03.09.1919
Neðri deild: 54. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2100 í B-deild Alþingistíðinda. (2290)

135. mál, húsagerð ríkisins

Benedikt Sveinsson:

Hæstv. forsætisráðherra (J.M.) stritaðist við að hrekja margt það, sem jeg hefi aldrei sagt, en ljet óhrakið og óskýrt ýmislegt, sem jeg bar fram í þessu máli. Þetta er síst að furða, þegar hann heyrði ekki ræðu mína, þótt hann ljeti svo, nema í byrjuninni. Hefði hann hlýtt á ræðu mína, þá hefði hann vitað, að jeg nefndi bæði vegi og brýr í sambandi við vinnukraftinn. En annars var það ekki rjett hjá hæstv. forsætisráðherra (J. M.), að jeg teldi þetta nokkra aðalástæðu; jeg gat þess að eins sem atriðis, er gefa þyrfti gaum, um leið og jeg drap á málið.

Úr því á annað borð er farið að semja lög um húsagerð, þá finst mjer rjettast að telja þau fleiri og taka bráðabirgðasniðið af þessum lögum, eins og jeg hefi áður tekið fram. Það er öllum kunnugt, að hjer þarf að reisa í nánustu framtíð ein 8–10 hús á landsins kostnað, og hvers vegna er gengið fram hjá því í þessu frumvarpi? Jeg sje ekki, að það liggi svo á þessu frv., að ekki sje tími til að gera það sómasamlega úr garði.

Þá kvað hæstv. forsætisráðherra (J. M.) kostnaðaráætlanir fyrir hendi, en jeg hefi ekki enn orðið svo frægur að sjá þær. Það getur verið, að þær liggi uppi í stjórnarráði, en jeg býst þá við, að þær sjeu orðnar gamlar og úreltar. (Forsætisráðherra: Þær eru frá í sumar). Þá er öðru máli að gegna, en ekki á jeg sök á því, að þessar upplýsingar eru nú fyrst gefnar, — eða hvers vegna hafa þær ekki birst, t. d. í athugasemdum við frv.? Það væri þó betra en ekkert.

Annars finst mjer eitthvað undarlegt við þetta hús á Hvanneyri. Jeg veit ekki betur en að þegar sjeu veittar til þess 60 þús. kr., og átti það að vera fullnaðarveiting. Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) hefir nú gefið þær upplýsingar, að húsið verði ekki stærra en venjulegt hús einstakra manna, og virðist ekki gott samræmi á milli stærðar og kostnaðar. — „Húsin á Hvanneyri og Eiðum verða ekki stærri en ,„privat“-hús og heimta því hverfandi lítinn vinnukraft,“ sagði hann. Jeg var ekki að hafa á móti húsinu á Kleppi; jeg skaut að eins fram þeirri spurningu, hvort undirbúningur væri gerður. Mjer skilst nú, að svo muni vera. En jeg sá ekki þörf á að semja lög um þetta. Það ætti að nægja að veita stjórninni lánsheimild til framkvæmdanna. Það er einnig til sjóður, sem stofnaður var í þeim tilgangi, að honum yrði varið til húsagerðar handa landsstofnunum, og er þá rjett að grípa til hans. Þessi sjóður hefir verið í skuld, en nú hefir nýlega verið seld lóð fyrir 360 þúsundir króna, og gengur andvirði hennar í sjóðinn. Sjóðurinn hlýtur því að eiga allmikið fje, því að skuldin var fyrir byggingu Safnhússins, en það kostaði ekki meira en um 100 þús., og mun sjóðurinn áður hafa greitt allmikið af því fje. Jeg sje ekki, að vandræði yrðu með bygginguna á Kleppi, þótt þessi lög yrðu ekki samþykt. En jeg vil leggja áherslu á, að ef lögin verða samþ., þá verði þau gerð sómasamlega úr garði, og öll hús tekin með, sem byggja þarf í náinni fram tíð.

Það voru að eins þessar athugasemdir, sem jeg vildi gera, en jeg ætlaði mjer ekki að vekja nein illindi, og þarf því hæstv. forsætisráðherra (J. M.) ekki að verða neitt vondur út af ummælum mínum, og síst þegar skoðanir okkar virðast falla allvel saman. En eins og jeg drap á áður, þá finst mjer, að áætlunin verði að koma á undan lántökuheimild, enda er stjórninni ekki fyr þörf á lántökuheimild, því að ekki leitar hún lána fyr en hún veit nokkurn veginn, hve mikið það á að vera.