15.09.1919
Neðri deild: 64. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2141 í B-deild Alþingistíðinda. (2346)

153. mál, aðflutningsgjald af kolum

Einar Arnórsson:

Háttv. frsm. (M. G.) hefir nú upplýst um það atriði, sem jeg vildi spyrja um, það, hve hallinn væri mikill. En um hitt hefir ekkert heyrst enn, hvernig á honum standi. (M. G.: Kolin voru seld undir verði). Það veit jeg, að nokkuð hefir verið selt undir verði, t. d. dýrtíðarkolin til almennings haustið 1917. En það tap á náttúrlega ekki að vinna upp með þessum tolli. (M. P.: Landsverslunin græddi á þeirri sölu). Það hefir líka lengstum kveðið við þann tón, að kol landsverslunarinnar væru dýr og mundu ekki vera seld undir verði. Svo mun líka hafa verið alt árið 1917 og fram á haust 1918, meðan verðið var 325 kr. hver smálest. En þá var kolaverðið hækkað niður í 300 kr., og þar næst í 250 kr., og loks niður í 200 kr.

Hallinn stafar ef til vill af því, að landsverslunin hefir átt fyrirliggjandi birgðir, þegar hún lækkaði verðið, af kolum, sem hún hafði keypt hærra verði.

Það vildi líka svo óheppilega til, að landsverslunin keypti inn talsvert mikið af breskri kolaösku haustið 1918. (M. P.: Voru kolin brend?). Nei, það voru þau ekki, en maður nefnir allan salla með orðinu aska. Þetta hefir verið mjög óheppilegt, en ef til vill ekki hægt við því að gera, þó að landsverslunin fengi þessa skemdu vöru. Hún hafði víst erindreka fyrir sig í Bretlandi, son eins forstjórans, sem gerði þessi innkaup fyrir hana.

En látum það nú vera með tapið. En þar af leiðir ekki, að frv. sje að öllu leyti rjettmætt. Vitanlega er það ekki nema annar aðalatvinnuvegur landsins, sjávarútvegurinn, sem hjer kemur til greina. Sjávarútvegurinn fær að greiða gjaldið, og þá sjerstaklega botnvörpungaútgerðin. En það er nú mjög hæpið, að sjávarútvegurinn sje fær um þetta. Væri skatturinn ekki svona afskaplega hár, væri kann ske öðru máli að gegna. Og jeg vil heldur ekki segja, að það verði ekki að vinna upp hallann, en það má vera á lengri tíma. Gerum ráð fyrir, að tollurinn væri 5–8 krónur af smálest. Það gæti komið til mála. Þess vegna vildi jeg stinga upp á því, hvort ekki mætti hafa tímann lengri og tollinn lægri.

Jeg hefi heyrt það á forstjóra eins stærsta botnvörpungafjelagsins hjer, að það muni ekki sjá sjer fært að halda úti öllum botnvörpungum sínum næsta vetur, því að menn og alt, sem til útvegsins þarf, sje orðið svo dýrt, að til vandræða horfi. Það horfir því ekki vel fyrir þessari grein útvegsins, sem mestar tekjur hefir af sjer gefið til hins opinbera undanfarið. Með því að leggja nú 20 kr. toll á hverja smálest af kolum gæti það orðið til þess, að útvegurinn legðist að einhverju leyti niður.

Í sambandi við þetta væri gott að athuga, hvort lengi mundi ástæða til að halda áfram einkasölu í kolunum. Öll ráðsmenska landsins á fyrirtækjum er venjulega dýrari en einstaklinganna. Einstaklingurinn verður altaf að hugsa um sinn hag, og reynir að hafa allan tilkostnað sem minstan. En fyrirtæki landsins fara aftur á móti flest í molum. T. d. hefir margt verið fundið að landsversluninni til skammstíma, og rekstur bæjarfjelags Reykjavíkur á ýmsum fyrirtækjum þekkja allir, t. d. kartöfluræktina í Brautarholti. Það stoðar ekki að neita því, að rekstrarkostnaður og ráðsmenska hins opinbera er altaf dýrari en einstakra manna.