09.09.1919
Neðri deild: 59. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2053 í B-deild Alþingistíðinda. (2209)

141. mál, yfirsetukvennalög

Gísli Sveinsson:

Það lítur svo út, sem ekki muni þurfa langar umræður um þetta mál, því að nefndin hefir í aðalatriðunum gengið inn á rjettmæti þeirra brtt., sem jeg og fleiri hv. þm. hafa gert við frv.

Hún hefir fyrst og fremst fallist á það, sem við nokkrir flm. fórum fram á í brtt. á þgskj. 678, að laun yfirsetukvenna skuli goldin að eins að 2/3 úr sýslusjóði, en að 1/3 úr ríkissjóði, og fari greiðsla þeirra fram, eins og verið hefir, einu sinni á ári, á manntalsþingum. En auk þessa felur brtt. í sjer annað atriði. Þó að gengið sje inn á, að laun yfirsetukvenna skuli að nokkru leyti greidd úr ríkissjóði, þá nær það ekki til kaupstaða. Þar skulu þau greidd að öllu úr bæjarsjóði, og gjaldast mánaðarlega Þetta hefir nefndin fallist á. Enn fremur hefir hún gengið inn á aðra brtt. á þgskj. 677, sem er miðlunartll., um að launin skuli færð niður úr 250 kr. í 200 kr. Till. okkar fór fram á, að launin yrðu 150 kr. í mannfæstu hjeruðunum. Það þótti okkur vera sæmilegt kaup. En hins vegar viljum við ekki gera það að neinu kappsmáli, heldur sættum við okkur við þessa miðlunartill., kaupið sje 200 kr., og sleppum tilkalli til, að okkar 150 kr. till. verði samþykt. — Þó vil jeg taka fram, að ef svo færi, að þetta breyttist eitthvað í meðferð málsins síðar, þá áskiljum við okkur óbundnar hendur með atkvæði okkar. Ef t. d. ætti að fara að hækka þetta aftur, mundum við ef til vill koma með brtt. okkar eins og hún var.

Viðvíkjandi hinum liðunum, c. og d., að fyrir 1000 kr. komi 800 kr., skal jeg geta þess líka, að við leggjum heldur ekki kapp á þau atriði. Það áhærir svo fáa, sem víst eingöngu kaupstaðina, en þau hjeruð, sem undir það koma, munu sætta sig við það. Eins og sakir standa, höfum við flm. því fallist á að taka aftur b., c. og d.-lið á þgskj. 678. — Aftur á móti er dálítið öðru máli að gegna um síðasta liðinn á þgskj. 678, um launahækkunina, að í staðinn fyrir, eins og það er hjá nefndinni, að launin hækki um 50 kr. fimta hvert ár, sem sje á 10 árum upp í 100 kr., þá viljum við, að þau hækki að eins um 25 kr. á fimm ára fresti, upp í 75 kr., og kemur það þá niður á 15 ár. Þetta fanst okkur flutningsmönnum vera fullsæmileg hækkun. Hjer er um meiri uppbót að ræða en farið hefir verið fram á í tillögum þessa þings um nokkra opinbera starfsmenn ríkisins, hvort sem þeir eru æðri eða lægri, að jeg ekki tali um suma þá starfsmenn, sem ekki hefir verið farið fram á neina uppbót til, t. d. hreppstjóra, sem hafa einar 80 kr. En hjer er lagt til, að laun yfirsetukvenna hækki úr 70 kr. upp í 250 kr., hjá nefndinni, svo er miðlunartillaga með 200 kr., og okkar till. með 150 kr. Miðlunartill., sem verða mun samþykt að líkindum, fer þannig fram á hækkun, sem nemur meiru en tvöföldum launum, og það gerir líka frumtillaga okkar. En það er meira en nokkur annar starfsmaður hins opinbera hefir fengið, eða nokkrum hefir verið gefið undir fót með að til mála kæmi

Jeg býst við, að eins og sakir standa, þá verði ofan á, að fyrsta till. okkar verði samþykt, og sú síðasta. Og auk þess miðlunartill. á þgskj. 677, 2. tölul.

Jeg þykist svo ekki þurfa að fjölyrða um þetta frekar. Þó vil jeg að síðustu taka það fram, að eftir því, sem næst verður komist og mjer er kunnugt um eru kröfurnar um þessa hækkun ekki runnar frá yfirsetukonum alment, heldur munu þær bornar fram fyrir áeggjan einstakra úr þeirra hópi. Hins vegar skal jeg fúslega játa, að launin voru of lág. Enda munu þau hafa verið bætt upp með dýrtíðaruppbót í sumum hjeruðum, eða mörgum, að einhverju leyti.