30.08.1919
Neðri deild: 50. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

26. mál, laun embættismanna

Hákon Kristófersson:

Jeg ber hjer fram brtt. á þgskj. 584. Þar er farið fram á, að Barðastrandarsýsla verði flutt úr 4. málsgrein í 3. málsgrein 11. gr. Jeg vil geta þess í þessu sambandi, að háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) bar við 2. umr. fram þá brtt., að flytja allar sýslurnar, sem taldar eru í 4. málsgrein, upp í 3. málsgrein. En fyrir klaufaskap minn — eftir því sem best verður sjeð af skjölum skrifaranna, sem telja, að jeg hafi greitt atkv. á móti till. — var brtt. feld. Jeg hefði gjarnan viljað flytja sömu brtt. nú við þessa umr., en sá mjer það ekki fært, vegna þess, að það er bannað í þingsköpum að bera fram brtt., sem einu sinni hafa verið feldar. Jeg tók því það ráð, að bera fram Barðastrandarsýslu eina, vegna þess, að jeg fæ ekki sjeð, að hún hafi að neinu leyti minni rjett á sjer en þær sýslur, sem taldar eru í 3. málsgrein. Jeg vil benda á, að sýslumanninum þar verður ekki betur launað samkvæmt frv., eins og það nú er, en í meðalári áður.

Háttv. frsm. (Þór. J.) mintist lítillega á brtt. og taldi sjer ekki fært að mæla með henni, þótt hann hins vegar vildi ekki stjaka við henni. Mig furðar á þessum ummælum háttv. frsm. (Þór. J.), þar eð hann taldi engin vandkvæði á því við 2. umr., að færa Skaftafellssýslu úr 4. málsgrein upp í 3. (Þór. J.: Sú sýsla er erfiðust). Barðarstrandarsýsla er ekki síður erfið, vegna hinnar miklu strandlengju og erfiðu yfirferðar um hana, bæði á sjó og landi. Menn munu ef til vill svara mjer því, að ekki sje sanngjarnt að taka Barðastrandarsýslu eina út úr, en skilja hinar 3 eftir í 4. málsgrein. En til þess liggja ýms rök, sem jeg áður nefndi og hirði ekki að endurtaka. Vona jeg svo, að brtt. verði vel tekið af háttv. deild.

Eins og sjá má af brtt. á þgskj. 559, er jeg einn af flm. þeirrar till. Þessi till. hefir mætt hörðum dómum, og hafa jafnvel ósæmilegar getsakir verið gerðar í okkar garð. Það er ekki hægt að halda því fram með neinum sannindum, að brtt. sje árás á embættismenn. Þvert á móti höfum við allir flm. till. viljað sýna þeim þann sóma, sem oss þótti frekast fært, miðað við gjaldþol og lifnaðarhætti þjóðarinnar. Þetta er stórmál, sem krefst nákvæmrar íhugunar, og í því máli ættu engar öfgar eða sleggjudómar að komast að. Það, sem gert verður í þessu máli, á að gera með samviskusamlegri yfirvegun, yfirvegun, sem bygð sje á rjettlæti, án tillits til hótana eða ögrunarorða einstakra manna. Einmitt þess vegna væri nú vel til fallið að ákveða þegar að endurskoða launalögin eftir ákveðinn tíma.

Háttv. frsm. (Þór. J.) sagði við 2. umr., að skoðanir sumra launamálanefndarmanna hefðu oft farið eftir því, hvernig á þeim hafi legið. Jeg er hissa á þeirri staðhæfingu, að jeg ekki segi óskammfeilni háttv. frsm. (Þór. J.), að viðhafa slík orð um meðnefndarmenn sína. Að mínu áliti gat hann ekki vitað um huga nema eins manns í nefndinni, og má honum best vera kunnugt um, hvort áður sögð ummæli hans hafi átt við þann heiðursmann.

