17.09.1919
Neðri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í C-deild Alþingistíðinda. (3175)

149. mál, þingsköp Alþingis

Jörundur Brynjólfsson:

Þó að brtt. á þgskj. 819 sje til bóta frá því sem frv. var, get jeg samt ekki verið henni hlyntur. Jeg hygg, að mörgum verði vonbrigði að því, ef hætt yrði að prenta þingtíðindin. Þeir fáu, sem þingtíðindin lesa, láta sig að ýmsu þjóðmál skifta, svo fróðleikurinn, sem í þeim er, kemst með þeim hætti til fleiri manna. En eins og tekið hefir verið fram, þá eru þeir miklu fleiri, sem lesa þingtíðindin, en gefið hefir verið í skyn. Þó að þetta kunni að spara útgjöld úr ríkissjóði, hygg jeg, að fullmikið sje gert úr þeim sparnaði í greinargerð flm., því að jeg held, að þegar alt kemur til alls og búið er að ganga frá þingskjölunum, þá muni sá kostnaður vega hátt upp í það, sem gert er ráð fyrir að sparist. Og enn fremur ber þess að gæta, að nú eru óvenjulegir tímar, að því er kemur til kostnaðar á pappír og prentun. —

Jeg tel ekki rjett að gera þetta að óvörum þjóðinni. Því er ekki að neita, að kjósendur eiga rjett á að sjá, hvað sagt hefir verið á þingi. Og þeir, sem gert hafa mikið úr þessum prentunarkostnaði, verða að taka tillit til þess, að krónan hefir ekki meira gildi til þessa verks heldur en til margs annars. Flm. hafa haldið því fram, að krónan hafi nú ekki nema þriðjungsgildi við það, sem áður var. Það er því eðlilegt, að krónutalan við útgáfukostnaðinn aukist. Og jeg skal bæta því við, að gæti landið ráðist í að fá sjer prentsmiðju, má gera ráð fyrir, að þessi kostnaður yrði minni. Jeg hygg, að rjett sje að láta frv. bíða og sjá, hvort ekki verður hægt að komast að betri kjörum. Jeg hefi þess vegna hugsað mjer að bera fram svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

Í því trausti, að stjórnin athugi nú þegar kostnaðarhlið þessa máls, og komi, ef henni þykir þess þörf, með till. fyrir þingið um að fresta prentun umræðuparts þingtíðindanna að þessu sinni, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.

Þetta vil jeg að stjórnin athugi, því að hún hefir að mörgu leyti betri aðstöðu en einstakir þm., og sjái, hver árangur kann að verða af þeirri athugun.