29.08.1919
Neðri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1513 í B-deild Alþingistíðinda. (1305)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Fjármálaráðherra (S. E.):

Það voru að eins nokkrar brtt., er jeg vildi leyfa mjer að minnast á, og skal jeg ekki vera orðmargur um þær.

Fyrst er þá brtt. 3, við 13. gr., um atkvæðagreiðslu á ráðherrafundum. Jeg er sammála forsætisráðherranum í því, að jeg sje ekkert við það að athuga, að þetta sje ákveðið í stjórnarskránni. Hins vegar getur vel verið, að það skifti ekki miklu, og gerði því ekkert til, þótt ákvæðið fjelli burt. En eins og forsætisráðherrann tók fram, þá verður sá ráðherra sem ekki getur verið sammála hinum ráðherrunum, en vill ekki beygja sig, að láta af embætti, ef hinir tveir eru á gagnstæðu skoðun.

Þá er 13. brtt., við 25. gr. Jeg er þar líka sammála forsætisráðherranum, að óviðkunnanlegt sje, að konungur veiti slík leyfi fyrirfram. Enda virðist ekki full ástæða til þess, því að það er altaf hægt með símskeyti að fá heimild til að leggja lagafrumvarp fyrir Alþingi.

Að því er snertir 27. brtt., við 38. gr., þar sem talað er um „greinargerð“ í stað „greinileg skýrsla“, þá þýðir það vitanlega hið sama. En það er gott að fá þetta ákvæði inn í stjórnarskrána. Það er gott, að þingið geti fengið þessa greinargerð þegar í þingbyrjun. Stjórnin hefir líka sjeð það í seinni tíð, hve nauðsynlegt það er fyrir þingið að geta þegar í þingbyrjun áttað sig á hag landsins.

Forsætisráðherrann tók það fram, er hann lagði stjórnarskrárfrv. fyrir hið háa Alþingi, að jeg hefði óbundnar hendur um ýms ákvæði í stjórnarskránni. Eins og hann skýrði frá, var stjórnarskrárfrumvarpinu ekki lokið, er jeg fór til útlanda. Þetta atriði, sem mest er um deilt í dag, búsetan, hafði að eins komið til umræðu áður, og jeg þá haldið fram 5 ára búsetuskilyrði. En engin niðurstaða var komin um málið, er jeg fór til Kaupmannahafnar. En því næst afrjeð stjórnin hjer heima að setja ákvæðið í frv. eins og það er þar nú. Það hefir verið tekið fram í einu blaði bæjarins ekki alls fyrir löngu, og má ef til vill segja, að ástæða sje til þess í fljótu bragði, að þar sem jeg hefði gert ágreining við fjelaga mína í stjórninni um jafnmikið atriði og þessa 5 ára búsetu, þá hefði jeg átt að gera þetta atriði að fullkomnu ágreiningsatriði. Hefði þá verið eina leiðin að biðja um lausn frá embætti. Í blaðinu segir enn fremur, að jeg hefði þegar í ríkisráðinu átt að gera ágreining. Jeg verð nú að lýsa því yfir, að jeg áleit það undir engum kringumstæðum rjett að biðja um lausn. Ekki síst þar sem jeg þóttist viss um, að full leiðrjetting fengist um þetta á hinu háa Alþingi.

Og eftir mínum skilningi var það ekki rjett að gera þennan ágreining þá þegar, er nýlega hafði fengist svo gott samkomulag um sambandsmálið. En það liggur í hlutarins eðli, að þar sem jeg tók ekki þá leið, að gera ágreining, þá gat ekki komið til mála, að jeg sneri mjer til þessarar nefndar, er sumir kalla lögjafnaðarnefnd, til þess að bera þennan ágreining þar upp. Það hefði ekki átt við, úr því jeg gerði ekki ágreining hjer heima, að vinna á móti stjórninni í þessu máli niðri í Danmörku. Það hefði verið algerlega órjett, og auk þess hefði það verið tilraun til að leggja meira inn í þessa ráðgjafarnefnd en nokkurn tíma var meiningin. Þess vegna hefir mjer líka þótt þær skrítnar, þessar raddir um hv. þm. Dala. (B. J.), sem er frumkvöðull búsetuskilyrðisins hjer á þingi, að hann hefði átt að bera sig upp um það í ráðgjafarnefndiuni. Það hefði verið algerlega rangt af hv. þm. Dala. (B. J.). Það var alveg rjett hjá honum, að þetta mál átti hann að flytja á öðrum vettvangi. Hann átti að flytja þetta mál á Alþingi Íslendinga, og það hefir hann nú gert. Það er því ekki ástæða til annars en að vera honum þakklátur fyrir þá leið, er hann hefir valið í þessu máli, og langt frá því, að hægt sje að ámæla honum fyrir það.

