23.09.1919
Neðri deild: 71. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2454 í B-deild Alþingistíðinda. (2706)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Forsætisráðherra (J. M.):

Eins og till. liggur nú fyrir, get jeg ekki litið öðruvísi á en að stjórnin verði að hafa heimild til þess eins, að leita fyrir sjer um það, hvernig hægt sje að ná þessum rjettindum landinu til handa. Jeg tel því ekki mikinn mun á till. og þeirri rökstuddu dagskrá, sem hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) bar fram, en feld var við fyrri umr. málsins.

Jeg held, að eftir báðum sje stjórnin skyldug til að leita fyrir sjer með að ná þessum rjetti.

En meira skil jeg ekki að hægt sje að gera að svo stöddu en þetta, og leggja svo samningana eða svörin fyrir næsta Alþingi.

En jeg saknaði þess, sem nú er fram komin brtt. um, að haldið verði áfram þeim rannsóknum, sem þegar er byrjað á þar. Jeg tel það mjög mikils virði, að þeim verði haldið áfram, þar sem það gæti flýtt mjög fyrir verkinu.

Til þess eins þarf því stjórnin að halda á fje fyrir næsta þing.

Jeg hefi oft tekið það fram, að jeg tel það stríða á móti stjórnarskránni að samþykkja útgjöld úr ríkissjóði í tillöguformi.

En það er brot, sem þingsköpin hafa komið á, og stjórnin hefir látið sjer lynda slíkar heimildir.

En það er í rauninni misbrúkun á þingsál., og ruglar þar að auki allar áætlanir fjárlaganna, að samþykkja slíkar fjárveitingar með þingsál.

Annars var það hjer áður fastur siður, að hver fjárveiting varð að vera ákveðin í fjárlögunum.

Jeg man, að þegar jeg var fyrst við riðinn umboðsstjórn landsins, þá þóttist stjórnin ekki geta greitt annað fje en það, sem heimilað var í fjárlögunum.

En nú er þetta alt orðið reikult og fljótandi, og er það til skaða. En von er um, að það lagist, þegar farið verður að halda þing á hverju ári. Í sumum löndum er þetta svo, að ríkisfjehirðir neitar að borga, ef ekki er heimild til þess í fjárlögum.

En nú er þessi venja hjer á komin, og er því sjálfsagt óhætt að samþykkja brtt. hv. 1. þm. Árn. (S. S.), að nota fje til að halda rannsóknunum áfram.

Jeg tel ekki annað fært en að samningar og till. allar verði lagðar fyrir mesta þing, áður en lengra er farið.

En um hitt er jeg fyllilega samdóma hv. þm., að svo beri að sjá um, að landið nái fullum eignarrjetti á Soginu, með tímanum.

Jeg veit ekki, hvort hv. þm. gera sig ánægða með þennan skilning minn á till., ef hún verður samþ. En ef svo er ekki, verða þeir að gera aðrar ráðstafanir til framkvæmda málsins.

Hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) talaði um það um daginn, að stjórnin hefði látið undir höfuð leggjast að bera undir fossanefndina erindi bæjarstjórnar Reykjavíkur um það, að ná tökum á Sogsfossunum. En hv. þm. (J. B.) hefir ekki athugað það, að sú beiðni var tekin aftur.

Í brjefi frá bæjarstjórninni, sem hv. þm. (J. B.) getur fengið að sjá, ef hann vill, stendur, að bæjarstjórnin geri ráð fyrir að komast að haganlegum samningum við fossafjelagið ,,Ísland“ og þess vegna tekur hún þessa beiðni aftur.

Stjórnin gat því ekki borið annað undir fossanefndina en till. þingsins.

En þessu hefir hv. þm. (J. B.) gleymt, að erindi þetta var reglulega tekið aftur.

Stjórnin á því enga sök á því þótt hún bæri það ekki undir fossanefndina.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um málið, enda tel jeg það ekki til neins; að eins vil jeg benda á það, að ef einhver hefir annan skilning á till. en þann, sem jeg hefi lýst fyrir mína hönd, þá þarf það að koma fram nú þegar.