26.08.1919
Neðri deild: 45. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í B-deild Alþingistíðinda. (1012)

26. mál, laun embættismanna

Sigurður Sigurðsson:

Enda þótt jeg sje nokkuð kvefaður og þar af leiðandi ekki vel upplagður til að tala, þá held jeg samt, að jeg verði að segja nokkur orð, sumpart út af brtt. á þgskj. 496 og sumpart af öðrum ástæðum.

Jeg skal strax taka það fram, að jeg hefði helst kosið, að ekkert launafrv. hefði verið lagt fyrir þetta þing og ekki fyr en dýrtíðinni væri lokið. Fram að þeim tíma, að dýrtíðinni ljetti, vildi jeg láta bæta launin með dýrtíðaruppbót, eins og gert hefir verið að undanförnu, og lofa dýrtíðaruppbótarlögunum að gilda áfram með einhverjum breytingum, og laga á þeim gallana. Hæstv. stjórn hefir ekki sýnst heppilegt að fara þessa leið, heldur komið fram með frv. það, sem nú liggur fyrir þinginu. Háttv. nefnd hefir líka tekið það til greina, fallist á það með nokkrum breytingum, í stað þess að taka upp hina leiðina, eða rjettara sagt halda þeirri stefnu, sem tekin var í byrjun dýrtíðarinnar í þessu máli.

Við frv. þetta hefi jeg komið fram með nokkrar brtt., á þgskj. 496. Jeg ætla ekki að rekja einstaka liði þeirra; vil að eins geta þess, að till. eru fjarri því að vera róttækar, en miða að eins að því, að jafna laun embættismanna, og þá sjerstaklega lækka laun þeirra hæst launuðu. Jeg tel ekki rjett, að laun embættismanna fari mikið fram úr 6000 kr., að undanteknum launum ráðherra og hæstarjettardómstjóra. Hingað til hafa slík laun, 6 þús. kr., verið talin há. En með tilliti til dýrtíðarinnar má segja, að þau sjeu nú að minsta kosti sómasamleg ásamt dýrtíðaruppbótinni samkvæmt 33. gr. frv. En annars er þessi 33. gr. frv. að ýmsu leyti viðsjárverð.

Það vill brenna við hjá stjórninni að gera meiri mun launanna en ástæða er til. En allir þurfa að lifa, og eins þeir, sem lægra eru settir. Og þótt jeg fallist á, að meiri ábyrgð hvíli á hinum svokölluðu æðri embættismönnum en þeim lægri, þá er þess að gæta, að æðri embættismennirnir hafa tíðast marga undirmenn í sinni þjónustu, svo að störfin dreifast á marga. Sumstaðar í brtt. mínum er farið fram á það að lækka bæði hámarks- og lágmarkslaunin, sumstaðar að jafna lágmarkið og annarsstaðar að færa niður hámarkið.

Viðvíkjandi 5. lið skal jeg geta þess um laun biskups, að jeg hefi álitið, að hann ætti að sitja við sömu laun og landlæknir en jafnframt hefi jeg stungið upp á 500 kr. til hans í ritfje.

Einnig skal jeg taka það fram viðvíkjandi 7. og 8. lið, að þar er brtt. um lækkun á launum forstöðumanna Eiðaskólans og Stýrimannaskólans, miðuð við það, að þessir menn fá ókeypis húsnæði, hita og ljós. Mjer finst ástæða til að taka tillit til þess. Á tímum eins og nú eru, þegar húsnæði er svo vandfengið og dýrt, og hitun og lýsing einhver dýrasti pósturinn í útgjaldalið hvers einasta búandi manns í landinu, hvort sem er í sveit eða kaupstað, þá er ekki ástæða til að fara hátt með föstu launin hjá þeim, er þeirra hlunninda njóta. Það er vissulega ekki lítils virði að hafa slíkt ókeypis, og með tilliti til þess er niðurfærslan gerð.

Þá hefi jeg komið með brtt. við brtt. nefndarinnar, og eru þær á þgskj. 495 og 497. Brtt. á þgskj 495 er við brtt. launanefndarinnar á þgskj. 439.3 og í því fólgin, að aftan við bætist svo hljóðandi málsgrein:

„Sömuleiðis skal telja til þjónustuára hjá prestum þau ár, er þeir hafa gegnt sem aðstoðarprestar.“

Þetta er komið fram í því skyni, að prestar missi ekki af launum sínum, þó þeir hafi t. d. byrjað sem aðstoðarprestar. Prestar taka sjer sjaldan aðstoðarprest fyr en þeir eru farnir að eldast, eða að þeir taka að sjer önnur störf, og verður það þá altaf svo, að nærri öll prestsstörf lenda á aðstoðarprestinum. Þessi ár eru þess vegna fullkomin embættisár, og engin sanngirni í öðru en að þau verði talin með sem embættisár.

Hin brtt. mín, á þgskj. 497, fer í svipaða átt og aðrar brtt. mínar við frv. stjórnarinnar. Eins og mönnum er kunnugt, þá er það mín stefna að gera launin jafnari, og þá með því að lækka hæstu launin. Fyrsti liðurinn miðar að því að lækka laun dómstjóra í hæstarjetti úr 10.000 kr. í 8.000 kr. Þetta er vitanlega virðulegt embætti, en þó sje jeg ekki ástæðu til að launa það betur en t. d. ráðherraembætti. Næsti liðurinn fer fram á að lækka hjá hinum dómendum hæstarjettar úr 8000 kr. niður í 6000. Jeg tel þá fullsæmda af að hafa sömu laun og t. d. póstmeistari og aðrir sem hafa ábyrgðarmiklum stöðum að gegna.

