08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1951 í B-deild Alþingistíðinda. (2020)

140. mál, landhelgisvörn

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get sagt það sama hjer um þetta mál og jeg sagði í hv. Ed., að jeg tel nauðsyn á að gera eitthvað bráðlega í þessu efni og taka upp auknar landvarnir. En mjer sýnist, að þegar um svona stórmál er að ræða, þá sje varla hægt að gera það undirbúningslaust. Jeg veit að vísu, að sjávarútvegsnefnd hefir leitað sjer upplýsinga um málið, og sjálfsagt fengið þær eins góðar og kostur er á hjer. En það er eftir að fá ýmsar aðrar upplýsingar annarsstaðar að um ýmiskonar varnir. Jeg held, að eftir áætlun nefndarinnar muni kostnaðurinn verða hátt á þriðja hundrað þús. kr. Og er það mikið að leggja út í. En annars held jeg, að nefndin hafi ekki gert ráð fyrir eins miklu fólki og þarf. Það þurfa að vera svo margir menn á þessu skipi, að hægt sje að setja menn yfir á önnur skip. Það var gert ráð fyrir í hv. Ed., að skipið yrði ódýrara og minna en jeg trúi að þörf sje á. Það var talað um það á stærð við botnvörpung. En það þarf áreiðanlega meiri þægindi fyrir skipshöfnina heldur en er á þeim.

Jeg held, að rjettast væri, að þess væri krafist af stjórninni, að hún undirbúi þetta mál og leiti sjer allra upplýsinga, bæði hjer og erlendis, og að næsta þing taki síðan málið fyrir.

Nefndin hefir gert ráð fyrir að skipið mundi kosta 5–600 þús. kr. En jeg gæti trúað, að það komi til að kosta 200 þús. kr. meira, eða þar yfir.

Jeg tel varhugavert að samþykkja þetta frv. eins og það liggur fyrir, því mjer finst það lítið hugsað. Hjer er um mjög há árleg útgjöld að ræða og tel jeg því tæplega rjett af þinginu að fá stjórninni það í hendur jafnlítið athugað.