12.09.1919
Neðri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í C-deild Alþingistíðinda. (3218)

151. mál, heimild handa landsstjórninni til að kaupa hús

Gísli Sveinsson:

Jeg man ekki til þess, að komið hafi fram í þinginu áður till. lík þessari, þann tíma, sem jeg hefi setið á þingi, og þó að lengra sje leitað. Hjer er farið fram á, að Alþingi samþ., án þess því sje kunnugt um málavöxtu, að skipa stjórninni að kaupa sjerstakt, tilnefnt hús, sem þm. ekkert þekkja, og svo bætist þar ofan á, að þessi till. er að eins flutt af einum þm. Það væri að vísu ekki svo athugavert, þótt till. sje flutt af einum manni, ef fyrir lægju upplýsingar um, að þetta væri að öllu leyti ráðlegt. En það er síður en að svo sje. Þessi eini maður, sem flytur till., hefir átt sæti í nefnd, sem hefir athugað húsið, og athugað það eftir tilmælum stjórnarinnar, þykist jeg vita. En þar sem svo öll nefndin, nema þessi eini maður, ræður frá kaupunum, þá að minsta kosti fer málið að verða nokkuð einkennilegt.

Það hefir nú heyrst hjer í deildinni, að meiri hl. hæstv. landsstjórnar mælir með kaupunum og leggur til. með vægum orðum, að till. verði samþ. hjer. Það getur verið, að hæstv. ráðherrar þekki hjer betur til en aðrir, en þeir verða þá að minsta kosti að gefa þær upplýsingar um húsið, að það sje þannig bygt, að landinu sje samboðið að kaupa það. En um það verður maður að efast.

Jeg skal ekki á þessu stigi málsins — og jeg vænti þess fastlega, að aldrei verði neitt annað stig á málinu — fara mikið út í það, hvað ýmsir hafa sagt um þetta hús. En það vita allir, sem til þekkja og nokkurt skyn bera á húsabyggingar, að húsið er sannkölluð hrákasmið. Því er hróflað upp meira af vilja en mætti, eins og svo mörgum öðrum húsum nú síðustu árin. Menn hafa gert þetta sumpart í eðlilegu gróðaskyni, sumpart vegna húsnæðisskortsins. Jeg hefi heyrt, að hús þetta eigi nú fjelag manna og jafnframt, að það sje nú í braskarahöndum. Það er í sjálfu sjer ekki meira en segja má, því miður, um ýms önnur hús hjer í bænum. Braskaramenskan er þegar búin að leiða til mikillar ánauðar fyrir þennan bæ og þetta land. Og við ættum svo ekki að eiga annað eftir, nú í lok þessa þings, en að fara að samþykkja það, að landið sjálft skuli nú líka taka þátt í fasteignabraskinu og húsabraski þessa bæjar!

Húsabraskið er orðið svo magnað, og framkoma sumra húsabraskaranna þannig, að fullkomlega varðaði við lög, ef fylgt væri ströngustu reglu. Og svo ætti landið að gerast einn húsabraskarinn í viðbót! Nei, þá væri rjettara að heimila stjórninni að kaupa eitthvert ótiltekið hús upp á sína ábyrgð, svo að Alþingi sje alls ekki að róta sjer inn í þau kaup. Jeg vil því fastlega ráða hv. deildarmönnum frá að samþ. till., því að það væri áreiðanlega að kóróna skömmina.