17.09.1919
Neðri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2398 í B-deild Alþingistíðinda. (2677)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Jörundur Brynjólfsson:

Það hafa nú þegar orðið allmiklar umræður um þetta mál, og margt verið drepið á. Jeg mun því ekki hirða að minnast á alt, er fram hefir komið, og tefja tímann með því, og mun því fara fljótt yfir sögu og minnast að eins á það, sem nú þykir mestu máli skifta, enda hefir nú svo mörgu verið hrúgað saman gegn till. þessari, að það mætti æra óstöðugan að eltast við það alt.

Jeg verð þó að gera hv. frsm. (G. Sv.) svo hátt undir höfði, að víkja lítillega að ummælum hans, þótt þau gæfu tæplega tilefni til þess, og jeg hefði síst búist við þessum ummælum, eftir því sem fram kom í gær.

Hann mælti nú mjög sterklega á móti því, sem hann lagði fyrir deildina í gær til samþykkis.

Síðari hluti till. í gær var, eins og tekið hefir verið fram, mjög líks efnis og þessi till. En ekki veit jeg, til hvers hann hefir verið borinn fram, ef ekki hefir verið til þess ætlast, að honum væri framfylgt. Reyndar vjek hv. frsm. (G. Sv.) ekki að því einu orði þá.

En af umr. í dag er sú frammistaða skiljanleg. Það virðist liggja í loftinu, að þetta beri ekki að framkvæma fyrir hönd landsins, enda þótt möguleikar sjeu á því.

Einn hv. þm. (E. A.) hefir dregið í efa, að lagaheimild væri til þess, hjá öðrum er því borið við, að ekkert liggi á, og enn er því haldið fram, að þetta verði svo dýrt og rjett sje að draga framkvæmdirnar þess vegna.

Háttv. frsm. (G. Sv.) sagði, að við hefðum, er við fluttum till., haldið því fram, að hún ætti ekki að skera úr um eignarrjettinn, og er það rjett, að við ætlumst ekki til, að hún geri það, frekar en hún nær.

Okkur datt alls ekki í hug að koma fram með það skoffín, sem gerði það að verkum, að ekkert yrði að hafst, eins og mjer virðist nú að tilætlunin hafi verið með till. þingnefndarinnar í fossamálinu.

Hv. frsm. (G. Sv.) hjelt því fram, að ekki væri þörf á þessum framkvæmdum, meðal annars af því, að Reykjavíkurbær væri byrjaður á að reisa orkustöð við Elliðaárnar. En það er ekki rjett, því bæjarstjórnin ákvað í sumar að fresta því fyrirtæki um sinn, og þó að eitthvað hafi þar verið að hafst um tíma, þá hefir sumt af því verið á móti vilja meiri hluta bæjarstjórnar. Og ef þetta mál fengi heppilega afgreiðslu hjer, mundi hún hverfa frá því fyrirtæki, þar sem það er vitanlegt, að Elliðaárnar hafa ekki nóg afl fyrir Reykjavík nú, hvað þá síðar.

Hv. frsm. (G. Sv.) benti einnig á það, að menn væru hjer farnir að fá sjer vjelar til raflýsingar, og er það rjett. En því meira sem að því er gert, áður en byrjað er á byggingu nýrrar stöðvar, því verra. Auk þess eru vjelar þessar svo dýrar og rekstur þeirra, að ekki hafa þeirra not nema efnuðustu menn, og væri betur, að þeir verðu því fje til hlutakaupa og hjálpuðu með því til að reisa aflstöð við Sogið.

Þá mundi almenningi gefast kostur á að fá aflið til sinna nota. En þetta, sem menn hafa neyðst til að gera hjer nú, er ekkert annað en óyndisúrræði, og má það merkilegt heita að segja, að landið skuli ekkert gera til framkvæmda þessu máli fyrir þeirra hluta sakir.

En meðan það eru ekki mjög margir, sem hafa aflað sjer raforku á þennan hátt, sem hjer er gert, er þó meiri von um góða þátttöku í fyrirtækinu heldur en þegar þeim mönnum fjölgar.