Annars er það fyrsta aðalatriðið í þessu máli, hvort sambandslögin eru brotin með því að setja þetta 5 ára búsetuákvæði inn í stjórnarskrána. Nú hefi jeg skilið allar ræður hv. þingdeildarmanna í dag á þá leið, að enginn líti svo á, að sambandslögin sjeu brotin með þessu ákvæði. En þegar allir eru sammála um, að með því sjeu á engan hátt brotin sambandslögin, þá sýnist það liggja í hlutarins eðli, að enginn vafi geti á því leikið, að hið háa Alþingi megi breyta öllu, er því sýnst, við þetta frv., án þess að það hafi áður komið fyrir ráðgjafarnefnd. Og ef þetta ákvæði er í fullu samræmi við sambandslögin, þá er mjer ómögulegt að skilja hv. þm., er þeir tala um, að vjer gerumst nærgöngulir við Dani eða sambandslögin, ef till. hv. meiri hluta verði samþykt. Ef svo væri litið á af mönnum, væri það jafnvont fyrir bæði Dani og Íslendinga, að mjer finst. Því að ef Alþingi mætti ekki gera þær breytingar á lögum, sem á engan hátt fara í bág við sambandslögin, án þess að þær breytingar sjeu fyrst bornar upp í ráðgjafarnefndinni, þá væri það óheppilegt, ekki að eins fyrir Íslendinga, heldur og Dani. Ef danska ríkisþingið þarf að semja lög eða breyta lögum, og þyrfti áður að leggja það fyrir ráðgjafarnefndina, þá yrði að kalla íslensku nefndarmennina á fund, hvernig sem á stæði. Að öðrum kosti mættu þeir engu breyta. Mjer finst þetta hreinasta fjarstæða.

En ef það er rjett, að hjer sje ekki að neinu leyti gengið nærri sambandslögunum, þá kemur ekki til nokkurra mála, að við þurfum að blanda Dönum inn í þetta mál. Það snertir þá að eins okkur sjálfa.

Það liggur líka í hlutarins eðli, að þar sem Danir hafa viðurkent fullveldi þessarar þjóðar, þá þýðir það ekki annað en það, að Danir viðurkenna, að við ráðum í landinu. Og jeg er sannfærður um, að þeim hefir ekki dottið í hug að leita að öðrum leiðum til að ráða í landinu.

Jeg er sannfærður um, að danskir stjórnmálamenn telja það eðlilegt og sjálfsagt, að við í stjórnarskránni tryggjum okkur rjett til að ráða yfir landinu, með því að setja inn 5 ára búsetuskilyrðið. Það er í samræmi við það, hvernig þeir líta á sín mál heima fyrir. Við vitum, hve hræddir þeir eru við að hleypa öðrum þjóðum inn í land sitt. Þótt þeir geti stækkað land sitt, þá vilja þeir ekki þá menn inn í ríki sitt, sem ekki eru nábundnir þeirra eigin landi. Því fremur munu þeir nú skilja aðstöðu okkar í þessum málum.

Það er annars mjög leiðinlegt að þurfa nú að deila um þetta mál hjer á Alþingi. Allir stjórnmálaflokkar landsins hafa hingað til fylgst að um það, að koma sambandsmálinu í gott horf. Það hefði líka verið æskilegt, að allir hefðu verið sammála um aðferðina til að leysa þennan hnút, sem hjer er um að ræða.

