01.09.1919
Neðri deild: 52. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1610 í B-deild Alþingistíðinda. (1334)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Forsætisráðherra (J. M. ):

Það var að eins örstutt athugasemd út af ummælum háttv. frsm. (B. Sv.). Honum hlýtur að hafa misheyrst um það, sem jeg sagði um till. háttv. 1. þm. S-M. (Sv. Ó.) og till. háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.). Jeg sagði aldrei, að þessar tillögur gætu ekki komist að fyrir fimm ára búsetunni. Jeg sagði að eins, að ef tillaga háttv. minni hluta hefði verið samþ., þá hefði ekki þurft að deila um þetta atriði nú. Þá hefði gefist tími til að orða þessa till. skýrt og greinilega.

Ummæli háttv. frsm. (B. Sv.) hafa því við enga stoð að styðjast, en mjer kemur ekki til hugar að kenna það öðru en því, að honum hafi misheyrst ummæli mín.

Jeg sje það líka, að háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) hefir ekki misskilið mig á þennan hátt. Þó var ekki alveg rjett athugasemd hans viðvíkjandi því, er jeg talaði um báðar till. Jeg tók þær þá báðar í sama flokk og sýndi fram á, að ákvæðið um þekkinguna, sem gert er að skilyrði, gæti vel komist inn í kosningalögin. En vitanlega er það rjett, að ef þetta ákvæði kemur í bág við sambandslögin, þá gerir það, það jafnt, hvort sem það er heldur sett í stjórnarskrána eða kosningalögin.

Jeg skal svo ekki lengja meira umræður þessar, enda hefi jeg ekki heyrt hjá neinum, sem talað hefir síðan jeg gerði mínar fáu athugasemdir, neitt hafa komið fram, sem jeg hefði þurft að andmæla.

Jeg skal að eins taka það fram, að jeg tel í alla staði rjettast, að þessi háttv. deild samþ. það, sem hún telur rjettast og best, því að það er alveg rjett fram tekið, að hún ræður engu um það, hvað háttv. Ed. kann að gera við frv.

En geri hún breytingar á því, þá er þar til að taka þegar þar að kemur.