22.09.1919
Neðri deild: 70. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2121 í B-deild Alþingistíðinda. (2321)

135. mál, húsagerð ríkisins

Benedikt Sveinsson:

Jeg get litlu bætt við upplýsingarnar um Landsbankann. Það er víst ekki afgert enn þá, hvort bygt verður á næsta ári. Samningar hafa staðið milli Landsbankastjórnar og landssímastjórnar um húsið, en þeim er ekki lokið. Tel jeg þó líklegt, að þeir náist, og eins samningar við stjórnina um afhending bankarústanna gömlu með sæmilegum kjörum. En undir því er mikið komið, hvort bankinn ræðst í húsagerðina og hve nær hann gerir það.

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) lagði mjög á móti því, að Reykjavík legði í kostnað við landsspítalann, og sama gerði þm. Stranda. (M. P.). Nú virðist þetta engin goðgá, þar sem Reykjavík hefir tvímælalaust mest not af spítalanum, og þetta vildi Ed. Jeg hjelt, að það þyrfti heldur ekki að tefja fyrir smíð sjúkrahússins þótt það fengi peningaviðbót frá Reykjavíkurbæ! Jeg tala þetta ekki sem fulltrúi Reykjavíkur, þótt jeg hins vegar gæti það vel. Því að jeg álít miklu hyggilegra, að bærinn leggi fram beinan styrk að sínum hluta, móts við aðra landshluta til þessa spítala, heldur en að hann fari að pota upp nýjum sóttvarnarspítala í viðbót við þá tvo, sem fyrir eru, og fari þar á ofan að reisa sjer almennan spítala!! Það er alveg nýr uppvakningur, sem sennilegast er vakinn upp síðastliðna nótt. Það er svo að skilja, að Reykjavík eigi þá alls ekki að hafa neinn aðgang að landsspítalanum. Má mikið vera, ef Reykvíkingar verða þinginu þakklátir fyrir þá ráðstöfun.

Hvað snertir Hvanneyrarskólabygginguna, þá voru það óbrjáluð orð hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) hjer í deildinni, að 60 þús. kr. fjárveitingin væri fullnaðarfjárveiting. Og er það fullkomin blekking, að fá þingið fyrst til þess að veita þær 60 þúsundir með slíku fororði, og heimta síðar margfalt fje til hins sama.