12.08.1919
Neðri deild: 33. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1742 í B-deild Alþingistíðinda. (1554)

113. mál, brúargerðir

Þorsteinn Jónsson:

Jeg gat þess við 1. umr. þessa máls, að jeg myndi bera fram brtt. við frv. þetta. Frá mínu sjónarmiði er það alls ekki rjett að leggja jafnmiklar byrðar á herðar sýslusjóðum og gert er samkvæmt gildandi lögum.

Eins og menn vita, eru tekjur sýslusjóða ekki svo miklar, að það sje meira en nægi til nauðsynlegustu útgjalda, svo sem vegagerða. Ef sýslusjóðir eiga að kosta brýr á sýsluvegum að miklu leyti, þá mun ganga seint að byggja þær. En eins og jeg hefi áður tekið fram, eru margar ár á sýsluvegum, sem engu minni ástæða er til að brúa bráðlega en margar ár á þjóðvegum, af þeirri ástæðu, að margir sýsluvegir eru ekki ófjölfarnari en þjóðvegirnir. Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði, að ef brtt. mín væri samþykt, þá mætti svo heita, að ríkissjóður kostaði eins miklu til brúa á sýsluvegum og þjóðvegum. Jafnvel þótt jeg teldi það rjettmætt, þá gengur till. alls ekki svo langt, eins og allir sjá. Ef t. d. brú á sýsluvegi kostar 50 þús. kr., á eftir till. minni að greiða 10 þús. kr. úr sýslusjóði, og mun það undir mörgum kringumstæðum reynast fullerfitt sýslusjóðum að greiða þá upphæð.

Að vísu hafði vegamálastjóri ekki lagt til, að svona langt væri gengið, eins og jeg ætlast til. En hann virtist, eftir viðtali sínu við samgöngumálanefnd, ekki mótfallinn því, að samgöngumálanefndin gengi fult svo langt og hann í sínu frv.

Ef svo færi, að ekki yrði gerð hið fyrsta breyting á vegalögunum í þá átt, að gera ýmsa sýsluvegi, sem nú kallast, að þjóðvegum, þá er því nauðsynlegra að samþykkja þessa till., því að hún er þó dálítil bót frá því herfilega misrjetti, sem nú ríkir.

Till. mín er sanngjörn, og þótt hv. meðnefndarmenn mínir hafi ekki getað gengið svo langt, vona jeg, að hv. deild sjái, hve sjálfsögð hún er, og samþykki hana.