07.07.1919
Neðri deild: 3. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (1005)

26. mál, laun embættismanna

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg ætla ekki að andmæla kenningum háttv. þm. Dala. (B. J.) um verðlagsskrána, en jeg álít það ekki rjett, að ráðuneytið sæti ámæli fyrir að hafa gengið fram hjá landaurareikningnum, því hún gengur að nokkru inn á þessar kenningar í 33. gr. frumvarpsins. En annars býst jeg við, að háttv. þm. Dala. (B. J.) hafi lært þetta tal um landaurareikninginn af launamálanefndinni, en það er ekki von, að hann muni það, þegar hann er svo illa að sjer í sögu landsins, að halda, að Íslendingar hafi nokkurn tíma hætt að eta skyr.

Annars tel jeg það víst, að nefnd verði skipuð í málið, og þá er það ekki nema sjálfsagt, að hún taki til greina þessar athugasemdir háttv. þm. Dala. (B. J.).

Hins vegar býst jeg ekki við, að þetta þing sjái sjer fært að borga laun embættismanna algerlega eftir verðlagsskrá. En jeg vona það fastlega, að háttv. Alþingi fari ekki skemra en ráðuneytið fer í þessu frv., og ef það næst, sem hjer er farið fram á, og hvað suma liðina snertir ríflega það, þá hygg jeg, að starfsmenn landsins muni gera sjer það að góðu, því þeir hljóta að skilja, að það eru takmörk fyrir því, hvað landssjóður getur borgað.