmæla miklu í ræðu háttv. þm. Ísaf. (M. T.), enda býst jeg við, að háttv. frsm. meiri hl. (Jóh. Jóh.) muni athuga hana um leið og hann tekur til umræðu nefndarálit háttv. minni hl. (M. T.). Það var þó eitt atriði í ræðu háttv. þm. (M. T.), sem jeg vildi leyfa mjer að gera dálitla athugasemd við.

Mjer skildist háttv. þm. (M. T.) vera að tala um, að það mundi vera einhver sjerstök ástæða til þess, að Danir væru nú svo fúsir á að ganga til samninga við oss. Jeg fæ ekki sjeð, að nein minsta ástæða sje til að ætla, að svo sje, því að það er vitanlegt, að vjer höfum lengi átt kost á, að semja um sambandsmálið við Dani; því hefir verið lýst yfir oftar en einu sinni. Meðal annars kom það fram í skilaboðum þeim, er þáverandi ráðherra flutti þinginu, er stjórnarskrármálið var til umræðu 1912, að frá Dana hálfu væri ekkert því til fyrirstöðu, að sambandsmálið væri rætt alt í heild sinni, en þeir vildu ekki ganga að því, að einstök atriði úr því væru tekin til meðferðar. Jeg hefi ekki hjá mjer ræður þær, sem fóru fram um málið í ríkisráði, en mig minnir, að þar kæmi hið sama fram, að talið væri óheppilegt að taka einstök deiluatriði út úr málinu, heldur semja um það alt í einu. Það er því ekkert nýtt, sem kom fyrir í fánamálinu, að Danir vildu ekki semja um það eitt út af fyrir sig, en voru fúsir á að semja um sambandsmálið alt. En hitt var nýtt, sem kom fram í fyrra, að Danir mundu ef til vildi ekki ófúsir á að senda menn til Íslands til samninga þar, í stað þess, sem áður hafði verið ætlast til; að vjer sendum vora menn til þeirra. Þetta var mjög þýðingarmikið og bar vott um, að Danir mundu vilja veita oss meiri rjett nú en þeir höfðu áður viljað. Þó var þetta fremur lauslegt umtal og ekki bindandi, enda mun ýmsum dönskum þingmönnum hafa þótt ærið langt gengið í því að vilja veita þetta fúslega. En auðvitað er það, að þeir atburðir, er nú eru að gerast, hlutu að styðja okkar málstað og gera Dani fúsa til góðs samkomulags við oss.

Jeg ætla svo ekki að tala frekara um undirbúning samnings þessa, enda er mest undir niðurstöðunni komið. En eigi á annað borð að fara að rekja sögu málsins, þá nær hún miklu lengra aftur í tímann en háttv. þm. (M. T.) rakti hana; hún byrjar ekki með fánamálinu, heldur er hún orðin nálega 100 ára gömul.

Þótt einstöku menn kunni að hafa eitthvað að athuga við einhver atriði þessa frv., þá er það þó í heild sinni svo skýrt og glögt, að ekki þarf að ganga í neinar grafgötur um, við hvað sje átt í því, og að því leyti tekur það mjög fram frv. 1908, hvað það er miklu skýrara og ákveðnara; en eins og menn vita, er afarmikils um það vert, að alt sje svo skýrt í samningum að eigi verði misskilið.

Frsm. minni hl. (Magnús Torfason): Jeg mun ekki tala langt mál að þessu sinni. Jeg get hvort sem er ekki svarað háttv. frsm. meiri hl. (Jóh. Jóh.) nema með því að fara út í einstök atriði málsins.

Jeg tek það fram, að þótt jeg sætti mig við þingsályktunartill. 1917 um fánamálið, þá fór hún þó ekki frá þinginu með fullu samþykki mínu. Jeg vissi, að það styrkti ekki mál vort, þótt jeg setti mig móti henni, en vissi hins vegar, að hún mundi ganga fram hvað sem jeg segði. Greiddi henni því atkvæði af þegnskap við málið.

Háttv. frsm. (Jóh. Jóh.) sagði, að konungur hefði átt frumkvæðið að samningi þessum, en jeg man ekki betur en hæstv. forsætisráðherra hafi lýst yfir því, að ráðherrarnir dönsku hafi átt það. Þó er það ekki ólíklegt, að háttv. frsm. (Jóh. Jóh.), sem er nákominn flokksbróðir hæstv. forsætisráðherra, sje þessu kunnugri en jeg.

Háttv. frsm. (Jóh. Jóh.) gerði mikið úr því, að kæmust samningarnir ekki á, þá sæti alt í sama farinu sem fyr. Til þessa er því að svara, að nú liggja vonandi friðarsamningar fyrir milli þjóðanna, og máttum við vel bíða þeirra áður en við færum að semja nokkuð af okkur; altaf er nógur tíminn til að falla í faðm Dana.

