03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Pjetur Ottesen:

Jeg skal ekki hafa mörg orð um þessa tillögu. En út af ummælum hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) vil jeg segja nokkur orð. Hann talaði mikið um það, sem og rjett var, að aðrar þjóðir legðu mikla áherslu á að hafa sendimenn í útlöndum, til þess að vinna fyrir verslunina. Jeg álít, að við eigum að gera þetta sama, þegar nauðsyn ber til þess. Það er nauðsynlegt að hafa sendimenn erlendis til aðstoðar á þessu sviði. Núna í stríðsárunum höfum vjer sent mann til Ameríku, og ætti að rýmka það enn meir. En vjer eigum ekki að fara að eins og hæstv. stjórn ætlast til í fjárlagafrumvarpinu. Vjer eigum að senda mann til þess að vinna á praktiskum grundvelli að okkar málum. En við eigum ekki að senda mann til þess að halda veislur og mæta á hærri stöðum, eins og hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) var að tala um, heldur til þess að vinna að hagnýtum störfum fyrir þjóðina. Jeg legg sem sje ekki nærri eins mikið upp úr því og hæstv. fjármálaráðherra, hvaða þýðingu þessi maður kunni að hafa fyrir hagsmuni okkar á „hærri stöðum“. Hitt er miklu meira um vert, að sendur sje góður, ötull, viðskiftafróður maður til þess að vinna að útbreiðslu á framleiðsluvörum okkar. En jeg efast stórum um það, að gagn sendiherra mundi verða neitt í samsvörun við það, sem hann mundi kosta miklu meira en verslunarerindreki.

Sending þessi kostar afarmikið fje.

Og hjer er alls ekki hægt að fara í neinn samjöfnuð við stórþjóðirnar. Þær hafa miljónir og tugi miljóna manna til þess að jafna sköttum sínum niður á, en hjer eru einar 90 þúsundir manna til þess að bera alla skattabyrðina. Þær geta ausið út fje á báðar hendur og togast á um tildur og hjegómaskap í nafnbótum og því, sem það hefir í för með sjer, en við ekki.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) sagði, að í öðrum löndum veldust venjulega ríkir menn í þessar stöður. Já, það er nú svo. En við eigum ekki mikið af ríkum mönnum. Og jeg geri heldur ekki ráð fyrir, að það sje endilega víst, að maður hefði aðra eiginleika, sem nauðsynlegir eru í þessu efni, þótt hann væri auðugur.

Jeg ber ekki tillögu þessa fram af því, að jeg telji ekki nauðsynlegt að hafa menn úti í löndum, til þess að vinna fyrir okkur. En jeg vil fara kostnaðarminni leið, sem þó getur gert jafnmikið raunverulegt gagn.

Jeg held, að það sje ekki tilviljun ein, að hæstv. stjórn hefir ekki ætlað nema 16,000 krónur á ári handa þessum sendiherra. Mjer blandast ekki hugur um það, að ef hann ætti að slaga nokkuð upp í það, sem gerist um slíka menn erlendis, og efast jeg ekki um, að það yrði talið sjálfsagt, ef jeg þekki rjett, þá yrði að veita margfalda þessa upphæð.

Stjórnin hlýtur því að bera fram brtt. um að hækka þessa fjárveitingu að miklum mun, því að ómögulega mun henni detta í hug að ætla sjer að blekkja þingið með því, að þessi fjárhæð muni nægja.

Jeg vil harðlega vísa frá mjer öllum getsökum hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) um, að við, sem flytjum till., viljum með henni setja einhvern óþverrastimpil á þjóðina. (Fjármálaráðherra: Jeg sagði skilningsleysi).

Jeg sje, að hæstv. stjórn er þetta mjög mikið áhugamál. Furða jeg mig ekki sjerstaklega á því, ef það er satt, sem heyrst hefir, að hæstv. stjórn sje þegar búin að semja um þetta í Kaupmannahöfn á bak við þing og þjóð. Það hefir flogið fyrir, hvað sem tilhæft er í því.