30.07.1919
Efri deild: 18. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

33. mál, tollalög

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Fjárhagsnefnd hefir leyft sjer að bera fram brtt. á þgskj. 197, á þá leið, að fjögra króna tollur verði lagður á hvern lítra af ilmvötnum og hárlyfjum, sem vínandi er í. Jeg býst við, að háttv. deild geti fallist á, að hjer sje ekki um neina nauðsynjavöru að ræða og sje þetta að því leyti góður tollstofn. Einnig gæti þessi tollur numið álitlegri upphæð, þó að ekki sje unt að koma með áætlun um það. Jeg hygg því, að ekki þurfi að mæla mikið með þessari brtt. Engum mun koma til hugar, að þessi tollur kæmi hart niður á fátæklingum, því að þeir munu síst nota þessar vörur, en annars hafa þeir viljað flækjast fyrir mönnum nokkuð sitt á hvað, þá er um tollhækkanir hefir verið að ræða.

Þá hafa þrír háttv. þm. flutt þá brtt. á þgskj 195, að tollur af tóbaki sje lækkaður niður í 3 kr., úr 4 kr. Jeg gat þess við 2. umr., að fjárhagsnefnd væri því fremur hlynt, að tóbakstollurinn yrði ekki hækkaður frá því, sem nú er. En nefndin flutti ekki brtt. um þetta af þeirri ástæðu, að hún hugði það árangurslaust. Hækkunin á tóbakstollinum var samþykt með svo yfirgnæfandi meiri hluta í háttv Nd., 18 atkv. gegn 8, að þessi háttv. deild getur litlu um þokað, nema hún sje öll á einu máli. Það væri því leikur einn, að samþ. þessa brtt., þar sem háttv. Nd. stendur svo fast á móti og mundi eflaust fella hana. Annars hefir nefndin ekki tekið afstöðu til þessarar brtt., svo að atkvæði nefndarmanna eru frjáls í þessu efni.

Þá vil jeg minnast á brtt. á þgskj. 199, frá háttv. þm. Ak. (M. K.). Þar er lagt til, að tollur á vínanda, sem notaður er til eldsneytis eða iðnaðar, sje 2 kr., í stað 4 kr. í frv. Mjer er óhætt að fullyrða að meiri hluti nefndarinnar leggur eindregið á móti því, að þessi tillaga sje samþ. Þó að tollurinn væri ef til vill ákveðinn í hærra lagi af nefndinni, þá mætti minna gagn gera en að lækka hann um helming.

Annars skal jeg ekki ræða um þessa vöru sem tollstofn. Það var gert svo rækilega við síðustu umr., að jeg hefi þar engu við að bæta. En ef tollurinn fær að standa óhaggaður, myndi hann nema allmiklu, alt að 50 þús. kr. Á það ber einnig að líta, því að við verðum að gera alt, sem unt er, til þess að auka tekjur ríkissjóðs.