Þá lýsti háttv. frsm. (Jóh. Jóh.) það misskilning minn eða misminni, er jeg hefði sagt um selstöðurjettinn. Jeg skal ekki fara langt út í að skýra það nú, því að jeg get það ekki nema með samanburði við greinar, er ekki eiga heima við þessa umræðu. Þó skal jeg taka það fram, að þetta, sem jeg segi nú, sannar meðal annars fundargerð 10. júlí 1918. Þetta fylgiskjal, nr. 7, er dagsett 8. júlí, en 10. júlí er bókað í gerðabók fullveldisnefndar:

»3. Eiga samningamenn að láta fiskiveiðarjettinn falan með gætni, ef góð uppsagnarskilyrði koma í móti og önnur fríðindi«.

Þetta þýðir það, að fullveldisnefnd var ekki komin lengra 10. júlí en að hún sagði: Þið megið gefa eftir fiskiveiðarjettinn. Mig rangminnir þetta ekki; mjer er það alt of minnisstætt. Jeg man vel eftir kveldinu, þegar jeg sá þessa tillögu fyrst, þá komna fram í próförk, óundirritaða. Var mjer þá sagt, að ekki væri enn búið að ganga að þessu, og þó var búið að setja það í próförk. Þótti mjer þetta næsta kynlegt. Jeg man það líka, að fulltrúi okkar var þá svo aumur og uppgefinn, að mjer datt í hug það, sem kunningi minn sagði einu sinni við mig um mann einn að fram kominn af þreytu, að hann liti út eins og »flengdur hundur«. (Forseti: Þetta er eigi sem þingmannlegast mælt). Jeg segi þetta ekki manninum til hnjóðs, miklu fremur til afsökunar. Jeg veit, að hann átti ákaflega bágt með að gefa þetta eftir, og að aðstaða hans var lík og Rússa, að hann átti á tvær hendur að verjast, orðinn uppgefinn að berjast við nefndarmennina íslensku. Jeg man líka eftir öðru atviki þetta sama kveld. Út af nokkru, er þá bar á góma, játaði einn af milligöngumönnum okkar — en jeg tek það fram, að það var ekki háttv. fram. (Jóh. Jóh.) — að gefið hefði verið í skyn við einn af nefndarmönnunum dönsku, að gengið mundi verða að einu sjerstöku tilnefndu atriði, atriði, er ósamþykt var af þingflokkunum, og er honum var bent á, að hann ætti eigi með að koma með slík tilboð, roðnaði hann eins og ung jómfrú, og er það þó ótrúlegt um þann mann. Jeg mun, ef þörf gerist, koma betur að þessu síðar. Jeg slæ þessu ekki fram nema jeg geti fært sönnur á það.

Háttv. fram. (Jóh. Jóh.) talaði um, að jeg hefði átt að kynna málið kjósendum mínum fyrir vestan. Jeg hjelt, að háttv. frsm. (Jóh. Jóh.) væri það kunnugt, að þýðingarlítið er að halda þingmálafund um hásumarið, einkum í fiskiplássum, þar sem flestir eru önnum kafnir frá morgni til kvölds og á skipum úti, en jeg mun halda fund með þeim jafnskjótt sem færi gefst. Jeg geri og ráð fyrir, að öll málsskjölin muni hið fyrsta verða send út til þjóðarinnar, og þá verður miklu hægra fyrir hana að skoða málið frá öllum hliðum og ræða það. Jeg skil enn ekki í því, hvers vegna við megum ekki bíða fá ár enn eftir rjetti okkar, til þess að fá hann betri þá en nú.

Háttv. fram. (Jóh. Jóh.) sagði, að frv. þetta væri í öllum greinum betra en frv. 1908. Álítur hann, að uppsagnarskilyrðin sjeu betri nú en þá? Þá þurfti þó ekki nema einfaldan meiri hluta til þess að slíta samningnum, en nú þarf miklu meira.

Hæstv. forsætisráðherra gerði lítið úr því, að aðstaða vor gagnvart Dönum hefði batnað að mun fyr en nú á allra síðustu tímum. En út af þessu vil jeg minna á, að árið 1908 var því lýst yfir frá hæsta stað, að Ísland væri ríki. Þetta tel jeg mikilvæga breyting til batnaðar. Jeg ætlaði mjer aldrei að fara að rekja alla sögu þessa máls; til þess þyrfti lengri tíma og meira mál en jeg hefi nú yfir að ráða, enda afstaða mín sú, að það mundi að litlu haldi koma. Það var að eins síðasti þáttur málsins, sem jeg tók mjer fyrir hendur að lýsa, sá þátturinn, sem jeg hefi verið riðinn við á þingi.