26.09.1919
Efri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2466 í B-deild Alþingistíðinda. (2726)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Mjer skildist, að hv. sessunautur minn (S. F.) vildi slá því föstu, að landið virkjaði Sogsfossana, en jeg hjelt, að jeg hefði tekið það skýrt fram, að við vildum ekki binda hendur síðari þinga um það, en við viljum ekki gera neitt til að hindra, að svo verði, en það er annað en slá því föstu.

Þá vildi sami hv. þm. (S. F.) halda því fram, að ekki væri hægt að ráðstafa þessu eða gera samninga um það, nema komið væri að spurningunni um eignarrjettinn, en jeg get ekki fallist á, að samningaumleitanir geti ekki farið fram, þótt rjettarspursmálið sje óútkljáð, og því verður ekki ráðið til lykta fyr en samþykki Alþingis kemur til; þetta styðst og við eitt orð, er hæstv. forsætisráðh. (J. M.) sagði, og það var samningatilboð.

Viðvíkjandi því, er hæstv. forsætisráðh. (J. M.) sagði, að hann sæi ekki fært að framkvæma lögnám, nema fullar bætur kæmu fyrir, þá er það í fullu samræmi við það, sem jeg skýrði frá fyrir hönd nefndarinnar, og hún er fyrir sitt leyti fús á að nema það burt úr fyrirsögn till., en jeg býst ekki við, að hæstv. forseti vilji breyta því ,,redaktionelt“. Að það er ekki ætlast til lögnáms sjest enn frekar á þeirri breytingu, er samþykt var í háttv. Nd., að fella burtu tilvitnunina í fossalögin frá 1907; það stefnir að sama marki, að láta gildi laga um eignarrjettinn vera óafgert.

Þar sem þeim ber á milli, hæstv. forsætisráðh. (J. M.) og hæstv. fjármálaráðh (S. E.), um það, hvort þetta sje svar til fossafjelagsins „Íslands“, þá ætla jeg ekki að skera úr því. Nefndin talaði ekkert um þetta atriði. Hún vildi ekki láta uppi neitt svar til fjelagsins, en eftir öllum líkum mætti skilja það sem svar; að minsta kosti finst mjer það benda fremur í áttina til þess, að fossafjelagið „Ísland“ fái afsvar, en fyrir nefndarinnar hönd hefi jeg ekki umboð til að lýsa neinu yfir um það.

Samkvæmt þessu óska jeg, að dagskrá sessunautar míns (S. F.) verði feld. Að vísa till. til stjórnarinnar er ekki annað en kurteis og þægilegur máti til að fella till., og ef það væri gert, hefði deildin stigið stórt spor aftur á bak frá gerðum hv. Nd., og það get jeg ekki felt mig við.