25.07.1919
Neðri deild: 16. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2354 í B-deild Alþingistíðinda. (2658)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Pjetur Jónsson:

Það eru tveir háttv. þm. úr bæjarstjórn Reykjavíkur, sem eru flutningsmenn þessarar till., er hjer liggur fyrir, og mætti ef til vill ætla af því, að þeir flyttu hana að einhverju leyti fyrir bæjarstjórnarinnar hönd. Sjerstaklega er eðlilegt, að mönnum dytti þetta í hug, af áliti því, er hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) las upp áðan.

En hv. þm. (J. B.) láðist að geta þess, er síðar gerðist í málinu.

Áður en Alþingi kom saman 1917 kom til stjórnarinnar beiðni frá fossafjelaginu Íslandi um sjerleyfi til þess að byggja út Sogsfossana og reka fossiðnað með aflinu úr þeim. Var frumvarp um þetta síðan flutt í Ed. Alþingis 1917. Þá varð það að samningum milli bæjarstjórnarinnar og fossafjelagsins, að hún tæki aftur beiðni sína um eignarnám á fossunum. Það mun hafa verið álit bæjarstjórnarinnar þá, að heppilegra væri að treysta því, að svo hagfeldir samningar tækjust milli hennar og fossafjelagsins um not bæjarins af vatnsaflinu, fremur en að hætta á, að landið eða bærinn gætu af sjálfsdáðum bygt út fossana í næstu framtíð, svo að gagni kæmi. Þetta var nú skoðun bæjarstjórnarinnar þá, og mjer er ekki kunnugt um, að henni hafi snúist hugur síðan. Auk þessa er það skoðun mín, að hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) hafi ekki gert nákvæma áætlun um, hve mikið mundi kosta að taka fossana eignarnámi. Jeg geri ráð fyrir, að eitthvert tillit yrði tekið til þess, er Reykjavíkurbær gaf fyrir þennan litla hluta af vatnsafli Sogsins, er hann keypti nú fyrir ekki löngu síðan, og hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) gat um. Rjetturinn yfir þessum parti var borgaður eins og hann var metinn, á 30 þús. kr. Og þó aldrei nema sje gengið út frá því, að hann standi óskertur, eins og hann var keyptur, þá er þetta að eins lítill angi af því afli, er Sogið hefir að geyma. (B. J.: Hvað voru það mörg hestöfl?). Það hefir ekki, svo jeg viti til, verið reiknað út. Og ef þetta yrði haft sem mælikvarði fyrir öllu vatnsafli Sogsins, þá yrði verðið nokkuð hátt.

Nú er svo til tekið í till. þessari, að Alþingi ályktar að skora á landsstjórnina að gera nú þegar ráðstafanir til þess, að landið nái fullum umráðum og notarjetti á allri vatnorku í Soginu, alt frá upptökum þess og þar til er það fellur í Hvítá.

Það er því ekki að eins neðri hluti Sogsins, heldur það alt upp í gegn.

Það dylst því engum, að hjer muni meira en lítið fje þurfa, ef taka á það alt eignarnámi.

En þá er spurningin: Er þetta gert fyrir Reykjavíkurbæ, og ætlar hann að snara út fje þessu?

Annars finst mjer till. þessi algerlega óþörf, eftir að komnar eru fram till. meiri hluta fossanefndarinnar. Eftir þeim skilst mjer skoðunin verða sú, að ekki þurfi að taka Sogsfossana eignarnámi. Að sama brunni ber og, þótt farið sje eftir áliti minni hluta fossanefndar. Eftir hans tillögum verður Sogið heldur ekki virkjað með heimild löggjafarvalds og landsstjórnar. (B. Sv.: Er hv. þm. á þeirri skoðun?). Það kemur ekki málinu við, en hitt liggur í augum uppi, að það atriði verður að útkljá áður en landið fer að kaupa þessi rjettindi, svo að það fari ekki að greiða fje fyrir það, sem það reynist svo að hafa átt.

Og þótt svo færi, að skoðun minni hluta yrði ofan á hjer á þingi, þá liggur samt ekkert á fyrir landssjóð að ausa út peningum þessum. Öllu mun óhætt um það, að vatnsafl þetta skreppur ekki burt, þar sem leyfi Alþingis þarf til að virkja fossana.

Það er því nægur tími til að framkvæma eignarnám þetta, þegar minni fjárnauð er en nú.

Till. er því þýðingarlaus. En nú kemur til kasta fossanefndarinnar að ráða til um framgang hennar.