03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Sigurður Sigurðsson:

Við þennan kafla fjárlaganna. sem nú er til umræðu, hefi jeg ásamt hv. þm. Borgfirðinga (P. O.) leyft mjer að koma fram með brtt. á þgskj. 596. Hún er við 10. gr., sem fjallar um sendiherrann í Kaupmannahöfn og útgjöld við hann. — Mjer skildist á orðum hv. framsm. nefndarinnar (M. P.) að hún mundi ekki var hlynt þessari brtt.Hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) sagði ekkert um hana, og get jeg því ekki vitað um afstöðu hans til till. — Hitt fæ jeg á engan hátt skilið, að brtt., í sjálfu sjer, dragi úr sjálfstæði landsins á einn eða annan hátt, nje heldur að hún skerði nokkuð sóma þess eða framkomu sem fullvalda ríkis. Í brtt. okkar er ætlast til þess, að haldin sje sjerstök skrifstofa í Kaupmannahöfn, og skuli veitt til hennar 12 þús. kr. á ári. Kostnaður við sjálft skrifstofuhaldið er vitanlega fyrir utan þessar 12 þús., sem ætlað er til meðferðar utanríkismálanna. Það kann vel að vera, að þetta sje of lágt áætlað til skrifstofunnar, en það mætti þá lagfæra við síðari umr. málsins. — Aðalatriði brtt. okkar er það eins og hún ber með sjer, að fella burtu ákvæðið um sendiherrann í Kaupmannahöfn, sem á að hafa 12 þús. kr. laun, og þar að auki 2 þús. kr. fyrir húsaleigu, og önnur 2 þús. kr. í veislukostnað, sem samantalið verður 16 þús. kr.

Það má nú má ske segja sem svo, að ekki muni mikið um þessi 16 þús. En ef margar 16 þús. koma til sparnaðar, og hans gætt í sem flestu, þá safnast þegar saman kemur og gæti það orðið allálitleg upphæð. Þegar launafrv. embættismanna lá hjer frammi fyrir hv. deild, boðaði jeg þó óbeint væri, komu þessarar brtt., og gat þess líka í umr., að jeg teldi slíkt embætti sem þetta óþarft. Og fyrir því hafði jeg ekki ókunnugri heimildarmann en Boga Th. Melsted, mag. — Jeg sje, að hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) brosir í kampinn. En þó verð jeg að segja, að jeg tel, að ekki verði hjá því komist að taka tillits til álits þess manns. Auk þess hafa ýmsar raddir heyrst móti stofnun þessa embættis að svo komnu. Og er till. okkar flutningsm. bygð á þessu, að svo beri að líta á, sem hjer sje ekki um bráðnauðsynlegt embætti að ræða, og að ekki sje sjerlega aðkallandi, að málið sje til lykta leitt á þessu þingi. Jeg sje ekki ástæðu til að tala langt mál um þetta. Með till. þessari er verið að reyna að draga úr hinum miklu útgjöldum ríkissjóðs og koma í veg fyrir stofnun nýs embættis í Kaupmannahöfn, sem hlýtur að hafa mikinn kostnað í för með sjer, er fram í sækir. Auk þess var af fleirum slegið á þá strengi í umr. um launalögin, að ekki ætti að fjölga embættum. Þetta er í samræmi við álit hv. þm. Borgfirðinga (P. O.) og mitt. Stofnun þessa embættis kallar ekki að, og embættið er auk þess þýðingarlítið, að jeg ekki segi alveg ónauðsynlegt.