21.08.1919
Neðri deild: 41. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2216 í B-deild Alþingistíðinda. (2485)

92. mál, Landsbanki Íslands, útibú í Stykkishólmi

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Till. þessi er komin frá hv. Ed. og var samþykt þar. Síðan hefir hún verið athuguð af fjárhagsnefnd, og leggur hún eindregið til, að till. verði samþykt af hv. deild. Nefndin leitaði til stjórnar Landsbankans, til þess að fá álit hennar á þessu máli, og hefir hún skrifað nefndinni á þessa leið, sem jeg, með leyfi hæstv. forseta, skal lesa upp:

„Vjer höfum meðtekið heiðrað brjef hinnar háttvirtu fjárhagsnefndarneðri deildar, dagsett 8. þ. m., ásamt meðfylgjandi tillögu til þingsályktunar um stofnun útbús frá Landsbankanum í Stykkishólmi. Í fyrgreindu brjefi sínu beiðist fjárhagsnefnd umsagnar bankastjórnar um tillögu þessa. Bankastjórnin hefir nú athugað mál þetta, og er einhuga um það, að Stykkishólmur liggi vel við til þess að hafa útbú, að svo mikill fjöldi manna myndi sækja þangað, og viðskiftamagnið myndi verða svo mikið, að útbú ætti að geta þrifist þar mætavel. Bankastjórnin hefir því fyrir sitt leyti ekkert við það að athuga, þó að till. þessi nái fram að ganga, en getur ekki enn þá sagt, hve nær bankinn getur komið þessari útbússtofnun í framkvæmd, en hún mun að sjálfsögðu gera alt það, sem í hennar valdi stendur, til þess að koma útbúinu á stofn undir eins og ástæður bankans leyfa“. Jeg býst við, að hjer sjeu færðar fram nægar ástæður fyrir því, að hv. deild samþykki þessa till., og hygg jeg því, að ekki þurfi frekari meðmæli með henni.