19.09.1919
Neðri deild: 68. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í C-deild Alþingistíðinda. (3078)

157. mál, vatnsorkusérleyfi

Sigurður Stefánsson:

Meðferð þessa máls er orðin nokkuð önnur en til var ætlast í fyrstu og venja hefir verið til um slík stórmál. Á þinginu 1917 var talið nauðsynlegt að skipa milliþinganefnd í þessu máli, svo að það í einstökum atriðum og heild sinni gæti fengið sem rækilegastan undirbúning. Þá var það samkvæmt gamalli venju talið sjálfsagt, að stjórnin myndi taka við málinu, er milliþinganefndin hefði lokið starfi sínu, og búa frv. hennar rækilega undir meðferð þingsins, og málið þannig liggja fyrir þessu þingi sem stjórnarfrv., með ítarlegum greinargerðum og athugasemdum.

En þetta fór alt á annan veg. Milliþinganefndin, eða meiri hl. hennar, lýkur ekki starfi sínu fyr en um miðjan þingtíma. Stjórnin fær engan tíma til að búa málið undir meðferð þingsins, en á öndverðu þinginu fara að hrúgast inn á þingið einstök frumvörp, flutt af einstökum þingmönnum, með tilvísun til greinargerða milliþinganefndarinnar í hinu stóra ritverki hennar, sem fyrst kom í dagsljósið nokkru eftir að þing var sett, og allur þorri þingmanna mun vart hafa lesið enn til enda. Eitt af þessum frv. er frv. það til sjerleyfislaga, sem nú liggur fyrir og rætt hefir verið fram og aftur undanfarna daga. Alt fossamálið er enn ekki nema hálfkarrað, þingmenn hafa alls ekki haft tíma til að átta sig á því, og stjórnin gefur nú þá yfirlýsingu fyrir munn forsætisráðh., að hún sje ekki undir það búin að greiða atkv. um þetta frv.; er það nýstárleg yfirlýsing frá einni stjórn, en alveg eðlileg eftir því, sem alt er í pottinn búið. Þm. geta víst vel tekið undir þessa yfirlýsingu stjórnarinnar, og umr. hjer í deildinni sýna það best sjálfar. Jeg hjelt í fyrstu, er jeg hafði lítillega lesið þessi málsskjöl, að þó mætti semja sjerleyfislög. Jeg sagði „lítillega“, af því að jeg hefi alls ekki lesið þau svo ofan í kjölinn, að jeg treysti mjer til að greiða atkv. um málið í heild. Og því lengur, sem jeg hlusta á umr., því óforsvaranlegra taldi jeg að afgreiða þetta fossamál nú frá þinginu. En þrátt fyrir þetta hjelt jeg, að þó myndi mega afgreiða sjerleyfislögin. En er jeg hugleiði samband það, er þetta frv. hlýtur að standa í við önnur frv. milliþinganefndarinnar, þá sje jeg þar agnúa, sem valda því, að það er líka ómögulegt fyrir þingið að afgreiða þennan eina þátt í málinu. Það er eigi að eins það, að milliþinganefndin er klofin um eignarrjett vatnsins, sem þó eitt er nóg til þess, að þingið eigi ráði málinu til lykta fyr en kjósendur hafa athugað það og átt kost á að kveða upp sitt álit, heldur er og sumt í meðferð þingsins og hv. nefndar hjer, sem gerir það óforsvaranlegt. Hv. meiri hl. samvinnunefndarinnar vísar í álit og frv. meiri hl. milliþinganefndarinnar, þá stóru bók. Það gat verið mikið rjettmætt. En þessi sami hv. meiri hl. hefir breytt í verulegum atriðum þessu frv., og fyrir þeim breytingum hefir engin greinargerð legið fyrir þinginu.

Því lengur, sem jeg hlusta hjer á umr. um málið, og því meir, sem jeg hugsa um það, því sannfærðari er jeg um það, að þingið gerir ekki rjett í því að afgreiða það nú. Jeg tel það alt of fljótfærnislegt, alt of litla virðing sýnda þessu stórmáli, að afgreiða nú með lögum nokkurn þátt þess, eftir jafnlítinn og ófullkominn undirbúning.

En þótt þingið vildi, er ómögulegt að afgreiða þetta frv. nú, nema þingið sitji lengur en gert hefir verið ráð fyrir, og munu þó ýmsir líta svo á, að nú þegar sje fulllengi setið.

Og þetta er það, sem kemur mjer til að standa upp, og get jeg gefið þá yfirlýsingu, að jeg treysti mjer ekki til atkvæðagreiðslu um neinn þátt í þessu stórmáli.

Jeg álít, að þingið eigi ekki að snerta við þessu stórmáli fyr en landsstjórnin hefir athugað það, myndað sjer ákveðna skoðun og stefnu í málinu og geri frv. úr garði með greinilegum, rökstuddum ástæðum fyrir hverri grein og hverju ákvæði.

Jeg skal hjer eigi fara neitt inn á þá miklu spurningu um eignarrjett á vatni, sem valdið hefir klofningi nefndarinnar. En hitt ætla jeg stjórninni, að hún taki ákveðna afstöðu til þessa atriðis, því að fossalöggjöfin öll veltur töluvert á því, hvernig greitt verður úr þessari spurningu. Það álít jeg að stjórninni beri að gera áður en hún leggur fyrir þingið þau frv., sem nauðsynleg eru til þess, að ríkið fái heilsteypta, samfelda löggjöf um fossamálin.

Það hefir verið sagt, að hjer sje hver stundin dýrmæt, og að dráttur í málum geti kostað það, að fossabrask vaxi og ríkið missi meira af fossafli í hendur einstakra manna. Skal jeg ekkert um það segja, hvort þessi hætta sje mikil. En hins vegar ætti þinginu að vera í lófa lagið að setja undir þann leka, t. d. með þingsályktun um að skora á stjórnina að gæta alls, sem hægt er að gæta, til þess að stemma stigu fyrir fossabraski í landinu.

Þetta voru þau fáu orð, er jeg vildi sagt hafa, og þessi orð eiga að vera ástæður fyrir því, að jeg leyfi mjer að bera fram rökstudda dagskrá í fossamálunum, er svo hljóðar:

Í því trausti, að landsstjórnin taki til rækilegrar yfirskoðunar frumvörp milliþinganefndarinnar og þingnefndanna í ár í fossamálinu, og leggi síðan fyrir Alþingi frumvörp til samfeldrar fossalöggjafar fyrir ríkið, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskránni.

Gagnvart þeirri mótbáru eða athugasemd um þessa dagskrá, að hún sje undan mínum rifjum runnin, af því að jeg vilji eyða málinu, þá skal sleginn sá varnagli, að svo er alls ekki. Jeg ætlast ekki til þess með dagskránni að skjóta málinu á frest um óákveðinn tíma, heldur að stjórnin hefjist þegar handa og undirbúi þetta stórmál eins og það á kröfu til og þörf gerist. En til vara legg jeg til, að málinu sje vísað til stjórnarinnar.

Að svo mæltu leyfi jeg mjer að afhenda hæstv. forseta dagskrána.