22.08.1919
Efri deild: 37. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1760 í B-deild Alþingistíðinda. (1587)

113. mál, brúargerðir

Frsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Jeg verð að taka í sama streng og þeir, sem undrast hafa þau andmæli, sem vakin hafa verið gegn þessu máli.

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) var að fárast um það, að óviðeigandi væri að taka lán til þessara starfa, af því að þau væru ekki gróðafyrirtæki. En þó svo væri ekki, virðist mjer það eitt ekki eiga að ráða rjettmæti nokkurrar lántöku, hvort lánsfjenu eigi að verja til svo nefndra gróðafyrirtækja eða ekki — heldur þörfin — þörfin á og gagnið af því fyrirtæki, sem um er að ræða. Í þessu tilfelli er það einnig annað, sem rjettlætir lántökuna, og það er það, að kostnaðurinn við fyrirtækið dreifist þá á fleiri ár. En með því næst sú rjettláta skipun málsins, að sem flestir þeirra, sem starfsins njóta á ókomnum árum beri einnig sinn bagga af byrðum stofnkostnaðar þess, í stað þess að láta hann lenda allan á herðum núlifandi manna, sem margir hverjir njóta lítils góðs af framkvæmd málsins.

Jeg vona svo að lokum, að hv. deild hugsi sig vel um áður en hún greiðir atkvæði gegn málinu. Því þrátt fyrir það, þó það kunni að vera rjett, að vegamálastjóri sje enn þá ekki kunnugur öllum leiðum vestur þar, er ávalt hægurinn hjá eftir á að bæta úr þeim brestum, sem reynslan kann að leiða í ljós. Aðalatriðið er það, að þó hjer sje um stefnubreytingu að ræða, þá er það rjett breyting og sjálfsögð.