08.09.1919
Efri deild: 51. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í B-deild Alþingistíðinda. (1069)

26. mál, laun embættismanna

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Jeg hefi ekki tilefni til að halda langa ræðu.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) vildi fá að vita, af hverju nefndin hefði komið með 1. og 3. brtt. á þgsk. 682. Nefndinni eru þessar till. ekkert kappsmál, en telur þær þó sanngjarnar. Það er sanngjarnt að gera mun á sýslumönnum, því störf þeirra eru misjafnlega margbrotin. Hjer er ekki um neitt stórfje að ræða, en horfir þó heldur til sparnaðar og er í samræmi við þá reglu, að hafa stigmun á launum í sama flokki. Viðvíkjandi læknahjeruðunum þótti nefndinni rjettast að fylgja reglum læknafjelagsins sjálfs; það hefir hvort sem er verið mestu ráðandi um laun lækna. Hygg jeg, að varla þurfi nú að hræðast, að nein læknishjeruð verði óskipuð eftir að þessi lög koma í gildi, hvað sem verið hefir hingað til.

Háttv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) gerði athugasemd við 2. brtt. nefndarinnar, og játa jeg, að aðfinslur hans hafi verið á rökum bygðar, og tekur nefndin brtt, aftur að þessu sinni.

Aðrar till. nefndarinnar hafa ekki mætt teljanlegum mótmælum. Jeg vil því minnast stuttlega á aðrar brtt.

Hv. 1. landsk. varaþm. (S. F.) gerir brtt. um, að prestar, sem í sveit búa, hafi 1/3 dýrtíðaruppbótar, en kaupstaðaprestar þó 2/3. Brtt. er af góðum huga gerð, en það er við hana að athuga, að ef hún verður samþykt, geta prestar ráðið því hve mikla dýrtíðaruppbót þeir vilja fá, að eins með því, að fá bú sitt í hendur einhverjum öðrum, að nafninu til. Jeg býst ekki við, að till. yrði til neinna bóta, þó hún sje gerð af góðgirni.

Brtt. einstakra þm. getur nefndin ekki mælt með.

Út af því, sem tekið er fram í 3. málsgrein. 8. gr., að laun embættismanna skuli talin svo, sem lögin hefðu verið í gildi er þeir fengu fyrst embættið eða samkynja embætti, hefir hæstv. forsætisráðh. (J M.) gert þá athugasemd, að tilgangurinn sje, að lögreglustjóraembætti teljist samkynja sýslumanna- og bæjarfógetaembættum þótt það sje ekki nefnt í málsgreininni, og vil jeg lýsa yfir, að nefndin er honum sammála um þetta.

Sama vil jeg, að gefnu tilefni frá póstmeistaranum, taka fram um póstmenn, sem hafa samkynja starf og þeim áður var veitt, þótt þeir fái nú annað nafn í hinum nýju póstlögum, og hefir hæstv. forsætisráðh. (J. M.) látið í ljós við mig, að hann líti einnig svo á, að þeir eigi að fá laun eins og lögin hafi verið í gildi er þeim var veit, starfið.