Hv. frsm. (G. Sv.) hjelt, að ekki væri eftirsóknarvert að ráðast í þetta, af því að fyrirtæki hins opinbera hefðu ekki gefist vel hingað til. Jeg held þó, að þau fyrirtæki, sem rekin hafa verið með alúð, hafi tekist vel. Eða hefir ekki landssíminn, Landsbankinn og pósthúsið borið sig vel? Jeg þykist vita, að hv. frsm. (G. Sv.) muni afsaka þessi orð sín með Tjörnesnámurekstrinum, kartöfluræktinni og dýrtíðarvinnu. En jeg tel lítið á því að byggja. Jeg veit t. d. ekki, hvar á landinu kolavinsla hefir gefist vel.

Um fjárhagsatriðið veit maður ekki með fullri vissu, hvað það mundi kosta mikið fje að taka Sogið eignarnámi. En jeg býst við, að það fari ekki mikið fram úr 100 þúsund krónum í mesta lagi, eftir því verðlagi, sem nú er á vatnsafli og rjettindum til lands.

Jeg held, að jeg hafi nú vikið að því helsta, sem hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) drap á.

Þá kem jeg að hv. þm. Dala (B. J.).

Jeg fer nú að hætta að undra mig á fossanefndarstörfunum. eftir þann óskapa köngurlóarvef, sem hv. þm. (B. J.) spann hjer áðan. Hann fór að reyna að vera mjög vísindalegur, og tókst náttúrlega eins og vant er.

Meðal annars leitaðist hann við að sanna, að fossalögin frá 1907 væru ekki í gildi. Hvaðan kemur honum sú viska? (B. J.: Frá lögfræðingunum). Ætli það? Jeg held, að hv. þm. Dala. (B. J.) telji sig oft hafa betur vit á málunum en lögfræðingarnir, og átel jeg hann ekki fyrir það.

Heilbrigð skynsemi er oft betri en allar vífilengjur lögfræðinganna. En hvernig á að framkvæma þessa tillögu, ef ekki eftir lögunum? Eða telur hv. þm. Dala. (B J.) þessi lög ekki í gildi enn?

Þá kem jeg að hv. 2. þm. Árn. (E A.). Hans athugasemdir þóttu mjer býsna eðlilegar, frá hans sjónarmiði skoðað. En jeg hjelt að hann vissi, að við höfum fulla þörf fyrir rafmagn. Nauðsynin á því er tvímælalaus. En hann virðist vera í vafa um, hvora leiðina eigi að fara, hvort landið eigi að láta mönnum í tje rafmagn, eða hvort einstakir menn eða fjelög, og þá auðvitað útlendingar, eigi að gera það. Þingið hefir tvímælalaust fylsta rjett til að gera út um þessi atriði, og mín skoðun er, að landið eigi að gera það nú þegar. Og þegar gert er út um þetta, hvort eignarnám á Soginu skuli fram fara, þá er um leið skorið úr um þetta atriði, sem hv. 2. þm Árn. (E. A.) var að minnast á. Því það getur ekki komið til nokkurra mála, að dómstólarnir dæmdu ógilt það, sem þingið væri búið að gera í þessu efni.

Jeg hygg, að hv. þm. Dala (B. J.) hafi ekki verið í efa um, að landið hefði heimild til að taka fossa eignarnámi, þegar hann kom með frv. 1917, um að landið keypti upp vatnsafl fyrir 20 milj. króna. Jeg skal með leyfi hæstv. forseta lesa upp tvær greinar úr frv. — 2. gr. er svona:

„Stjórnin skal neyta þessa fjár til þess að gjalda af því verð fyrir fossa eða annað vatnaafl, er hún tekur samkvæmt 50. gr. stjórnarskrár um hin sjerstaklegu málefni Íslands, 5. janúar 1874, og 12. gr. laga 22. nóvember 1907, um takmörkun á eignar- og umráðarjetti á fossum á Íslandi, um eignarnám á fossum o. fl.“

Og 3. gr. er svona:

„Lög þessi heimila stjórninni sjerstaklega að beita eignarnámsheimildum þeim, er getur í 2. gr., til þess að taka í sínar hendur fossa og vatnaafl á Suðurlandsundirlendinu, er best liggur til notkunar“.

Jeg hygg, að með þessu sje allljóst kveðið að orði um, hvað landsstjórninni sje ætlað að gera í þessu efni.

Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) drap á, að fossafjelögunum erlendu mundi verða auðvelt að sýna fram á, að fossaflið væri meira virði nú en þegar þau keyptu það. Það getur nú verið. En hvað mun þá síðar? Gæti þá ekki farið svo, að vatnsorkan kostaði margfalt meira en nú. Sú reynsla, sem við höfuð í þessum efnum, bendir ekki á að það muni síðar ódýrara. Þetta minnir mig á kaupin á Elliðaánum. Bærinn átti völ á að kaupa þær fyrir ca. 16,000 krónur, en það var felt. Svo keypti bærinn Elliðaárnar síðar fyrir á 2. hundrað þúsund krónur (um 140 þús. kr.). Mjer sýnist ekkert efamál, að mjög auðvelt sje að framkvæma till., og að það sje sjálfsagt að gera það sem fyrst.

Svo skal jeg loks víkja örfáum orðum að hv. þm. S.-Þ. (P. J.).

Mjer þótti mjög eðlilegt, að hann væri ekki hrifinn af till., þar sem hann er fjelagi í fossafjelaginu „Íslandi“, og auk þess í stjórn þess. Af því leiðir vitanlega, að hann gætir vitanlega hagsmuna þess, án þess, hvað landinu er fyrir bestu. Hann færði til sem ástæðu á móti till., að í fyrsta lagi mundi ekki liggja á að taka Sogið og í öðru lagi gæti ríkið, ef það vildi, varnað því, að aðrir starfræktn Sogsfossana; ríkið hefði hindrunarrjettinn. Þegar mælingar allar væru búnar, væri nógur tími fyrir ríkið að ná eignarhaldi á Soginu. En þessar ástæður eru hjegóminn einber. Dettur nokkrum í hug, að Sogið verði ódýrara þegar búið er að undirbúa að öllu leyti virkjunina? Mælingar allar og rannsóknir á fossunum kosta ærið fje auk þess sem búast má við, að vatnsorkan hækki einmitt fyrir þetta í verði. Það er því beinlínis villandi að vera að halda þessu fram. Og ef ríkið vildi hindra virkjunina, sem það auðvitað gæti, þá væri það vitanlega með það fyrir augum, að fá sjálft eignarhald á fossunum. Þessi töf eða dráttur á málinu gæti því blátt áfram orðið stoð fyrir fjelögin til þess að hækka verðið á vatnsorkunni upp úr öllu valdi.

Hv. þm. (P. J.) feldi líka þessar ástæður með því að segja, að ef ríkið ætlaði að taka vatnið í sínar hendur, þá yrði það að gera það strax. En svo sagði hann jafnframt, að ef þingið færi að ráðast í þetta, þýddi það töf á öllum fossiðnaði. Og varð hann því ekki skilinn öðruvísi en að útlend fjelög ein ættu að starfrækja fossana hjer á landi, en ekki ríkið. Yfirleitt taldi hann öll tormerki á, að till. yrði samþykt.

Hann mintist á, að fossafjelagið ,,Ísland“ hefði ekki mikið „kapital“ með höndum nú, en það mundi verða auðvelt fyrir það að afla þess, því þetta fyrirtæki þess mundi verða gróðavænlegt, ef það að eins fengi að byrja. En borgi það sig fyrir fjelagið að fá fje að láni í þessu skyni, hvers vegna ætti það þá ekki að borga sig eins fyrir landið?

Það hefir verið minst á það hjer í deildinni, að þeir menn, sem greiddu atkvæði á móti till., sem feld var hjer í deildinni í gær, væru að reka erindi erlendra fossafjelaga. Þesskonar ummæli bíta ekki á mig. En jeg vil skora á þá, sem eru að dylgja með slíkt, að koma fram með, hvaða ástæður þeir hafa til slíkra ummæla. Það skyldi þá ekki sýna sig, að þeir standi nær fossafjelögunum sumir hverjir en við. Illa koma nú skoðanir hv. þm. Dala. (B. J.) — svo maður nefni eitt dæmi, — við skoðanir hans á þessum málum hjer í þinginu 1917. Ætli þessir hv. þm., sem nú vilja svo ólmir fella þessa till., hafi hreinni skjöld en við? Jeg held ekki, að við sjeum fíknari í fje en sumir hv. andstæðingar okkar Þingsagan getur best vitnað um það.

Skal jeg svo láta útrætt um þetta að sinni.