28.08.1919
Neðri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í C-deild Alþingistíðinda. (3256)

82. mál, skilnaður ríkis og kirkju

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Það er að eins fátt eitt, sem jeg ætla að segja, og hvorki í sambandi við pólitík nje trúfrelsi. Að eins er það eitt formsatriði, sem jeg vildi minnast á og æskja upplýsinga um hjá hv. nefnd.

Mjer skilst, að ef till. verður samþ., eigi stjórnin að spyrja sóknarnefndir um álit þeirra á málinu, en þær leiti álits safnaðarmeðlima, og fari svo svarið eftir því, hvernig þeir skipist við. — Nú þekki jeg nokkuð til þess, hvernig sóknarnefndarfundir eru sóttir. Sjaldan geta nema einn eða tveir menn af heimilinu sótt fundina. Hvernig á svo að fara að, ef ekki sækir einu sinni helmingur atkvæðisbærra manna fundina? Og nú verður má ske ekki nema lítill meiri hl. þeirra, sem safnaðarfund sækja, sem vilja skilnað. Jeg býst við, að svarið verði, að ekki beri að taka tillit til þeirra, sem ekki sækja fundinn; þeirra atkv. sjeu dauð atkvæði. En með þessu er þjóðarviljinn ekki fenginn. Þar vantar mikið á. Mjer þætti vænt um að fá að heyra skýrt skoðun meiri hl. nefndarinnar á þessu formlega atriði.

Jeg skildi ekki frsm. minni hl. (Þorst. J.) eins og síðasti ræðumaður virtist skilja hann, að mál þetta yrði til þess að tefja störf þingsins. Hann átti víst við það eitt, að þetta væri svo umfangsmikið mál, að það væri óheppilegt að bæta því ofan á svo mörg önnur stórmál, sem fyrir þinginu liggja, vegna þess, að þjóðinni mundi ekkert áhugamál, að þingið færi að skifta sjer af þessu nú. Og jeg er þar alveg samdóma hv. frsm. minni hl. (Þorst. J.). Að öðru leyti vil jeg alveg frábiðja mjer þær aðdróttanir, að þetta sje orðið mjer, og fleirum, pólitískt flokksmál.