04.09.1919
Efri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2013 í B-deild Alþingistíðinda. (2123)

130. mál, hafnalög fyrir Vestmannaeyjar

Frsm. (Karl Einarsson):

Við frumv. þetta liggja ekki fyrir neinar brtt., enda hefir enginn hjer haft nokkuð við það að athuga, svo frá því sjónarmiði mætti virðast ástæðulaust, að jeg taki til máls nú. Þessi hv. deild hefir sýnt þann skilning á bjargmálum landsins, að vert er að geta þess henni til lofs. En jeg hefi heyrt, að sumir hv. þm. utan þessarar deildar líti nokkuð smáum augum á hafnarlög þau, sem nú hafa legið hjer fyrir, og finnist minna til um þau en skyld mál, t. d. brúalögin. En þetta tvent, vegir og brýr annars vegar og hafnir hins vegar er skylt og á margt sammerkt, þótt að öðru leyti kenni þar nokkurs munar við nánari samanburð, munar, sem síst verður höfnunum til miska. Þó að jeg nú leyfi mjer að fara nokkuð út í þennan samanburð, þá skal jeg taka það skýrt fram, að þessi samanburður er engan veginn gerður í því skyni að spilla fyrir brúm eða vegum. Jeg er einmitt alveg samþykkur þeirri stefnu, sem þingið hefir tekið að koma þessum framkvæmdum á, þegar hægt er, og á þann hátt, að þær megi koma að verulegum not um. Tilgangur minn er að eins sá, að vekja athygli manna á nauðsyn þessara mála, ekki að vísu hv. þingdm., sem hafa sýnt, að þeir hafa fullan skilning á þessu, heldur almennings eða þjóðarinnar í heild sinni, og nota jeg því tækifærið til þess að koma þessum samanburði í þingtíðindi, svo að sjáist svart á hvítu.

Það má með engu móti vitnast, að menn telji, að hafnir og bættar samgöngur á sjó hafi ekki eins mikla þýðingu og samgöngubætur á landi. Sem betur fer, er land vort allvogskorið og því víða til dágóðar hafnir af náttúrunni, en nokkuð bregður þó út af þessu sumstaðar, og það þar sem síst skyldi, eins og t. d. fyrir öllu Suðurlandi og þeim stöðum, sem þetta þing hefir nú haft frá til meðferðar hafnarbætur. Á slíkum stöðum er þá nauðsynlegt að gera hafnir svo skjótt sem unt er.

Lítum nú á þá þýðingu, sem vegir og brýr hafa fyrst og fremst. Þessar samgöngu bætur gefa strax óbeinan hag, bæði fjárhagslega og menningarlega. Til dæmis um það skal talið, að hjer við styttist leið milli sömu staða, tafir verða minni og tími sparast, en slysförum fækkar, aðgangur opnast nýjum fyrirtækjum en samvinna manna á milli eykst, en við það dafnar og þróast menning og mentun, og verður samgöngubótin þannig óbeinlínis til þess að ýta undir framkvæmdir, þann veg, að því nær sem menn færast hver öðrum, því meira verður víðsýni manna, framþróun vex o. s. frv. Og þegar alt þetta er komið á vist stig, þá fer hagnaðurinn fjárhagslega að koma í ljós, en fyr ekki, þótt þessar samgöngubætur sjeu nauðsynlegar sem upphaf að verulegum framförum.

Um hafnirnar er að mörgu leyti sama að segja, frá menningarhliðinni. En þar að auki hafa þær sjer það til ágætis — og segi jeg þetta af því, að jeg hefi heyrt menn halda því fram, að varlega yrði að fara í að veita fje til slíkra fyrirtækja, með því að landið hafi í mörg horn að líta — að þær borga sig strax, og það er sá stóri mismunur, en þetta er hægt að sanna með tölum. Sjóður sá, sem myndast við notkun hafnanna, borgar stofnkostnað, viðhald og allan kostnað. En sá styrkur, sem landssjóður leggur fram, kemur endurgoldinn í auknum hærri tekjum landssjóðs. Um fjárhagslegu hliðina á þessum samgöngubótum gildir það um vegi og brýr, að því meira sem lagt er af vegum og því fleiri brýr sem hlaðnar eru, því meira verður viðhaldið, og tekjurnar engar beint; en um hafnir gildir það, að þær eru ekkert fjárhættuspil, heldur gróðavegur, sem gefur beinar tekjur.

Enn er óminst á þann mun, sem góðar hafnir og lendingar gera á einu sviði. Jeg á við það, hve mörg mannslíf sparast við þessar umbætur. Jeg skal ekki fara neitt út í það að lýsa því, hve mikilsvert það er, að mannslífin sjeu ekki látin fyrir ekki neitt. Jeg skal að eins geta þess, til samanburðar, að slysfarir hjer eru mörgum sinnum meiri tiltölulega en í Noregi; stafar sá munur ekki af því, að sjósókn sje hjer erfiðari en þar, því að víða eru veiðar þar mjög erfiðar, heldur stafar munurinn af höfnunum. Um Vestmannaeyjar skal jeg geta þess sjerstaklega, að höfnin rúmar ekki fleiri báta en nú hefir verið lagt á hana, og er mikill munur á öryggi bátanna hjá því, sem áður var, þótt hafnarbæturnar sjeu ekki meiri en þegar eru. Menn gátu jafnan búist við því áður þar, að hve nær sem óveður skylli á, eyðilegðust bátar þeirra og útvegur og bjargræði þá vertíð. Eftir að mótorbátarnir komu, kom það varla fyrir, að ekki eyðilegðust 1 eða fleiri bátar á hverri vertíð.

Jeg leyfi mjer að endingu að vona það, að hv. deild verði ekki síður hlynt þessu frv. en öðrum samskonar, sem fyrir þessu þingi hafa legið enda liggur fyrir föst áætlun um kostnað við hinar fyrirhuguðu bætur.