Aðrar till. mínar fara í líka átt, en óvíða munar það nokkru verulegu. En jafnvel þó till. sjeu ekki stórvægilegar, þá dregur það sig þó saman, og þegar alt kemur til alls verður þessi sparnaður 40–50 þús. kr. Jeg taldi meiri líkur á því, að till. mínar næðu fram að ganga, ef þær væru hógværar og sanngjarnar, en það verð jeg að telja þær. Þær geta á engan hátt kallast róttækar, enda mundu slíkar tillögur á hjer lítinn byr. Annars verður reynslan að skera úr því, hvernig þessu reiðir af. Jeg geri ráð fyrir því að háttv. þm. geri sjer ljóst, að hjer er um stórmál og vandamál að ræða og því full ástæða til að fara varlega.

Annars verð jeg að segja það, að embættismannafjöldinn og launafúlgan sem til embættismanna gengur árlega, er að vaxa þjóðinni yfir höfuð. Það er sjálfsagt hægra um að tala en gera við því. Og þær tilraunir, sem gerðar hafa verið til að reyna að ráða bót á þessu, hafa engan árangur borið. Eins og bent hefir verið á, er stöðugt verið að fjölga embættum. Á sumum þingum að undanförnu hefir verið bætt við milli 10 og 20 nýjum embættum, og lítur út fyrir að þetta þing ætli ekki að verða eftirbátur í því efni. Nú hefir hæstirjettur verið stofnaður. Og þó að hann hlyti að koma fyr eða síðar, þá verður ekki sagt, að nein aðkallandi nauðsyn hafi ráðið stofnun hans nú á þessu þingi. Annað embætti er búið að stofna, og er það húsagerðarmeistari, sem vel hefði mátt bíða. Mörg þau embætti, sem stofnuð hafa verið í seinni tíð, hafa að vísu verið meira og minna þörf, og sum nærri óhjákvæmileg. En þó eru margir þeirrar skoðunar, að oft hafi meiru ráðið um stofnun embætta ákafi í það, að koma einstökum mönnum í stöður, en aðkallandi nauðsyn eða þjóðarþörf. Það er satt, að þjóðin hefir stundum átt nokkurn þátt í þessari embættafjölgun. En þeir menn, sem hún óskar helst eftir, eru læknar, bæði manna- og dýralæknar. Þá vilja sumir og fjölga prestum, en ekki kveður þó eins mikið að því. Það verður því á engan hátt sagt, að þjóðin sje sök í allri þeirri embættafjölgun, sem átt hefir sjer stað. Hún vill einmitt fara varlega í stofnun nýrra embætta. Það er því ekki farið að vilja hennar alment, þegar verið er að stofna ný embætti og fjölga embættismönnum.

Svo er annað, að þegar búið er að stofna embættin, þá er ekki eins auðvelt að fá þau afnumin, þó þau sjeu og reynist ónauðsynleg. Þegar búið er að leiða asnann inn í herbúðirnar. þá er ekki eins gott að fá hann út aftur. — Það hefir komið fyrir, að menn hafa verið keyptir úr embættum, þegar þeir voru orðnir gamlir eða ómögulegir af öðrum ástæðum, en embættin hafa ekki verið lögð niður. En þessi embættafjölgun, sem eykst ár frá ári, er meira alvörumál en margur heldur. Embættismennirnir gera þá kröfu, sem vonlegt er, að þeim sje launað, sem þeir kalla, sómasamlega. En þegar litið er á fjölda þeirra og hag landsins, þá reynist það ómögulegt að fullnægja kröfum þeirra í þessu efni. Ef ætti að sinna þessari kröfu, og það lítur úr fyrir, að hjá því verði varla komist, þá er eina ráðið að athuga, hvort ekki sje unt, þjóðinni að skaðlausu eða skaðlitlu, að fækka embættum. Þetta væri vel þess vert að vera athugað. Og jeg er þeirrar skoðunar, að það megi gera án nokkurs tjóns fyrir þjóðina. En hitt er annað mál, hvað auðvelt verður að koma því í framkvæmd. Það er sjálfgefið, að meðan þetta ástand er, meðan embættismönnum er ekki fækkað, þá verður að fara hóflega í það að ákveða laun þeirra. Jeg vænti þess því fastlega, að mínar till. og aðrar þær, sem miða að því að draga úr laununum, verði samþ.

Jeg skal viðurkenna það, að stjórnin hefir virst ætla að taka rögg á sig, og gert tillögu um fækkun tveggja embætta. Það er frv. um sameining Dala- og Strandasýslu, og frv. um söfnin. En allir vita um afdrif þessara frv. Um söfnin er það að segja, að lítill sparnaður hefði af því orðið; sparnaðarhugmyndin var þar sprottin af ókunnugleika stjórnarinnar. Og um sameining Dala- og Strandasýslu er það að segja, að eigi þótti við eiga að þessu sinni að gera það. Jeg býst því við, að því yrði tekið dauflega, ef jeg eða aðrir færu að bera fram frv. í þá átt, að fækka prestum, kennurum eða öðrum embættismönnum og sameina embætti. En úr því menn vilja ekki fækka, þá verða þeir að taka afleiðingunum, og þær geta orðið alvarlegar, ef haldið er áfram á þeirri braut, sem nú er verið að fara.