30.08.1919
Neðri deild: 50. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2265 í B-deild Alþingistíðinda. (2556)

138. mál, Þingvellir

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Árla á þinginu barst fjárveitinganefnd erindi frá nefnd, sem kjörin var af ýmsum fjelögum hjer í bænum til að athuga umbætur og verndun á hinum fræga sögustað okkar, Þingvöllum. Sú fjárveiting, sem lögð er til í fjárlagafrv., er veitt með þær umbætur fyrir augum. En til frekari árjettingar þessu hefir nefndin leyft sjer að koma með þingsáltill. á þgskj. 533.

Málinu er ekki svo langt komið, að hægt sje að ákveða kostnaðinn, fyrirfram. Til þess þyrftu að liggja fyrir ákveðnar till. um, hve mikið af þingstaðnum forna eigi að friða. En síðar meir, þegar allar upplýsingar eru fengnar, er tilætlunin, að stjórnin semji frv. um friðun þessa staðar. Og býst jeg þá við, að fjárframlögin fari eftir þeim upplýsingum, sem stjórnin leggur þá fram um kostnaðinn. Friðaða svæðið verður að vera nokkuð stórt, og nauðsynlegt að taka allmikið svæði út fyrir sjálfan þingvöllinn til friðunar, eigi staðurinn að halda sjer vel.

Viðvíkjandi 2. lið þingsáltill. skal jeg taka það fram, að ef einhverjar af þeim jörðum, sem þar eru taldar upp, losna úr ábúð, er það tilætlun nefndarinnar, að þær sjeu ekki bygðar mönnum aftur, nema með því skilyrði, að ábúandi standi upp af jörðinni bótalaust, ef Alþingi eða landsstjórn æskir þess. Nefndin leggur til (sbr. 3. lið), að mönnum sje ekki leyft að byggja á Þingvöllum, að minsta kosti ekki meðan verið er að rannsaka, hvað rjett muni að friða og afgirða. Síðan geta menn þá gert út um það, hvort byggingar skuli leyfðar utan girðingar að einhverju leyti. Gróður í Þingvallahrauni gengur mjög úr sjer, og fer svo áfram, ef ekki er þegar hafist handa. Það er að öðru leyti óþarfi að orðlengja frekar um till., því í greinargerðinni er drepið á það helsta, sem máli skiftir í sambandi við hana.