Háttv. frsm. (Þór. J.) kvað líka suma muni hugsa sem svo, að það yrði öruggasta meðalið til að komast á þing við næstu kosningar, að vera nú á móti flestum launabótum. Þessu má altaf slá fram. En óvænt kemur það manni, þegar það er gert af mönnum, sem jeg tel víst að megi segja um, að ekki vilja vamm sitt vita. Enn fremur sagði háttv. frsm. (Þór. J.), að þeirri skoðun hafi verið haldið lifandi úti um land alt, að ekki bæri að hækka laun embættismanna. Jeg hygg, að það sje þvert á móti. Úti um land er sú skoðun einmitt orðin ríkjandi, að laun þeirra beri að hækka, en þjóðin mun hafa búist við, að þess hófs yrði gætt, sem nauðsyn er á. Jeg vil ekki segja, að hófs hafi ekki verið gætt í frv., en látum reynsluna skera úr því. En með því að jeg hefi ástæðu til að halda, að þessi orð háttv. frsm. (Þór. J.) hafi verið töluð í minn garð og nokkurra annara, sem honum voru ósammála, þótti mjer ekki hlýða annað en mótmæla þeim.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) kom víða við í sinni greinagóðu ræðu, og studdist yfirleitt við góð og gild rök, eins og hans er venja. Hann bar saman kauphækkanir verkamanna og embættismanna. En störf þessara manna eru mjög ólík, þegar betur er að gáð, og því ekki frambærilegt að bera kjör þessara manna saman. Líti maður til dæmis á heimili, konur og börn verkamanna og flestra embættismanna. Hvernig er sá samanburður? Verkamenn og aðrir, sem ekki eru í þjónustu ríkisins, hafa miklu ótryggari atvinnu, og geta húsbændur þeirra vikið þeim frá starfi sínu með stuttum fyrirvara, fyrir jafnvel engar sakir. Svo er til dæmis um starfsmenn Sláturfjelags Suðurlands sem háttv. þm. (E. A.) tók til samanburðar. Þess má einnig geta því til samanburðar, að hið opinbera getur ekki launað sínum starfsmönnum eins og einstöku gróðastofnanir, sem leggja þá allan kostnað á viðskiftamenn sína. En það kemur oft fyrir, að embættismenn brjóta stórlega af sjer, án þess að gerð sje minsta tilraun til að þoka þeim úr sæti. Það mun rjett vera, sem háttv. þm. (E. A.) nefndi, að ýmsir embættismenn hafi leitað sjer aukavinnu utan hjá aðalstarfi sínu, en jeg sje síst ástæðu til að amast við því, ef menn á annað borð gegna vel embætti sínu. Jeg þykist þess fullviss, að embættismenn muni sætta sig við þær launabætur, sem þingið sjer sjer frekast fært að veita, því að þeim er skylt að taka þátt í erfiðum lífskjörum þjóðarinnar á þessum örðugu tímum.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) svaraði ummælum háttv. þm Stranda. (M. P.), er hann viðhafði við 2. umr. eftir að háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) var dauður, svo jeg þarf ekki að eyða orðum að þeim. Eiginlega hefði mjer staðið næst að svara hv. þm. Stranda. (M. P.) fyrir hönd okkar beggja við 2. umr., en umr. voru þá orðnar svo langar, að jeg vildi ekki á þær bæta.

Á þgskj. 566 flytja þeir 1. þm. Árn. (S. S.) og þm. Borgf. (P. O.) þá till., að 500 kr. sjeu dregnar frá hámarks- og lágmarkslaunum lækna. Þetta fer í sparnaðaráttina. En hversu feginn sem jeg vildi styðja allan sparnað, þá get jeg ekki fylgt þessari brtt., því að með því gengi jeg frá þeirri skoðun, er jeg hefi áður látið uppi um það atriði. Þess ber að gæta, að læknar fá mikinn hluta launa sinna með stríði og striti, og hætta jafnvel stundum lífi sínu við embættisrekstur sinn.

11. brtt. nefndarinnar, við 33. gr., um að bæta inn í frv. á eftir „sýslunarmenn landsins“ þessum orðum: „sem taldir eru í þessum lögum“, er mjer óskiljanleg.

Jeg lít svo á, að dýrtíðaruppbótin eigi að ná jafnt til allra sýslunarmanna landsins. Jeg get nefnt til dæmis ullarmatsmennina, sem ekki eru nefndir í þessum lögum. Sama er að segja um alla þá menn, er starfa við símann víðs vegar um landið. Þessir menn eru svo miklu ranglæti beittir, ef brtt. nefndarinnar verður samþykt, að ekki má telja vansalaust af þinginu. Ef svo illa verður farið með þessa símamenn, sem út lítur fyrir, þá sýnist eins og þeir eigi að gjalda þess, að þeir hafa ekki komið fram með hótanir, ef ekki annað verra, gagnvart þinginu. Hvaða vit er nú í að gera enga endurbót á launum þeirra, ef það er satt, sem sagt hefir verið hjer oft og mörgum sinnum, að 3 krónur nú sjeu ekki meira en 1 króna áður? Ef 11. brtt. nefndarinnar verður samþykt, fá þessir menn enga bót frá því sem nú er. (S. S.: Það er nauðsynlegt, að svo verði). Um nauðsynina skal jeg ekkert segja, en ranglátt er það. Ef háttv. deild ætlar að verða sjálfri sjer samkvæm, má hún ekki samþykkja 11. brtt. nefndarinnar.