11.09.1919
Neðri deild: 61. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2282 í B-deild Alþingistíðinda. (2576)

150. mál, stækkun á landhelgissvæðinu

Forsætisráðherra (J. M.):

Það er sjálfsagt, að hver stjórn, sem með mál þetta hefir að gera, muni reyna að fylgja því fram svo sem hún má best, en ekki er hægt að lofa fyrirfram, hver árangurinn muni verða.

Hv. nefnd mun vera kunnugt um, að samskonar tilraunir, sem hjer er farið fram á að gerðar sjeu, hafa verið gerðar aftur og aftur frá öðrum smáríkjum, en jafnan árangurslaust. Sjálfir Englendingar hafa og haft á dagskrá útfærslu landhelgislínunnar, en ekkert orðið úr.

Það er þrent, sem tillagan fer fram á, í fyrsta lagi, að landhelgissvæðið sje stækkað, í öðru lagi, að það nái yfir alla flóa og firði, og í þriðja lagi, að helstu bátamið, þótt fyrir utan landhelgi sjeu, verði friðuð. Það eru fleiri en Íslendingar, sem vilja færa landhelgislínuna út fyrir þriggja mílufjórðunga svæðið, og má vera, að ekki sje með öllu vonlaust um, að um það fáist samkomulag. Hvað það snertir að fá flóa og firði friðaða, þá var talsverð ráðagerð um það fyrir nokkrum árum, og var ekki vonlaust um, að svo yrði að einhverju leyti, t. d. að eitthvað fengist friðað af Faxaflóa fram yfir það, sem nú er; þó varð ekkert úr því, þegar á átti að herða. Þá er loks að minnast á bátamiðin fyrir utan landhelgi. Jeg held, að ekkert hefði átt að standa um þau í till., því að jeg tel vonlaust um, að þau fáist friðuð. Það stendur eins á hjá sumum öðrum þjóðum. Þær eiga fiskisæl mið á grynningum utan landhelgi, og mundu þær æskja, að þau svæði væru friðuð, en geta ekki vænst þess að fá því framgengt; enda mun það vera ærið nóg verkefni fyrir stjórnina í bráð að vinna að því að fá friðaða firði og flóa og landhelgislínuna færða út. Jeg hafði ekki veitt eftirtekt þriðja atriði till. fyr en hv. frsm. (Sv. Ó.) vakti athygli mína á því í ræðu sinni. Þótt jeg geri alls ekki ráð fyrir, að grynningar fyrir utan landhelgi fáist yfirleitt friðaðar, þá má vera, að einhverjar af þeim grynningum, sem hv. frsm. (Sv. Ó.) nefndi, geti helgast af eyjum og skerjum, t. d. Eldey, svo að fyrir þá sök fáist þær friðaðar, en um þær grynningar, sem eigi hagar svo til með, geri jeg ráð fyrir, að eigi sje umtalsmál.