06.08.1919
Neðri deild: 26. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í C-deild Alþingistíðinda. (3115)

72. mál, hundaskattur

Magnús Pjetursson:

Jeg skal ekki lengja umr., ætla að eins að minnast á brtt. á þgskj. 228. Jeg talaði við síðustu umræðu um þetta atriði, og því mátti búast við, að slík brtt. kæmi fram. Jeg hefi ekki miklu við það að bæta, sem jeg sagði þá; mjer þykir að eins eðlilegt og sjálfsagt, að bæjarstjórnir og sýslunefndir ákveði sjálfar, hvað þær telji óþarfahunda og hvað ekki. Mig undrar, hvað nefndin er stirð í þessu máli. Hv. frsm. (E. Árna.) sagði, að betra væri að fella frv. en að samþ. brtt. En munurinn er enginn annar en sá, að frv. fer fram á, að ákveðið verði í eitt skifti fyrir öll, hvað eigi að teljast óþarfahundar og hvaða skattur skuli á þeim hvíla, en brtt vill láta bæjarstjórnir og sýslunefndir ákveða þetta eftir því, sem álitið yrði á hverjum stað. Frá sjónarmiði nefndarinnar ætti að vera betra að samþ. brtt. en að fella frv., því brtt. segir óþarfahundunum stríð á hendur, engu að síður en frv., þó í skynsamara formi sje. Ef frv. er aðallega fram komið vegna Reykjavíkur, þá nær brtt. alveg tilgangi þess. Jeg get þess vegna ekki sjeð annað en að það sje undarlegur þrái, sem fær nefndina til að leggja svona eindregið á móti brtt.