Því hefir verið haldið fram, að vjer mættum vel bíða með að setja róttækari ákvæði í stjórnarskrána, þar til sýnilega væri um einhverja hættu að raða. En jeg held það allra hluta vegna heppilegast, okkar vegna og sambandsþjóðar vorrar, að fullkomin tryggingarákvæði sjeu sett strax inn. Þá hverfur með öllu tortrygnin í garð sambandsþjóðar vorrar, því að þegar búið hefir verið tryggilega um hnútana, þá vitum vjer, að það er oss miklu síður hættulegt, þótt einhverjir útlendingar flytji inn í landið.

Jeg bíst þá líka við, að ganga megi út frá því sem vísu, að 5 ára búsetan verði samþykt á hinu háa Alþingi. Og jeg þykist þá líka viss um, að þar sem hv. minni hluti hefir þegar gengið inn á 2 ára búsetu og gerir ráð fyrir að lengja hana síðar ef á þurfi að halda, með einföldum lögum, þá muni hv. minni hluta ekki detta í hug að setja fót fyrir stjórnarskrána, þótt 5 ára búsetan verði samþykt.

Eina ástæðu hafa þeir enn borið fram, sem mótfallnir eru 5 ára búsetunni, en ekki halda því fram, að hún sje brot á sambandslögunum. Það er sú ástæða, að þetta ákvæði sje hart aðgöngu fyrir Íslendinga utan Íslands, sem vilji flytjast heim. En það hefir oft komið fram í umr. bæði um þetta mál og sambandslögin, að það ætti alls ekki að fæla góða Íslendinga frá landinu, þótt sett sjeu tryggileg ákvæði um búsetuna í stjórnarskrána, og þessi ákvæði að einhverju leyti komi við þá.

Yfirleitt er ekki ástæða til að fara fleiri orðum um þetta ákvæði, þar sem jeg fellst að öllu leyti á hina mjög svo skýru greinargerð málsins, sem gefin var af hæstv. frsm. meiri hlutans (B. Sv.), og hefi engu við hana að bæta.

Áður en jeg sest niður vildi jeg minnast á brtt. á þgskj. 556, þar sem gert er ráð fyrir að fjölga þingmönnum og bæta 6 þingmönnum við Ed., sem kosnir sjeu hlutbundnum kosningum. Jeg man, að þegar sú stjórnarskrá, sem nú gildir, var á leiðinni gegnum þingið, urðu allmiklar deilur um, hvernig skipun þingsins ætti að vera. Ef jeg man rjett, vildu sumir hafa alla efri deild landskjörna. En eftir mjög miklar deilur varð það að samkomulagi, að 6 deildarmenn skyldu vera landskjörnir, en hinir þjóðkjörnir. Reynsla annara þjóða virðist þá líka sýna, að ekki sje ráðlegt eða heppilegt að búa til of mikið íhald í efri málstofunni. Vjer vitum, að hjá bræðraþjóð vorri, Dönum, hjelt við miklum vandræðum af þessu nýverið, og ætlaði sá hnútur að verða torleystur. Er þá því síður ástæða til að taka upp slíka aðferð, er hún hefir ekki gefist vel hjá nágrannaþjóðunum. Of mikið íhald í efri málstofunni verðum vjer því að varast. Enn er það víst, að ef nú yrði hróflað mikið við skipun þingsins, þá gæti það vel orðið stjórnarskrárfrv. að falli. Þess vegna held jeg, að leið sú, er stjórnin hefir valið í því efni, sje hjer hin rjettasta. Jeg býst nú við, að það verði má ske kallað afturhald, er jeg segi, að 40 þm. sje alveg nóg fyrir þetta land. En jeg álít nú í raun og veru, að svo sje. Auðvitað er aftur á móti, að varla verður hjá því komist að gera breytingu á kjördæmaskipuninni á sínum tíma. En við þetta er ekki gott að eiga nú. Vildi jeg því leyfa mjer að mæla með því, að þessi brtt. væri feld. Og yfirleitt legg jeg áherslu á, og vona, að flestir styðji það, að halda sem minstu fram af breytingum, sem orðið gætu stjórnarskrárfrv. að falli. Gegnum þingið verður það að komast. En jeg býst við, að svo framarlega sem 5 ára búsetuákvæðið kemst inn í stjórnarskrána, þá muni hún verða svo úr garði gerð að öðru leyti, að vel megi við una.