19.09.1919
Neðri deild: 68. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í C-deild Alþingistíðinda. (3077)

157. mál, vatnsorkusérleyfi

Bjarni Jónsson:

Jeg hefði þurft að svara tveim þm., en skal þó reyna að fara fljótt yfir sögu.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), bjargvættur þessa lands, talaði til mín í gærkveldi, eftir að hafa heyrt, hversu ósamdóma hann var sjálfum sjer. En það, sem hann sagði, var undirskrift undir grein, er einu sinni stóð í „Tímanum“, áður en þm. (Sv. Ó.) gaf út álit minni hl. Jeg hafði ekki búist við, að ritstjórinn hefði skrifað þessa grein, enda fjekk jeg nú undirskriftina hjá hv. þm. (Sv. Ó.) í gær. Annars nenni jeg ekki að eltast við að svara fjarstæðum hv. þm. (Sv. Ó.) frekar.

Háttv. framsm. (G. Sv.) hefir nú svarað því, sem hæstv. forsætisráðherra (J. M.) sagði um eignarheimildina og stjórnarskrána. En þó vil jeg minna á það, að eignarheimildin er ekki nauðsynleg, því að nýlega hefir verið samþ. frv. um eignar- og afnotarjett fasteigna. Í lögunum frá 22. nóv. 1907 hafði vatnið verið tekið út úr. En nú hefir það aftur verið tekið inn og ákveðið, hvernig menn geta öðlast vatnsrjettindi. Því má setja sjerleyfislög á undan vatnalögum. Og það er nauðsynlegt, að sjerleyfislögin gangi fram á þessu þingi, þótt áliðið sje, til þess að hefta alt það brask, sem verið hefir með vatnið og skömm er að, að ekki skuli hafa verið stöðvað.

Ef ekki verður tekið í taumana, er alt útlit fyrir, að sú verði niðurstaðan, að landsmenn verði að borga allar þær miljónir, sem lagst hafa á oss, og fossabraskararnir hafa fyrir að ginna þessar afllindir út úr alþýðunni, fyrir litið verð. Því meiri nauðsyn ber til að stífla þetta, þar sem innlendir menn eru við það riðnir, og það embættismenn á biðlaunum. Slíka fjeglæfra, sem stofnað er til hjer í landinu, þarf að stöðva hið bráðasta.

Þá þarf jeg að minnast lítið eitt á hv. 1. þm. Árn. (S. S.). Hann sagði, að það hefði legið illa á mjer í gær, af því að jeg hefði þá verið nýbúinn að lesa blað eitt, „Tímann“, og mundi mjer hafa gramist eitthvað, sem þar stóð. — Þetta er hinn mesti misskilningur hjá hv. þm. (S. S.). Það var þvert á móti. Þegar jeg hafði lesið „Tímann“ og sjeð, hvað hann tók mjúkum höndum á mjer og því, sem jeg hafði sagt, þá varð jeg svo feginn og glaður, að jeg hjet því með sjálfum mjer að taka jafnmjúkum höndum á hv. þm. (S. S.). Enda rjeðst jeg ekki á hv. þm. (S. S.) einu orði, heldur talaði jeg að eins um till. hans og sýndi fram á með rökum, að hún væri öll í þágu erlendra fossafjelaga, og að hún mundi enn fremur draga fólkið og vinnukraftinn úr höndum bænda og á þann hátt spilla búskap þeirra. Hitt sagði jeg aldrei, eins og hv. 1. þm. Árn. (S. S.) gerði mjer upp orðin, að hún mundi spilla bændum sjálfum, svo að þeir ljetu kaupa sig upp frá jörðum sínum í þjónustu útlendinga. Jeg gerði þeim góðu bændum engar getsakir í þá átt. En hinu hjelt jeg fram, að svo gæti farið, að þeir yrðu að ganga frá jörðum sínum, fyrir skort á vinnukrafti, sem mundi flykkjast til fossafjelaganna. Og hygg jeg, að þeir mundu þá kunna háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) litlar þakkir fyrir að hafa borið fram þessa till. sína.

