16.09.1919
Neðri deild: 65. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2475 í B-deild Alþingistíðinda. (2736)

158. mál, réttur ríkisins til vatnsorku í almenningum

Jörundur Brynjólfsson:

Örfá orð. Mjer sýnist þessi till. vera í samræmi við það, sem verið hefir að gerast í þessu máli. Hjer kemur síðar önnur till. til umr., sem fjallar um líkt málefni, og skal jeg því ekki fara út í einstök atriði að sinni. Jeg ætla að eins að láta þá skoðun mína í ljós, að jeg tel till. með öllu óþarfa. Jeg hygg, að það liggi á öðru meira í vatnamálunum en að samþykkja þessa till. Þetta þing skilst ekki svo við þessi mál, að atriði, sem eru meira varðandi, verði útkljáð, og getur þetta beðið að skaðlausu.

Mig undrar, að minni hluti milliþinganefndar skuli vera með þessari till. Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) gat þess meðal annars, að óvíst væri um takmörk milli afrjetta einstaklinga og afrjetta ríkisins. Sum afrjettarlönd eru eign hreppa eða einstakra manna, og eiga þeir þá eins það vatn sem þar er og það, sem er í heimalöndum. Hv. þm. vildi láta dómstóla skera þar úr, og býst jeg við, að það verði gert, þegar þar að kemur, en jeg býst ekki við, að það yrði að tjóni, þó það biði að minsta kosti ekki fyrst um sinn. Hv. þm. taldi að gera þyrfti vatnsmiðlun í óbygðum, ef stórár yrðu virkjaðar, en Alþingi veitti það leyfi, og þá væri nægur tími að ákveða hitt um leið. Jeg tel nóg að gert í öllum þessum hringlandahætti í vatnamálunum og tel, að betur sæmdi að láta bíða að samþykkja þessa till., en snúa sjer heldur að öðru sem nauðsynlegra væri.