13.09.1919
Efri deild: 55. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í B-deild Alþingistíðinda. (1081)

26. mál, laun embættismanna

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg þykist ekki þurfa að tala langt mál við þessa umr. Jeg hefi áður gert grein fyrir afstöðu minni til málsins í heild og brtt., sem fram eru komnar, eða voru komnar við 2. umr. Jeg vil því að eins minnast lítillega á þær till., sem komnar eru fram við 3. umr.

Jeg get mælt með brtt. á þgskj. 785, við 11. gr., því hún er í samræmi við frv. stjórnarinnar, og get jeg vísað til þess, sem jeg hefi áður sagt um skrifstofustjórann.

Um brtt. við 11. gr., á þgskj. 778, get jeg sagt það sama, að hún er í samræmi við frv. stjórnarinnar, þó spurning gæti verið um það, hvort hún gangi nógu langt.

En eins og jeg hefi oft tekið fram áður, var það ætlunin í upphafi, að allar aukatekjur fjellu í landssjóð. Og jeg býst við, að ætlunin sje einnig að telja þar með gjöld fyrir t. d. eftirlit með útlendum skipum; því engu minni ástæða virðist til þess, að þau falli í landssjóð, en t. d. tekjur af ýmsum tollum. Annars skýt jeg þessu fram til athugunar að eins, svo reynt verði að ganga þannig frá þessum ákvæðum, að engum ágreiningi valdi eftir á.

Um brtt. á þgskj. 765 skal jeg segja það eitt, að ef aðstoðarlækninum á Akureyri eru engin laun ætluð, virðist ekki heldur ástæða til að launa slíkan lækni á Ísafirði. Sama reglan á að gilda um báða, hver sem hún verður.

Brtt. á þgskj. 760 kemur einnig heim við það, sem jeg hefi áður látið í ljós í þessari hv. deild, að eftir því, sem nú er komið, væri rjettast að skifta öllum sýslumönnum og bæjarfógetum að eins í tvo flokka. Það er líka rjett athugasemd hv. þm. Ísaf. (M. T.) við þessa grein, að breyta þurfi orðalagi hennar að því er snertir bæjarfógetann í Vestmannaeyjum, sem er rangnefndur þar sýslumaður. En í sambandi við þessa grein verð jeg enn að geta þess, að rjettast hefði verið að telja þar einnig upp lögreglustjórann á Siglufirði, því samkvæmt frv. yrðu kjör hans lakari en þau eru nú.

Þá er brtt á þgskj. 805, og tel jeg hana til bóta. Að vísu má segja, að þar sje um óþarfa hækkun að ræða að sumu leyti, því þessir embættismenn geti lifað á 9500 kr., ef aðrir geti það, eins og gert er ráð fyrir. En svo kemur hitt til greina, að það er ranglátt að gera jöfn þau laun, sem ætlast er til að sjeu ójöfn.

Auk þessa má benda á það, að gagnstætt því, sem menn bjuggust við, er nú verð ýmsra lífsnauðsynja að hækka meira, og jafnvel mest það, sem ekki er talið á verðlagsskrá. Þess vegna eru horfur á, að þeir, sem búa við föst peningalaun, muni eiga enn þá örðugra uppdráttar framvegis en hingað til. Þess vegna tel jeg ekki rjett að samþykkja brtt. á þgskj. 749, sem fer fram á enn meiri takmörkun en háttv. Nd. Að vísu voru ýmsar athuganir háttv. flutningsmanns rjettar, svo sem það, að ekki væru nægilegar skýrslur til um það, hvað borga þyrfti embættismönnum í raun og veru.

Á hinn bóginn liggja fyrir talsvert ábyggilegar skýrslur frá háskólanum um þarfir embættismannsheimilis hjer í Reykjavík. Hagstofustjórinn hefir skýrt mjer frá, að þær skýrslur komi heim við sína útreikninga og skýrslur annarsstaðar frá í þessum sökum er ekki mikill munur á kaupþörfinni hjer og í nágrannalöndunum, nema hvað dýrtíðin mun vera orðin meiri hjer. Mjer er því óhætt að segja, að laun embættismanna hefðu ekki verið of hátt talin, þótt frv. stjórnarinnar hefði verið látið halda sjer. Í frv., eins og það nú er, er að vísu um dálitla hækkun að ræða frá því, sem var í stjórnarfrv. Annað er læknarnir, og þar var ekki undanfæri. Hitt er prestarnir, og jeg játa fúslega, að þeim hefir verið gert of lágt undir höfði af stjórninni.

Eftir síðar fram komnum upplýsingum er mjer ljúft að viðurkenna, að þeim eru síst ætluð of há laun í frv. Það er líka sú eina breyting, sem jeg sje að full ástæða hefir verið til að gera. Frv. yfirleitt er tæpast betra en það var, og beint skemt að því leyti, sem sett hefir verið hámark á uppbótina. Hámarkið er ekki rjettmætt. Þrátt fyrir þessi ummæli mín verð jeg samt að viðurkenna, að það er skoðun mín, að embættismönnum beri að sætta sig við frv. eins og það nú er, einkum ef till. háttv. þm. Ísaf. (M. T.) verður samþykt. Hún hæfir talsvert úr.

Jeg býst ekki við að fá tækifæri til að taka oftar til máls um frv. Jeg skal að eins benda á, að þessi gífurlega hækkun, sem talað er um, stafar nær eingöngu af hækkun launa prestanna, sem er nauðsynleg til þess að þeir geti lifað, og hækkun læknalaunanna, sem var óhjákvæmileg vegna krafa þeirra. Auk þess hefi jeg engan heyrt bera brigður á, að laun þessi sjeu nauðsynleg, þegar á þörf embættismanna er litið.