Þar sem hv. þm. (S. S.) var svo lítillátur, að koma með nákvæma lýsingu á mjer og mínum högum, þá þykir mjer mikið við haft af hans hálfu, og ætla jeg litið að svara því. — Hann vildi telja það sönnun fyrir því, að jeg væri vondur maður, að jeg hefði miklar tekjur. En ekki gat hann samt fært nein rök fyrir því, að neitt af þeim væri illa fengið. Og um grískuna vil jeg gefa hv. þm. (S. S.) þær upplýsingar, að hún er eldri en jeg, og ekki hefi jeg búið hana til. Annars hlýtur mikið af þessum launum, sem hv. þm. (S. S.) talaði um, að vera geymt hjá „Tímanum“. Og jeg skal með ánægju gefa honum ávísun á „Tímann“, svo að hann megi sjálfur góðs af njóta að einhverju leyti.

Þá gerði hv. þm. (S. S.) nokkrar athugasemdir við ræðu mína í gær. Hann sagði, að landið hlyti að verða að einhverju aðnjótandi þeirra mörgu miljóna, sem jeg hafði talað um í sambandi við till. hans. — Jeg talaði aldrei um neinn miljónagróða, heldur sagði jeg, að þegar þörfin ykist fyrir vatnsaflið, samfara fjölgun þjóðarinnar, þá lægju miljónirnar í vatnsaflinu.

Þá ætlaði háttv. þm. (S. S.) landinu einhvern hluta af ágóðanum, líkt og hin ágætu fossalög, þar sem landið á að fá 10% í ágóða af gróðanum, eftir reikningi, sem hinir útlendu eigendur sjálfir setja upp. Svona höfðinglegur ætlaði hv. þm. (S. S.) að vera. En jeg vil láta landið fá allan gróðann. Það kann að vera, að þessi hv. þm. (S. S.) eða kjósendur hans geri sig ánægða með að fá þessi 10% af ágóðanum, en svo lítillátur er jeg nú ekki. — Þá spurði háttv. þm. (S. S.), hvers vegna jeg hefði ekki sjálfur komið fram með frv. um það, að landið tæki að sjer að virkja fossana. Þetta stafar af gleymsku hv. þm. (S. S.), því jeg gerði það 1917. Þar bar jeg fram frv. um, að landið tæki að sjer að virkja það vatnið, sem best er til slíks fallið allra vatna, Sogið.

Jeg vildi taka Sogið, til þess að sem flestir gætu orðið aðnjótandi ljóss og hita frá afllindum þess, svo og til jarðræktar og annara þeirra iðna, sem eru í landinu. Jeg áætlaði, að af þessum 60 þúsund hestorkum, sem má fá úr Soginu, mundu 30 þús. fara í þarfir Reykjavíkur og þeirra bæja annara, sem tiltök væri að leiða aflið til. Hitt mætti hagnýta til annarskonar iðnaðar, sem væri hættulaus og skaðaði ekki bændur, heldur þvert á móti, gæfi þeim ljós og hita, vinnukraft með vjelum, t. d. plóga, til að framleiða áburð. Svo mætti enn fremur nota til saltvinslu t. d. 5 þús. hestorkur. — Af þessu sjest, að hv. 1. þm. Árn. (S. S.) gat sparað sjer þessa spurningu. Hjer liggur líka fyrir till. um að taka Sogið handa ríkinu, og býst jeg ekki við, að standi á mjer að greiða henni atkv., þegar búið er að taka tilvitnunina burtu. Jeg vænti þess, að þeim takist ekki að teyma menn á því.

En auk þessa er fleira því til sönnunar, hvað jeg vil í þessu máli. Jeg bar það sjálfur fram í milliþinganefndinni, að stjórninni væri falið að láta rannsaka Sogið og aflmagn þess og reikna það nákvæml. út. Var það auðvitað fyrir þá sök, að bæði jeg og aðrir ætluðumst til, að ríkið eitt tæki Sogið til þeirra hluta. Hv. 1. þm. Árn. (S. S.) getur því ekki með sanni brugðið mjer um neitt misjafnt í þessu máli. Hann ætti frekar að skygnast inn í sinn eigin barm og sjá, hvort ekki mundi fyr stranda á honum.

