05.09.1919
Efri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í C-deild Alþingistíðinda. (3049)

75. mál, bifreiðaskattur

Frsm. meiri hl. (Guðmundur Ólafsson):

Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) sagði, að bifreiðar væru ekki óþarfar, og virtist mjer, sem þær ættu þess vegna að vera skattfrjálsar, að hans áliti. En jeg vil minna háttv. þm. (E. P.) á það, að það er svo fjarska margt, sem háttv. Alþingi hefir sjeð nauðsyn á að skatta, þó engum blandist hugur um, að sje til hins mesta þarfa. Má í þessu sambandi benda á t. d., að flutningsbátar eru tíundaðir o. m. fl.

Þá sagði háttv. þm. (E.P.), að ómögulegt væri að nota hesta til flutnings. — Þetta get jeg ekki fallist á. Jeg get ekki betur sjeð en að eins sje hægt að nota hesta til flutnings í Rangárvallasýslu sem í öðrum sýslum landsins. — Bílar tóku ekki að flytjast hingað til lands fyr en fyrir 6–8 árum. Hvernig fluttu Rangæingar nauðsynjar sínar fyrir þann tíma?

Þá sagði háttv. þm. (E. P.), að ómögulegt væri að koma með hesta til Reykjavíkur. Jeg hygg, að líkt sje að koma með hesta til Reykjavíkur og margra annara kaupstaða, þar sem litið er um haga. Menn verða þá annaðhvort að hafa meðferðis hey til að gefa þeim, eða koma þeim fyrir á nálægustu bæjum.

Háttv. þm. (E. P.) var að reikna út, hversu dýrt farartæki bifreiðar væru, þannig, að það kostaði hundruð króna að komast frá Rangárvallasýslu til Reykjavíkur. Ef bifreiðarnar eru svona dýr farartæki, sje jeg ekki, að neitt muni um þennan skatt, og væn nær lagi að hætta ferðum á slíkum farartækjum, ef lýsing þm. á ending þeirra og rekstrarkostnaði væri nokkuð nærri lagi, en um það munu flestir stórlega efast. Hv. þm. Snæf. (H. St.) benti á, að ekki myndi þurfa meira en dags akstur til að greiða skattinn, og hefir því ekki verið mótmælt.

Ummæli háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) um það, að ekki sjeu lagðir árlegir skattar á bifreiðar utanlands, hafa verið hrakin af háttv. þm. Snæf. (H. St.), svo að jeg get slept að tala frekar um...