Þá talaði hv. þm. (S. S.) mikið um kínverska múrinn. Gaf hann þær hugmyndir um hann, að hann væri margfalt hærri en hann hefir nokkurn tíma verið. Sá múr var reistur til varnar erlendum ræningjum, sem sóttu á landið, og þótti duga vel í þá daga. Og er það síst last um Kínverja, þó þeir hafi reist varnarvirki, svo að útlendar þjóðir gætu ekki runnið yfir landið. Nú hefi jeg aldrei viljað reisa neina múra kringum þetta land fyrir neinu því, er að gagni mætti koma, en hitt hefi jeg viljað, að við værum við þeim búnir og hefðum varnir fyrir þeim hættum, sem sækja nú inn í landið.

Þá talaði hv. þm. (S. S.) um áburðinn. Hann er nú víða fræðimaður, hv. 1. þm. Árn. (S. S.), en þó aðallega í þeirri grein. Þó skjöplaðist honum, að endilega þyrfti stóriðju, ef við ættum að fá áburð. Hann á eftir að sanna, að áburður, sem hjer er framleiddur, verði ódýrari en ef fenginn væri frá Noregi. Jeg hafði tækifæri á að fræðast af forstöðumönnum „Titan-“fjelagsins í þessu efni, er þeir voru hjer. Spurði jeg þá, hvort það mundi mikill ágóði fyrir okkar íslensku skip, þó áburður yrði framleiddur hjer, hvort mikill munur yrði á því, sem inn þyrfti að flytja, og hinu, sem út yrði flutt. Þeir sögðu mjer, að meira skipsrúm mundi þurfa undir það innflutta. Svo að eftir því verður mjög lítið dýrara að fá áburðinn frá Noregi. Auk þess er aðgætandi, að eftir er að flytja þetta austur yfir fjall, þó það sje komið hjer á land. Svona skýst, þó skýr sje þessi áburðarfræðingur, að það eru litlar líkur til, að neitt yrði ódýrara, þó framleiddur yrði áburðurinn hjer. Svo hefir háttv. þm. (S. S.) láðst að gefa því gaum, að sú aðferð, sem notuð er í Noregi, er svo dýr, að við sjálft lá, að stærstu fyrirtækin af þessu tæi færu á höfuðið nú fyrir stríðið. Þau eiga ófriðnum það að þakka, að þau gátu haldið gangandi framleiðslunni. Síðan hafa fundist miklu ódýrari aðferðir, og er þar fyrst að nefna „Hubstoaðferðina“ þýsku. Þessi aðferð þarf margfalt minni kraft en hinar, og mætti vafalaust nota hana með því afli, sem afgangs yrði úr Soginu. Það er því óþarfi að vera að gera þingsáltill. til að ljetta undir fyrir „Titan“. Jeg nefni þetta fjelag af því, að það kemur hjer mest við málið, og kveður mest að því. Það hefir skrifað þingnefndum og heldur úti blaði hjer o. fl.

Hv. 1. þm. Árn. (S. S.) ber mjer það á brýn, að jeg setti glundroða í málið. Jeg býst við, að honum veitist erfitt að sýna fram á það með rökum. En aftur kemur berlega í ljós, að þm. (S.S.) sjálfur vill ekki binda enda á sundurlyndið í þessu máli. Það var hann, sem vildi ekki taka skarið af um deiluna og láta dæma í málinu. Það mátti nefnilega gera í friði, og þá þurfti ekki að deila lengur. Það vilja þessir herrar ekki. Nú þurfa þeir endilega að hafa þetta sem kosningaagn og til að úthrópa okkur fyrir kjósendum. Því var það, að ekki mátti fá úrskurð í málinu með dómi. En ekki ætla jeg kjósendur svo skyni skroppna, að þeir sjái ekki, hvar sökin liggur. Hún er að minsta kosti ekki hjá okkur, sem vildum fara sáttaleiðina.

Þá mintist hv. þm. (S. S.) á útlendu verkamennina, sem hingað kæmu, og að þeir mundu hverfa aftur heim á haustin. Ekki veit jeg hvaðan hv. þm. kemur sú viska. Jeg þekki að minsta kosti ekki þann stóriðnað, sem starfar að eins um hásumarið, en liggur svo í dvala á veturna. Það hljóta að vera draumar hv. þm. (S. S.). Slík stóriðja, sem hjer ræðir um, stafar auðvitað alt árið.

Líka drap háttv. þm. (S. S.) á frv. mitt um 20 milj. kr. lánið. Það var Sogið, sem jeg þá hafði í huga og vildi láta virkja. Það væri alveg hættulaust, eins og jeg hugsaði mjer það. Því við það, sem þar átti að gera, þurfti ekki fleira fólk en svo, að það mætti fá það alt hjeðan úr Reykjavík.

Nú hefi jeg gert mjer mikið far um að svara hv. 1. þm. Árn. (S. S.) sem rækilegast, svo að vegur hans verði sem mestur, og læt jeg hjer því staðar numið. Jeg þykist með því hafa bætt honum upp það, sem jeg særði hann í gær með ræðu minni, sem hann tók æði nærri sjer. En hversu góðan vilja, sem jeg hefi á því, þá get jeg ekki fundið fleira í ræðu hans, sem er svaravert. Hann sagði svo margt, sem fór fyrir ofan garð í málinu og ekki er hægt að taka alvarlega. Annars einkendi það ræðu hans, eins og fleiri í þessu máli, að hún var töluð með hagsmuni útlendra fjelaga fyrir augum, en ekki ríkisins.

Svo ætla jeg rjett að minnast á hv. 2. þm. S.-M. (B. St.), sem nú er farinn að keppa við bjargvætti landsins. Skal jeg síst leggja til hans í neinu, svo hans geti notið við sem best.

Hann var að tala um, að jeg vantreysti þjóðinni og þjóðerninu, að jeg skyldi hræðast , þó flyktist inn í landið nokkrir tugir þús. útlendinga. Það kann að vera, að þjóðernið sje svo miklu sterkara en jeg hugði. En menn geta þó aldrei verið synir bræðra sinna, nje heldur kvenfólkið karlkyns, eins og nú tíðkast. Má ske hv. þm. (B. St.) finnist það benda á styrkleika þjóðernisins. Jeg er ekki að segja, að neinn skaði sje skeður, þótt hv. þm. (B. St.) hafi bætt „R“ í nafn sitt, en lítt er það þjóðlegt og mun varla vera rjett inn komið. Jeg er ekki að bregða hv. þm. (B. St.) um neitt misjafnt. En að eins held jeg, að hann beri oftraust til hins íslenska þjóðernis og styrkleika þess. Jeg veit ekki, hvort hv. þm. (B. St.) hefir athugað nægilega vel, að það „fylgir böggull skammrifi“, þegar þúsundir útlendra verkamanna flykkjast inn í landið. Þeim fylgja að sjálfsögðu ýmsir iðnaðarmenn, svo sem skóarar, skraddarar og kaupmenn, til þess að sjá þeim fyrir því, sem þeir þurfa, og lifa á þeim. Mundi þá ekki líða á löngu, áður en væri komin upp sterk útlend þjóð í landinu. Þá verða talaðar fleiri tungur hjer, og meir en holt er íslensku máli. Og þegar til lengdar lætur, mun það sýna sig, að það verða ekki þeir fáu og fjelitlu, sem sigra, heldur hinir. Af þessum innflutningi stafar því meiri hætta, ef það nú verður ruslaralýður, sem hv. 2. þm. S.-M. (B. St.) vill gera svo lítið úr. Það er erfiðara fyrir þjóðernið að standast þennan ruslaralýð, sem fátt kann og fátt getur lært, heldur en ef það væri af skárra tæinu. Við þessa ofurhuga, eins og hv. 2. þm. S.-M. (B. St.), er ekkert að segja annað en það, að vonandi fái þeir aldrei að sjá afleiðingar þessa oftrausts, sem þeir hafa á íslensku þjóðerni, og hins, hversu óhræddir þeir eru við áhrif erlends ofurmagns. Þeir ættu að hafa þetta hugfast og greiða atkvæði sitt með meiri varúð en þeir viðhafa í ræðum sínum.